Stefnumótun í menntunarmálum í landbúnaði

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 16:13:07 (5175)

1997-04-15 16:13:07# 121. lþ. 102.4 fundur 377. mál: #A stefnumótun í menntunarmálum í landbúnaði# þál., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[16:13]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það kemur ekki á óvart að fulltrúar sérskólanna vilji viðhalda því ástandi sem nú er. Það hefði satt að segja komið mér meira á óvart ef þeir hefðu haft áhuga á að breyta til. Ég held að það sé bara það sem við megum reikna með á hverjum tíma. Og ég hygg að það sé nákvæmlega það sem menn urðu líka varir við þegar verið var að breyta menntunarmálum sjávarútvegsins þannig að þau féllu að framhaldsskólastiginu. En það er líka vegna þess að menn eru fullkomlega meðvitaðir um þetta að stungið er upp á því að yfir málið fari nefnd sem er skipuð nokkuð breiðari hópi, vegna þess að það er jú trú okkar að það séu kannski ekki bara þeir sem málið snýr að hagsmunalega séð sem eigi að ráða því hvernig framtíðarstefnan er, heldur eigi þeir miklu frekar að koma að sem eiga við kerfið að búa, og þá með hinum ef ekki talin ástæða til annars, hafa það sem hluta af menntakerfi og hluta af atvinnustefnu hér í landinu. Hér er í rauninni um mál allrar þjóðarinnar að ræða en ekki bara þeirra sem starfa við sérskólana eða veita þeim forstöðu.