Lánasjóður íslenskra námsmanna

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 17:20:27 (5188)

1997-04-15 17:20:27# 121. lþ. 102.8 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[17:20]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Við skiljum vel að framsóknarmönnum finnist þeirra staða vera skrýtin í þessu máli. Það skiljum við mjög vel og ég votta hv. þm. Jóni Kristjánssyni og öðrum hv. þm. Framsfl. mína dýpstu samúð að þurfa að vera í þessum sporum í málinu.

Ég held að Framsfl. hafi valið akkúrat öfuga taktík í þessu máli. Ég held að ef framsóknarmenn hefðu komið hreint fram til dyranna og sagt: Þetta er að vísu mjög lítið, allt of lítið, en það er skárra en ekki neitt. Þá hefðu menn haft skilning á þeim málflutningi. Það sem fer í taugarnar á mér eru furðulegir tilburðir framsóknarmanna til að reyna að snúa þessu upp í einhvern stóran sigur, einhverja merkilega mikla efnislega niðurstöðu, að þeir hafi dregið þann stóra, þeir hafi landað stóra fiskinum í þessu máli. Það er bara ekki svo. Þetta er seiði, þetta er undirmálsfiskur sem hér hefur verið dreginn inn. Það er ekkert annað. Hann gengur ekki. Það er út á þennan málflutning sem ég er sérstaklega að setja. Það var vegna þessa málflutnings sem ég fór lið fyrir lið yfir breytingarnar á lögunum um lánasjóðin 1992 til að sýna fram á það sem því miður er staðreyndin, að það er aðeins í tvennu, og að mjög litlu, sem einhver árangur næst en allt hitt liggur úti. Allar hinar skemmdirnar sem unnar voru á lánasjóðslögunum 1992 eru óbættar samkvæmt þessari niðurstöðu. Það er þetta sem ég held að menn verði að reyna að átta sig á, herra forseti. Ef Framsfl. vill fá fundarhlé til að hugsa málið þá er ég viss um að forseti verður við því. Hann hefur skilning á þessari stöðu.