Lánasjóður íslenskra námsmanna

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 17:22:18 (5189)

1997-04-15 17:22:18# 121. lþ. 102.8 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[17:22]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Satt best að segja nenni ég ekki að fara að bera saman kosningaloforð framsóknarmanna og efndir þær sem hér eru að finna. Ég ætla ekki einu sinni að eyða í það neinum tíma, það tekur því ekki vegna þess að þetta eru aðeins brot af þeim loforðum sem gefin voru 1995. Ég get tekið undir það með hv. 4. þm. Norðurl. e. að sú aðferðafræði, sem þeir hafa beitt í þessari umræðu, að kalla þetta stórsigur og vera að ná einhverjum árangri er þeim sjálfum til háborinnar skammar ef mið er tekið af þeim loforðum sem þeir gáfu í síðustu kosningum. Að öðru leyti ætla ég ekki einu sinni að eyða orði að þessum samanburði, virðulegi forseti, heldur snúa mér að því frv. sem hér er til umræðu, um breyting á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna.

Virðulegi forseti. Það er ýmislegt til bóta í þessu frv. þó að það nái kannski ekki öllu því sem Framsfl. lofaði. En ýmislegt er til bóta og fyrst er þar til að taka að í þessari þó undarlegu útfærslu er kveðið á um að námsmaður eigi möguleika á að fá greiddan vaxtastyrk sem er ætlað að bæta honum fjármagnskostnað og það er til bóta, virðulegi forseti, þó að þetta sé undarleg útfærsla.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, er endurgreiðsluhlutfallið lækkað, þó ekki sé það hátt, úr 5% í 4,75. Það er líka til bóta. Það er til bóta frá því sem nú er. En þar með er upp talið það sem í frv. er að finna og hægt er að tala um að séu einhver framfaraspor í lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna.

Virðulegi forseti. Það sem mig langaði fyrst og fremst að tala um er kannski það sem ég sakna mest, fyrir utan það að sakna loforða Framsfl., þá sakna ég þess virkilega úr umræðunni að menn skyldu ekki taka á þeim tæknilega gölluðu lögum sem lög um Lánasjóð ísl. námsmanna eru. Þetta eru því miður gríðarlega gölluð lög tæknilega og eru svo opin að stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna er nánast falið sjálfdæmi um þær úthlutunarreglur og hvernig hún háttar úthlutun lána. Þar hefur Alþingi, að mínu viti, gersamlega brugðist að skilja svo við lögin að stjórn LÍN geti nánast farið með þau eins og óútfyllta ávísun. Það hefur komið á daginn að í grg. með þeim margnefndu lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð ísl. námsmanna, er að finna áætlun upp á það að lán úr lánasjóðnum 1996 yrðu 2,8 milljarðar en eru í dag á milli 1.500--1.600 millj. ef ég fer rétt með. Þar skeikar 1,2 milljörðum sem að stærstum hluta til má rekja til þeirra lánaúthlutunarreglna sem stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna hefur sett. Og í raun og veru hafa hæstv. menntamálaráðherrar, annars vegar í þessari ríkisstjórn og hins vegar þeirri síðustu, getað stjórnað úthlutunarreglum í gegnum þessi víðfeðmu lög, þessi tæknilega ófullkomnu lög sem gera það að verkum að lánasjóðnum er nánast sett sjálfdæmi um hvernig útlánum er hagað. Það finnst mér vera stærsti gallinn á lögunum en í þessu frv. er engin tilraun gerð til að taka á þeim galla. Ég sakna þessa mjög.

Virðulegi forseti. Ég gerði það nú að gamni mínu að sækja hér ræður sem annars vegar ég flutti og síðan hæstv. menntmrh. í umræðum utan dagskrár 3. desember sl. kl. 14.51 en þar segir svo, með leyfi forseta, þar sem ég les upp úr ræðu hæstv. menntmrh.:

,,Ég er sammála hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni að það er æskilegt við endurskoðun á lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna að taka fleiri atriði sem nú eru í úthlutunarreglunum inn í lagatextann sjálfan. Ég held að það sé rétt ábending sem hann er með að lagatextinn er að ýmsu leyti of heimildarmikill til stjórnar lánasjóðsins og það er óeðlilegt að þingmenn afsali sér valdi með þeim hætti sem gert er í lögunum. Þetta er eitt af því sem við höfum verið að skoða við endurskoðun á lögunum og reglunum um Lánasjóð ísl. námsmanna og er sjálfsagt að taka til skoðunar.``

Það er nákvæmlega þetta, virðulegi forseti, sem ég hefði viljað sjá að tekið væri til endurskoðunar. Að þingmenn sjálfir beri ábyrgð á þessum reglum en gefi ekki nánast út óútfyllta ávísun til handa stjórn úti í bæ til að setja þessar reglur. Hér er ekki verið að gefa ávísun um neitt smotterí því að í fyrsta lagi, virðulegi forseti, er stjórn lánasjóðsins sett sjálfdæmi um það hvernig framfærslugrunnur sé skilgreindur í lögunum, þ.e. sá grunnur sem stendur undir útreikningi á útlánum. Það er í raun og veru forsenda þeirrar fjárhæðar sem viðkomandi námsmaður fær. Það er ekki lítið að þetta skuli nánast fært einhverri stjórn úti í bæ. Það er þetta valdframsal sem að mínu viti hefur leitt til þess að ekki hefur þurft að leggja meira til lánasjóðsins en raun ber vitni. Áætlanir 1992 gera ráð fyrir 2,8 milljörðum. Niðurstaðan í dag er 1.500--1.600 millj. Það má að stórum hluta til rekja til þeirra úthlutunarreglna sem hæstv. menntmrh. hafa getað farið með sjálfir í gegnum stjórn lánasjóðsins. Kannski er það ekki nema von að hæstv. menntmrh. vilji ekkert hrófla við þessu því að þetta er vitaskuld óskaplega þægilegt að hafa þetta svona, að geta nánast fjarstýrt þessu úr ráðuneytinu. Ég skil því ekki framsóknarmenn að þeir skuli ekki reyna að taka á þessu frekar en að berja sér á brjóst yfir þeim litlu sigrum sem þeir þó unnu, það er rétt, sem þeir þó unnu. Það eru tvö framfaraspor í þessu frv. ef hægt er að tala um framfaraspor.

[17:30]

Svo ég víki nú að frv. sjálfu, virðulegi forseti, þá vil ég fyrst staldra ögn við í 2. gr. þar sem er að finna breytingar á 5. gr. laganna. Þar er kveðið á um að úrskurðir stjórnar í þessu sambandi séu endanlegir og verði ekki kærðir til æðra stjórnvalds. Þegar við skoðum hverjir viðskiptavinir lánasjóðsins eru þá eru það námsmenn. Það eru námsmenn sem fæstir hverjir hafa efni á því að standa í löngum, ströngum málarekstri fyrir dómstólum. Þess vegna er mjög hastarlegt, virðulegi forseti, að þessi lög skuli þannig úr garði gerð að ef námsmenn vilja ekki sætta sig við niðurstöðu stjórnar lánasjóðsins, þá sé þeim aðeins einn vegur fær, þ.e. fyrir dómstólum. Ég heyrði það reyndar í gær að hv. þingmenn sem tóku hér til máls voru að nefna að til væri eitthvað sem héti umboðsmaður Alþingis, að hann væri einhver varnagli ef í hart færi. En í raun og veru eru dómstólar þeirra eina leið til að fá niðurstöðu sem getur breytt ákvörðun stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna. Það er hastarlegt að setja fólki sem er að fá framfærslulán og vill fá ákvörðun stjórnar lánasjóðsins breytt, stólinn fyrir dyrnar í þessum efnum. Svo ég tali nú ekki um þær hugmyndir sem heyrðust hér í gær og er að finna í b-lið 2. gr. um að stjórn sjóðsins sé heimilt að skipa undirnefndir úr hópi stjórnarmanna til að fjalla um einstök mál og gera tillögur fyrir stjórn sjóðsins. Eins og það komi að einhverju leyti í staðinn fyrir þá eðlilegu stjórnsýslureglu og venju sem hefur verið að ryðja sér til rúms til margra áratuga um að heimilt sé að kæra ákvörðun lægra setts stjórnvalds til æðra setts stjórnvalds. Og þetta er sérstaklega hastarlegt þegar um námsmenn er að ræða, sérstaklega hastarlegt. Satt best að segja virðulegi forseti, man ég ekki eftir þessu í loforðalista Framsfl.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, vildi ég nefna 3. gr. frv. Ég nefndi áðan að ég teldi það þó framfaraspor að námsmaður geti fengið greiddan vaxtastyrk sem ætlaður er til þess að bæta honum fjármagnskostnað. En ég vil vekja athygli á orðalagi 3. gr. en þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Námsmaður fær greiddan vaxtastyrk sem ætlaður er til að bæta honum fjármagnskostnað vegna framfærslu í samræmi við rétt hans til námsláns á hverjum tíma.``

Af þessum málslið má ráða að ætlunin sé að greiða að fullu þann fjármagnskostnað sem viðkomandi námsmaður hefur af því kerfi sem nú er við lýði. En svo segir í framhaldinu:

,,Styrkurinn greiðist við útborgun námsláns og miðast við meðaltal vaxta- og lántökukostnaðar banka og sparisjóða eins og hann er á hverjum tíma``, og svo að lokum, virðulegi forseti, þá virðist mér nú að ekki hafi misfarist í þessu frekar en öðru ,,samkvæmt nánari reglum sem stjórn sjóðsins setur.``

Enn og aftur virðist eiga að framselja stjórninni vald í þessum efnum. Svo ef maður skoðar útreikninga fjmrn. sem hæstv. félmrh. vildi ekki bera ábyrgð á í umræðunum í gær þá kemur þar fram að reiknað er með að kostnaður vegna þessa sé á bilinu 36--60 millj. og það er verulegur mismunur þar á. Virðulegi forseti. Ég átta mig því ekki alveg á því hvað þessi grein þýðir nákvæmlega. Ekki er skárra að lesa greinargerðina með þessu. Þar er gert ráð fyrir að allir sem sækja um lán og fá námslán njóti vaxtastyrksins án tillits til þess hvort þeir hafi raunverulega þurft að greiða fjármagnskostnað eða ekki. Þessi niðurstaða er nú ekki snilld, virðulegi forseti. Hún verður seint sökuð um það. Ég vænti þess að hæstv. menntmrh. geri nánari grein fyrir þessu vegna þess að þessi grein fer ágætlega af stað og það má jafnvel lesa úr henni að það eigi að greiða þann fjármagnskostnað sem námsmenn verða fyrir. En þegar maður les hana áfram, þá er opnað á sitt lítið af hverju þannig að menn geti svona afgreitt þetta eftir því hvernig vindar blása hverju sinni o.s.frv. En það hlýtur nú að vera, virðulegi forseti, svolítið broslegt að ekki skipti máli við útgreiðslu meints vaxtastyrks sem á að greiða vegna fjármagnskostnaðar hvort nokkur fjármagnskostnaðar hafi orðið eða ekki. Það er örlítið broslegt þó að þessi málaflokkur sé langt frá því að vera broslegur.

Að lokum, virðulegi forseti, vildi ég örlítið koma inn á 5. gr. sem ég hef verulegar áhyggjur af, þ.e. fastagreiðsluna sem er 52.968 kr. og það er án tillits til þess hverjar tekjur námsmenn hafa. Og þó að ég sé ekki með loforðalista Framsfl. fyrir framan mig, þá geri ég ekki ráð fyrir að þetta hafi verið á honum, virðulegi forseti. Ég nefndi það í upphafi að það væri kannski að æra óstöðugan að halda áfram að rekja loforðalista Framsfl. og síðan að bera hann saman við þessa niðurstöðu. Ég hálfpartinn lofaði að gera það ekki.

En að lokum er kannski ágætt, af því að ég er með þetta hérna við hendina, að nefna eitt atriði, af því að menn hafa talað um að það væru þó einhverjar leiðir ef í hart færi og menn væru ekki sáttir við ákvarðanir stjórnar lánasjóðsins, að fá þeim breytt. Hér nýgenginn dómur föstudaginn 11. apríl á dómþingi héraðsdóms Reykjavíkur í mjög einföldu máli því að í lögunum sagði að menn skyldu hefja greiðslur á afborgunum tveimur árum eftir að þeir lykju námi. Það er í sjálfu sér ekki strembin stærðfræði að reikna tvö ár frá því að menn útskrifast og þar til þeir eiga byrja að borga. En það misfórst hjá stjórn lánasjóðsins þannig að viðkomandi var krafinn greiðslu áður en umrædd tvö ár voru liðin. En þrátt fyrir það --- ég veit ekki hvort það er Íslandsmet í þvermóðsku eða einhverju öðru --- þurfti að fara fyrir dómstóla með það mál. Og það er ágætt að nefna það, virðulegi forseti, að málskostnaður í því máli er dæmdur, að mig minnir, um 100 þús. kr., 100 þús. kr. í málskostnað auk virðisaukaskatts kostaði námsmann að fá réttlætinu fullnægt. Og það er nú ekki eins og námsmenn taki 100 þús. kr. sisvona bara upp úr vasanum. Það er bara ekki þannig. Og þetta ákvæði um að ekki skuli vera hægt að vísa ákvörðun stjórnar lánasjóðsins til æðra dómsvalds er sérstaklega hastarlegt í því ljósi að viðskiptamenn Lánasjóðs ísl. námsmanna eru námsmenn sem fæstir hverjir hafa efni á því að standa í löngum málaferlum.