Lánasjóður íslenskra námsmanna

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 17:59:46 (5191)

1997-04-15 17:59:46# 121. lþ. 102.8 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[17:59]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. 12. þm. Reykv. fyrir málefnalega ræðu um þetta mál. Þingmaðurinn viðurkennir að þetta frv. er til bóta. Hins vegar var það eitt atriði sem hún kom inn á í ræðu sinni sem ég vildi skýra. Hún taldi rökin skorta fyrir að láta bankana sjá um fyrirgreiðslur til námsmanna. Ég vildi skýra það frá sjónarmiði okkar framsóknarmanna, að bankakerfið er alls ekki það sama nú og það var áður. Það er aukin samkeppni í bankakerfinu. Bankarnir sjá um greiðsluþjónustu fyrir námsmenn. Það er aðgengilegt fyrir námsmenn að skipta við sinn viðskiptabanka og fá hjá honum þjónustu sem bankarnir sjá vissulega um nú orðið í mjög ríkum mæli. Ég held þess vegna að þarna sé verið að feta sig að fyrirkomulagi sem er alls ekki óhentugt fyrir námsmenn þó ég sé alls ekki með þessu að segja að lánakerfið í gegnum Lánasjóð ísl. námsmanna sé úrelt. En ég held að þessi tvö kerfi geti hæglega spilað saman til hagsbóta fyrir námsmenn.

Varðandi málskotsréttinn er rétt að benda á að það eru aukin áhrif námsmanna í stjórn lánasjóðsins. Hins vegar ætla ég ekkert að taka af um þetta atriði. Mér finnst þetta vera atriði sem hv. menntmn. getur skoðað í sinni vinnu og metið rök og gagnrök í þessu. Ég ætla ekki að orðlengja um það að sinni.