Lánasjóður íslenskra námsmanna

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 18:33:26 (5197)

1997-04-15 18:33:26# 121. lþ. 102.8 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[18:33]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. menntmrh. þau svör sem hann veitti við spurningum mínum sem flest voru skýr. Ég heyrði þó ekki svar við einni spurningu varðandi greinina um heimildina til að veita viðbótarlán vegna veikinda eða vegna þess að skóli byði ekki upp á fullt nám. Ég spurði hvers vegna ekki væri skýrt ákvæði um að það væri skylda að veita slík lán og hvað þetta þýddi, hvort þarna væri ákveðin upphæð, hvort stjórnin gæti ákveðið að veita sumum en ekki öðrum og hvort einhver trygging væri fyrir því að slíkt lán fengist. Mér finnst ákvæðið vera mjög veikt miðað við að stjórnin hefur endanlegan ákvörðunarrétt um öll mál. Ég get ekki séð að stúdentar hafi nokkra tryggingu fyrir því, ef þeir verða veikir eða ef skólar geta ekki skipulagt fullt nám, að þeir fái þá slíkt viðbótarlán. Ég vildi aðeins fá að heyra hvort ráðherra getur upplýst mig um þetta.

Að öðru leyti vil ég nefna að mér fannst röksemdafærslan varðandi samtímagreiðslurnar ekki nægilega trúverðug. Hvers vegna þær eiga að vera dýrari en 226 millj. kr. eða jafnvel 800 millj. kr., vegna aukinnar ásóknar í sjóðinn. Ef hæstv. ráðherra getur skýrt þá röksemdafærslu aðeins betur þá yrði ég þakklát fyrir það.