Lánasjóður íslenskra námsmanna

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 18:57:41 (5202)

1997-04-15 18:57:41# 121. lþ. 102.8 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[18:57]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef af ráðnum hug ekki farið að tala hér um fjárhag sjóðsins og síst átti ég von á því að hv. þm. Svavar Gestsson færi að ræða um stöðu sjóðsins fyrir árið 1992 þegar við stóðum að því að breyta sjóðnum til þess að bjarga honum frá greiðsluþroti sem við blasti vegna þess hvernig hv. þm. skildi við hann þegar hann hætti sem menntmrh. skömmu áður. Ég taldi að umræðurnar hér ættu að snúast um annað en þetta. Við höfum svo lengi talað um þetta. Þetta liggur skýrt fyrir og margar skýrslur hafa verið samdar um þetta mál sem staðfesta réttmæti þess að ef lögunum hefði ekki verið breytt 1992 þá hefði sjóðurinn farið í greiðsluþrot. Ég tel einnig að hv. menntmn. geti aflað sér allra þeirra upplýsinga og kallað fyrir sig alla þá sérfræðinga sem hún þarf til þess að kynna sér hinar tölulegu staðreyndir í þessu máli og þær tölur sem liggja að baki þessu frv. Ég hef því af ráðnum hug ekki farið út í umræður um einstakar tölur eða lagt mat á þær eða lánsfjárhæðir og annað slíkt. Það finnst mér ekki vera til þess að skýra það mál sem hér er til umræðu. Hér er mjög einfalt og skýrt mál til umræðu um breytingar á lánasjóðnum, og um það hefur náðst góð sátt.

Ég var spurður um það hvernig ætti greina og skýra 7. gr. frv., þ.e. viðbótina við 12. gr. laganna. En í 12. gr. segir í 1. mgr., ef ég má, með leyfi herra forseta, lesa það orðrétt:

,,Sé námsmanni vegna örorku sinnar, framfærslu barna sinna eða maka eða af öðrum ástæðum illmögulegt að dómi sjóðstjórnar að stunda nám sitt að fullnýttri lánsheimild má veita honum aukalán úr sjóðnum enda verði höfð hliðsjón af þeim bótum sem hann fær samkvæmt gildandi tryggingalöggjöf. Lán þessi eru veitt með sömu kjörum og almenn námslán.``

Síðan bætist þessi grein við:

,,Þá er stjórn sjóðsins heimilt að veita lán með sömu kjörum og almenn námslán vegna annarra áfalla en greinir í 1. mgr., svo sem ef námsmanni stendur ekki tímabundið til boða fullt nám samkvæmt skipulagi skóla eða veikindi valda því að námsmanni tekst ekki að standast prófkröfur.``

[19:00]

Þetta orðalag verður ekki skilið öðruvísi en svo að það sé ekki tæmandi. Það geta verið önnur tilvik, annars hefðum við orðað þetta með öðrum hætti, því orðin ,,svo sem`` gefa til kynna að menn kunni að líta til annarra tilvika en þeirra sem þarna er getið. Það held ég að geti ekki farið milli mála og allir lögfræðingar mundu segja sem svo að þarna væri um matsatriði að ræða. Af ásettu ráði er þetta orðað svona. Einnig er þess að geta að í gildandi úthlutunarreglum í grein 232 eru t.d. ákvæði um veikindi og barnsburð þar sem þetta er útfært. Menn hafa reynslu af því í lánasjóðnum að taka á slíkum málum, en með þessu er veitt ótvíræð lagaheimild til þess.

Að því er varðar skipulag skóla þá er það orðalag sem menn geta velt fyrir sér. Hvað felst í því? Það felst í því að skóli hafi með skipulagi sínu komið í veg fyrir að námsmaður geti uppfyllt þær kröfur um námsárangur sem hann gekk út frá og lánasjóðurinn gerir annars kröfur til. Það eru slík tilvik sem menn eru að taka á með þessu orðalagi og líta til þegar um þetta mál verður fjallað. Þetta er sá sveigjanleiki sem nauðsynlegur er að okkar mati miðað við reynsluna frá 1992 og þau lög sem nú eru í gildi, sem að mörgu leyti eru mjög góð lög og hafa reynst námamönnum almennt mjög vel. Það er rangt að kenna þeim lögum um og segja að lántakendum hafi fækkað en sleppa því að segja að námsmönnum hefur fjölgað. Það er ekki markmið í sjálfu sér þegar við erum að setja lög sem þessi að fjölga endilega lántakendum. Það sem hlýtur að vera markmiðið er að fjölga námsmönnum í námi sem er lánshæft á starfssviði lánasjóðsins og það er það sem hefur gerst. Það kemur hvergi fram í lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna og hvergi sett sem markmið að sem flestir námsmenn skuli taka lán úr sjóðnum. Það er ekki markmið sjóðsins. Hann á að koma til móts við þá sem þurfa á fjármunum að halda til þess að stunda nám en hann á ekki að verða sjóður sem menn sækja til eftir lánum ef þeir þurfa ekki á slíku að halda. Það markmið náðist m.a. með lögunum frá 1992 og þess vegna er mjög mikilvægt að standa þannig að málum að við slíku verði ekki hróflað. Námsmönnum hefur fjölgað þótt lántakendum hafi fækkað.