Lánasjóður íslenskra námsmanna

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 19:06:20 (5205)

1997-04-15 19:06:20# 121. lþ. 102.8 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[19:06]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að ég harma það mjög að hafa ekki komist á fund Rannskóknarráðs en það var af því að ég var að sinna mínum þingskyldum, m.a. gerði ég ráð fyrir að mál menntmrh. yrði hér á dagskrá í dag. En veruleikinn er nú samt sem áður sá að þegar skoðaður er fjöldi lántakenda og þróun þeirra frá árinu 1992, þá er bersýnilegt að þar er um stórfellda fækkun að ræða. Stórfellda fækkun. Þannig að það er enginn vafi á því að þessi lög hafa haft veruleg áhrif á þá sem síst skyldi, þ.e. þá sem treysta á sjóðinn sem jöfnunartæki lífskjara til þess að geta stundað nám. Það er því bersýnilegt að þessi sjóður er í anda stefnu misskiptingar þeirra sem hv. þm., mig minnir Valgerður Sverrisdóttir, lýsti einna best hér á síðasta kjörtímabili þegar hún var hinum megin við víglínuna og fór betur yfir þessi mál heldur en hún hefur gert núna, því hún hefur þagað í þessari umræðu og sakna ég þar vinar í stað. Veruleikinn er sá að þetta voru hrottaleg lög. Það hefur aldrei nokkur hópur orðið fyrir annarri eins aðför að sér og sínum hagsmunum og þessi hópur á sínum tíma. Aldrei. Og þegar sparnaður ríkissjóðs var skoðaður milli áranna 1991 og 1995 --- hvar var hann? Að mati Ríkisendurskoðunar var hann hjá tveimur hópum í þjóðfélaginu, hjá bændum og námsmönnum. Þessir hópar voru í raun og veru látnir bera niðurskurðinn hjá ríkissjóði.