Þjóðminjalög

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 20:31:01 (5207)

1997-04-15 20:31:01# 121. lþ. 102.9 fundur 502. mál: #A þjóðminjalög# (stjórnskipulag o.fl.) frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[20:31]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég flyt á þskj. 842 frv. til laga um breyting á þjóðminjalögum, nr. 88/1989, með síðari breytingum.

Frumvarp þetta er tvíþætt og lýtur annars vegar að stjórnskipulagi Þjóðminjasafns Íslands en hins vegar að húsafriðunarákvæðum þjóðminjalaga.

Á vegum þjóðminjaráðs hefur verið gerð úttekt á starfsemi Þjóðminjasafns Íslands, hlutverki þess og þeim vaxandi kröfum sem gerðar eru til safnsins. Í framhaldi af því var á vegum ráðsins gerð tillaga að nýju stjórnskipulagi fyrir Þjóðminjasafn Íslands. Í tillögunni felst m.a. að starfsemi safnsins verði skipað á svokölluð svið sem aftur geta skipst í deildir eða aðrar starfseiningar.

Þegar skipulagstillögurnar voru bornar undir menntamálaráðuneytið var það niðurstaða ráðuneytisins að til þess að unnt væri að koma á því stjórnskipulagi Þjóðminjasafnsins sem tillögurnar miðast við þyrfti að breyta gildandi þjóðminjalögum. Eftir breytingu á lögunum árið 1994 kveða þau að vísu ekki á um lögbindingu einstakra deilda safnsins en gera ráð fyrir að um deildaskiptingu þess sé mælt í reglugerð. Ekki verður þó talið að lögin í núverandi mynd geri ráð fyrir þess háttar skipulagi sem tillögur þjóðminjaráðs lúta að, enda fela tillögurnar í sér að sett verði á laggirnar nýtt stjórnunarstig í safninu.

Æskilegt er að þjóðminjaráð, sem lögum samkvæmt er jafnframt stjórnarnefnd Þjóðminjasafns Íslands, hafi rúmar heimildir til að móta starfsskipulag safnsins á þann hátt sem best er talið samrýmast verkefnum þjóðminjavörslunnar og skilvirkum starfsháttum. Eðlilegt er þó að meginatriði skipulagsins á hverjum tíma séu fest í reglugerð. Frumvarpið miðar að þeirri tilhögun.

Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að eigendum húsa sem reist eru fyrir 1918 verði gert skylt að gera minjavörðum og húsafriðunarnefnd ríkisins viðvart ef þeir hyggjast breyta húsi sínu, flytja það eða rífa. Samkvæmt núgildandi lögum er slík tilkynningarskylda miðuð við árið 1900. Tillaga um þessa breytingu er gerð að tilmælum húsafriðunarnefndar.

Herra forseti. Þetta eru aðalatriði þessa frv. og legg ég til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. menntmn. og 2. um.