Háskólar

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 21:15:17 (5212)

1997-04-15 21:15:17# 121. lþ. 102.10 fundur 533. mál: #A háskólar# frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[21:15]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst taka fram að ég tel þetta frv. til laga um háskóla sem hér liggur fyrir vera mjög athyglisvert og gott mál. Hins vegar þykir mér mjög miður hvað það er seint fram komið og ákaflega lítil von til þess að það geti fengið þá þinglegu meðferð sem það á skilið á þeim tíma sem eftir er af því þingi sem nú stendur yfir. Það er líka annað sem ég vil vekja athygli á: Þetta frv. er alfarið samið í ráðuneytinu sjálfu. Eins og hæstv. ráðherra tók fram áðan var að vísu haft samráð eða þetta kynnt í samstarfsnefnd um háskólastigið en það er alfarið samið af embættismönnum ráðuneytisins. Eins og ég hef oft tekið fram við afgreiðslu annarra mála, þá finnst mér þetta lag við samningu frv. yfirleitt ekki boða gott. Það er tekið fram að efni þessa frv. sé byggt á skýrslum og nefndaráliti en það er alfarið samið í ráðuneytinu.

Frv. er rammalöggjöf um háskólastigið á Íslandi og í mörgum greinum finnst mér um athyglisverðar tillögur að ræða. Lagt er til að þessi rammalöggjöf nái utan um uppeldis- og kennaraháskóla, háskólana á Akureyri og Reykjavík og aðra háskóla á Íslandi. Alls munu þeir vera, að ég held, 13 talsins og sumir þeirra eru einkareknir en þessi rammalöggjöf á að geta gilt fyrir þá alla. Svo þarf þar fyrir utan að setja sérstaka löggjöf um hvern og einn þeirra og það er nú þegar komið fram eitt frv. um uppeldis- og kennaraháskólann sem fylgir í rauninni þessu frv.

Það er eitt sem maður rekur sérstaklega augun í þegar frv. er lesið yfir að ekki er meiningin að það sé lengur gerð skilyrðislaus krafa um rannsóknir á vegum skólans til þess að heita háskóli og þetta er strax atriði sem ég hef grun um að geti vakið efasemdir svo ekki sé meira sagt. Auðvitað munum við ræða það mjög vel í nefnd hvort þetta getur yfirleitt staðið svo.

Í frv. er lagt til að sjálfstæði skóla verði eflt. Lagt er til að ábyrgð þeirra verði aukin og fjárhagslegt sjálfstæði þeirra verði eflt og samið verði um fjárveitingar til nokkurra ára í senn. Mér finnst í sjálfu sér að þessar tillögur um fjárhagslegt sjálfstæði eða aukið fjárhagslegt sjálfstæði og samninga fram í tímann um fjárveitingar til skóla hljóti að horfa til mikilla framfara frá því sem nú er. Hins vegar verð ég að minnast á það í framhjáhlaupi að það er talið af þeim sem hafa reynt slíkt á Norðurlöndum, að þessar púllíur liggi því miður betur við hnífnum en annað fjárhagslegt fyrirkomulag skóla, þ.e. þegar séð verður að skólarnir komist afskaplega vel af með þessu fjármagni sem til þeirra hefur verið veitt og geti jafnvel unnið einhver skemmtileg og spennandi verkefni að auki, þá þyki liggja afskaplega vel við að skera þetta niður í heild, flatan niðurskurð. En ég vona auðvitað að svo fari ekki hér á landi.

Í frv. er lagt til að menntmrh. skipi tvo menn af tíu í háskólaráð eða þeir eiga að vera að hámarki tíu, það fer nú eftir stærð skólans. Ég verð að segja að ég hef svolitlar efasemdir um þetta atriði að ráðherra eigi endilega að skipa þarna tvo menn. Ef t.d. væri um að ræða kennaraháskólann, þá fyndist mér alveg koma til greina að þeir tveir væru þannig skipaðir að annar væri skipaður af ráðherra og hinn af t.d. kennarasamtökunum. En þetta má ræða nánar í hv. menntmn.

Ég vil einnig að fram komi efasemdir mínar um það atriði að deildarforsetar og deildarráðsmenn séu ekki kjörgengir í háskólaráð. Ég held að það verði ansi mikil blóðtaka í alla vega minni skólunum ef þetta fólk er allt saman undanþegið því að geta verið kjörgengt og efast ég bara um að það geti gengið.

Það eru nokkrar þversagnir í frv. eins og það liggur fyrir. Annars vegar er talað um að auka sjálfstæði skólanna og færa vald inn í stofnanirnar og hins vegar er talað um að auka vald ráðherra. Ég er hrædd um að þarna geti einhvern tímann skapast átakapunktar og bendi ég t.d. á 5. gr. laganna, og eins það sem hæstv. ráðherra var sjálfur að minnast á áðan, að ráðherra hefði leyfi til að leysa rektor frá störfum. Ég held að t.d. sérstaklega í 5. gr. sé verið að búa til framtíðarárekstra og þyrfti að athuga þetta nánar. Maður getur ímyndað sér hvers hlutur er líklegt að verði ofan á, rektors eða ráðherra ef til árekstra kemur.

Mér finnst það líka svolítið sérkennileg ráðstöfun að hér er ráðherra ætlað að skipa einn mann í dómnefnd sem kveður á um hæfi við ráðningu í starf. Mér finnst ekki efnilegt að ráðherra eigi að vera með fingurna í slíkum hlutum, hver sem í hlut á.

Að lokum vil ég ítreka það sem ég sagði í upphafi. Mér finnst þetta vera athyglisvert frv. en mér finnst það nokkuð seint fram komið og hefði kosið að það gæfist betri tími til að gaumgæfa þetta mál í nefnd.