Háskólar

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 21:29:17 (5216)

1997-04-15 21:29:17# 121. lþ. 102.10 fundur 533. mál: #A háskólar# frv., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[21:29]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur vissulega verið spor í rétta átt að sameina undir eina yfirstjórn skóla sem starfa sitt í hvoru lagi í dag, en það sem maður hins vegar veltir fyrir sér þegar sífellt koma fram athugasemdir bæði frá Háskóla Íslands, frá Háskólanum á Akureyri og fleiri skólum um fjársvelti og síðast í fréttum í kvöld kom það fram hjá þeim sem nú eru í framboði í Háskóla Íslands að það sem stæði skólanum helst fyrir þrifum væri skortur á fjármunum, hvort það er eðlilegt í litlu þjóðfélagi t.d. þar sem við höfum verið með kennaraháskóla starfandi að setja þá á laggirnar kennaramenntun, sams konar menntun í öðrum skóla, hvort ekki væri réttara að skilgreina menntun eða hlutverk þess skóla betur heldur en gert hefur verið og nýta þá fjármuni sem til ráðstöfunar eru betur en hefur verið gert.