Háskólar

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 21:30:59 (5217)

1997-04-15 21:30:59# 121. lþ. 102.10 fundur 533. mál: #A háskólar# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[21:30]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég tek undir það sem menn hafa sagt hér í kvöld að það frv. sem hérna liggur fyrir er allrar athygli vert. Hér hafa um vélað fjölmargar mannvitsbrekkur, og það er ekkert skrýtið þó að það megi a.m.k. draga þá ályktun að það sé einnar messu virði að íhuga þetta frv.

Ég tek hins vegar hæstv. menntmrh. vara fyrir því að ætla að reyna að þrýsta frv. í gegn á vorþinginu. Það er ekkert sem ýtir svo fast á eftir því. Hæstv. ráðherra sagði í lok ræðu sinnar að hann vonaðist til þess að þingið kæmi þessu máli frá sér áður en það færi til síns heima í vor. Hann sagði jafnframt að þetta mál ætti ekki að koma háskólanum á óvart. Ég fullyrði, herra forseti, að þetta er rangt hjá hæstv. menntmrh. Ég fullyrði hér að háskólinn hefur ekki rætt þær breytingar á stjórnsýslunni sem hér eru lagðar fram og þær koma flestum spánskt fyrir sjónir. Umræðan hefur ekkert farið fram.

Nú er það að vísu svo að hæstv. ráðherra er talsvert brátt á að koma þessu frá. Eðlilega skil ég það að hann vill vinna verk sín hratt en ég tel samt sem áður að hér sé um að ræða það afgerandi skil við fortíðina og það mikla breytingu frá núverandi högum háskólans og það sé út í hött að ætla að leggja þetta fram með stuttum fyrirvara og láta það fara í gegn á þessu vori. Hvar er tíminn sem háskólinn, mörg þúsund manna stofnun, á að fá til að ræða þetta mál?

Ég segi strax, herra forseti, að eitt af því sem verður að íhuga mjög náið á þinginu og heyra mjög vel ofan í háskólana um er sú skerðing á sjálfræði og sjálfstæði háskólans sem kemur hér fram og hið aukna vald menntmrh. Ég get ekki lesið annað út úr þessu en að beint vald ráðherra hverju sinni um val á rektor sé stórum aukið. Ég sé að hæstv. menntmrh. hristir höfuðið. Ég vísa honum hins vegar á 13. gr. Ég fæ ekki betur séð en þar sé gert ráð fyrir að háskólaráð verði skipað allt að tíu fulltrúum og eigi að bera ábyrgð á tilnefningu rektors. En hæstv. menntmrh. á að skipa fimmtung fulltrúa, jafnvel meira en fimmtung fulltrúa, í háskólaráð hverju sinni. Hann fer því óbeint með allt að 20% fullgildra atkvæða.

Síðan vek ég eftirtekt á því að það er verið að færa mun meira ráðningarvald í hendur rektors og ég tel það út af fyrir sig af hinu góða. En ekki með þeirri óbeinu tengingu sem við höfum við menntmrh. í gegnum 13. gr. Ég segi hiklaust, herra forseti, að 13. gr. frv. er veruleg þrenging á sjálfstæði háskólanna. Þar af leiðandi getur hæstv. menntmrh. ekki ætlast til þess að þetta frv. fari í gegnum þingið á þessu vori. Það er nauðsynlegt að háskólinn, að loknu rektorskjöri, fái tóm til að vega og meta þær tillögur sem hér koma fram. Það er rangt hjá hæstv. menntmrh. að háskólanum sé kunnugt um þetta. Það veit ég vel. Það hefur engin umræða farið fram um þessi mál og meira að segja hefur það dregist inn í rektorskjör sem fer fram á morgun hvers vegna svo lítil umræða hefur átt sér stað um þær hugmyndir sem hér koma fram sem raun ber vitni.