Háskólar

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 21:35:18 (5218)

1997-04-15 21:35:18# 121. lþ. 102.10 fundur 533. mál: #A háskólar# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[21:35]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Í Fréttabréfi Háskóla Íslands var viðtal við alla frambjóðendur til rektorskjörs og þar fjalla þeir allir um þetta mál. Það er því rangt hjá hv. þm. að mönnum sé ekki kunnugt um þetta. Það svara allir spurningum sem byggjast á þessu frv. og þessum hugmyndum.

Hugmyndin sem kemur fram í 13. gr. frv. kemur frá þróunarnefnd háskólans þar sem var samhljóða niðurstaða að það skyldi staðið þannig að málum eins og lýst er í 13. gr. Ég bið hv. þm. að kynna sér betur málið. Ég veit ekki við hverja hann talar í Háskóla Íslands ef hann heldur því fram að þeir viti ekkert um hvað í þessu frv. stendur. Málið hefur auk þess verið rætt í háskólaráði og frv. var lagt þar fyrir um svipað leyti og það kom fram á Alþingi. Það er þess vegna alrangt að þetta mál eigi að koma háskólamönnum í opna skjöldu. Auðvitað eru skiptar skoðanir um það. Eins og um öll góð mál geta menn haft ólíkar skoðanir um þetta, en málið var kynnt. Og 13. gr., sem hv. þm. gerði að sérstöku umtalsefni, kemur beint upp úr þeirri nefnd um þróun Háskóla Íslands sem starfaði og skilaði áliti í desember 1994. Við verðum því aðeins að átta okkur á forsögu málsins og vita betur um hvað við tölum. Ef hv. þm. er jafn vel að sér um það sem er að gerast innan Háskóla Íslands og um efni þessa frv., þá er ég ekkert hissa á því að hann telji að málið hafi ekkert verið rætt á vettvangi háskólans.