Háskólar

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 21:36:54 (5219)

1997-04-15 21:36:54# 121. lþ. 102.10 fundur 533. mál: #A háskólar# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[21:36]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er jafnan háttur hæstv. menntmrh. þegar hann er í vörn að grípa til hrokans en hroki fer hinum lítilláta hæstv. menntmrh. afskaplega illa. Ég get fullvissað hæstv. ráðherra um það að mér er mætavel kunnugt um það, m.a. af samtölum við rektorsefni, að mönnum þykir að efni þessa frv. sé langt í frá fullrætt innan háskólans. Ég get líka upplýst hæstv. ráðherra um að á þeim fundum sem hafa verið haldnir síðustu vikur, einmitt í tengslum við rektorskjör, hefur aftur og aftur og af vaxandi þunga síðustu daga komið upp á þessum fundum spurningin um hvernig stendur á því að þetta mál hefur ekki verið tekið til umræðu á vettvangi deildanna vegna þess að þetta hefur ekki verið tekið til umræðu á vettvangi deildaráðanna.

Það er alveg hárrétt að þetta mál er borið hingað inn sem afurð þróunarnefndarinnar. En þó að hún hafi verið samþykk í þessu efni þá þýðir það ekki að búið sé að ræða málið að fullu innan háskólans. Ég held einfaldlega að hér sé um að ræða það mikla þrengingu á sjálfræði háskólans að það sé ómögulegt annað en háskólinn sjálfur fái tóm til þess að ræða þetta. Ég segi að það er alls ekki nóg að ræða þetta innan þróunarnefndarinnar sem hefur lokið störfum og það er alls ekki nóg að ræða þetta heldur innan háskólaráðs. Það verður að ræða þetta á hinum breiða vettvangi háskólans alls, ekki bara inni í örfámennum stofnunum. Sér í lagi þarf að velta því fyrir sér hvort rétt sé að færa hæstv. ráðherra, án tillits til hver hann er hverju sinni, það aukna vald sem t.d. 13. gr. gefur honum.