Háskólar

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 21:38:49 (5220)

1997-04-15 21:38:49# 121. lþ. 102.10 fundur 533. mál: #A háskólar# frv., SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[21:38]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Í tilefni af orðum ýmissa þingmanna í kvöld um að þetta mál sé svo seint fram komið að tæpt sé á því að við getum lokið því nú í vor, þá vil ég að það komi fram að menntmn. hefur hvað þetta frv. snertir nýtt sér heimild þingskapa til að hefja umfjöllun máls áður en því er vísað til þingnefndar. Menntmn. hefur þegar fjallað um þetta mál á einum fundi og átt um það mjög gagnlegar viðræður og yfirferð með fulltrúum frá menntmrn. Ég tel þetta mjög mikilvægt mál sem hefur verið lengi í undirbúningi og það er alveg ljóst að það hefur verið beðið eftir því. Ég tel ekki að hér sé um pólitískt ágreiningsmál að ræða. Ég sé ekkert í efni þessa frv. sem þurfi að verða pólitískt ágreiningsmál, en hins vegar geta að sjálfsögðu verið skiptar skoðanir um ýmsa efnisþætti þess.

Það hefur ýmislegt komið fram í umræðunni í kvöld sem við höfum þegar fjallað um í menntmn. Það verður síðan að sjálfsögðu að koma fram við frekari umfjöllun málsins í nefndinni hvort okkur auðnast að klára málið núna í vor.