Kennara- og uppeldisháskóli Íslands

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 22:00:36 (5223)

1997-04-15 22:00:36# 121. lþ. 102.11 fundur 532. mál: #A Kennara- og uppeldisháskóli Íslands# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[22:00]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara út í ítarlega umræðu um þetta mál. Það á vafalaust eftir að koma til rækilegrar umræðu vegna þess að það er ljóst að þetta er eitt af 80 stjórnarfrv. sem liggja nú fyrir þinginu. Það er bersýnilegt að það verður að vinna hið mesta ef það á að ljúka þeim öllum, að ekki sé nú fastar að orði kveðið, ef þinginu á að ljúka þann 16. maí. Mér segir svo hugur um að eitthvað af þessu sé nú þannig að það fái kannski að hinkra til haustsins með frekari afgreiðslu enda ætti það að geta bætt sum af þeim málum sem hér eru. Það bíður vafalaust menntmn. að fjalla um þetta og gera tillögur um meðferð málsins.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að segja margt um þetta, herra forseti. Ég fagna því að þetta mál er komið til umræðu en ég tel ekki að heimurinn hafi byrjað að verða til 1995 eins og stendur í flestum greinargerðum frá menntmrn. í menntamálum, heldur hafi tilvera hans hafist allmiklu fyrr. Þar vitna ég m.a. til þess að það eru allmörg ár síðan tekin var um það ákvörðun að stefna að skóla af þessu tagi. Það var ekki ákveðið fyrst árið 1995 heldur allmiklu fyrr. Þá var sá skóli reyndar í umræðum manna á meðal kallaður Uppeldisháskóli. Út af fyrir sig ætla ég ekki að gera tillögu um að menn haldi við það nafn enda er það aukaatriði í málinu. Þá töluðu menn um að þetta væru þeir skólar sem hér eru á ferðinni, þ.e. Kennaraháskólinn, Íþróttakennaraskólinn, Þroskaþjálfaskólinn og Fósturskólinn. Það má segja að mikill áfangi hafi náðst, sá að málið er komið hér til meðferðar í þessari virðulegu stofnun. Ég tel að það sé stórt skref og mikið fagnaðarefni út af fyrir sig. Þetta segi ég áður en ég byrja að gagnrýna þau atriði sem ég vil gagnrýna í þessu frv. eða í tengslum við það en þau eru eftirfarandi:

Það er þá fyrst varðandi lengd kennaranámsins. Ég tel út af fyrir sig að það sé ekkert úrslitaatriði að það standi í lögum hversu langt kennranámið á að vera. Ég get í sjálfu sér tekið undir það með hæstv. menntmrh. að það sé eðlilegt að það sé mál sem sé ákveðið á faglegum forsendum og á öðrum vettvangi með hliðsjón af þeim fjármunum sem eru til á hverjum tíma í þeim efnum. Ég vek hins vegar athygli á því að ég hygg að Ísland sé eina landið sem er núna með þriggja ára kennaramenntun. Eina landið í Evrópu á því svæði sem við miðum okkur helst við. Ég tel að sú styrking fagmenntunarinnar sem þarf að eiga sér stað og m.a. var rædd mjög rækilega í framhaldi af TIMSS-skýrslunni hér í vetur verði að gerast með því að kennaranámið verði lengt. Þess vegna finnst mér nauðsynlegt að um leið og svona lög yrðu samþykkt, ef þau verða samþykkt, þá væri tekin ákvörðun um að kennaranámið yrði lengt. Það á ekki að draga það lengur. Það er fyrsta atriðið, herra forseti, sem ég vil nefna í sambandi við þetta frv.

Í öðru lagi vil ég nefna það sem er stefna okkar alþýðubandalagsmanna og hún er sú að við teljum að það eigi ekki að vera skrásetningargjald í lögum af því tagi sem gerð er tillaga um, bæði í þessu frv. og ég hygg í háskólafrv. líka. Ég tel að að því er varðar þennan skóla þá eigi skrásetningargjaldið ekki að vera eins og hér er gert ráð fyrir heldur eigi að taka öðruvísi á þeim málum eins og við höfum gert grein fyrir á öðrum vettvangi og því sjónarmiði okkar vil ég halda hér til haga.

Þá kem ég næst að 5. gr. frv. Þar er um að ræða hliðstætt ákvæði og er í 13. gr. háskólafrv. Þar er m.a. lagt til að menntmrh. skipi tvo fulltrúa í háskólaráð til tveggja ára í senn. Í greinargerð með háskólafrv. er þetta t.d. rökstutt á þennan hátt, herra forseti:

,,Er það fyrirkomulag einnig í samræmi við tillögur þróunarnefndarinnar. Þessir fulltrúar eiga að vera með víðtæka þekkingu á málefnum þjóðlífs og atvinnulífs og traustan skilning á starfsemi háskóla.``

Í frv. um Kennara- og uppeldisháskóla Íslands er ákvæði í 5. gr. þar sem segir að í háskólaráði eigi m.a. sæti ,,tveir fulltrúar skipaðir af menntamálaráðherra til tveggja ára í senn.``

Ég vil segja fyrir mitt leyti herra forseti, og láta það koma hér fram að ég set spurningarmerki við þetta. Ég er þeirrar skoðunar að skóli eigi að vera sjálfstæður. Ég er þeirrar skoðunar að skóli eigi að lúta sínum faglegu ákvörðunum og hafa sitt eigið stjórnkerfi. Og þar af leiðandi beitti ég mér fyrir því þegar ég var menntmrh. að embættaveitingavaldið að því er varðaði prófessora, dósenta og lektora í háskólanum var flutt til háskólans. Ég tel að það eigi að vera þannig að skólarnir eigi að ráða sér sjálfir. Þess vegna tel ég að ákvæðið í 1. mgr. 3. gr. --- ,,Rektor ræður prófessora, dósenta, lektora, aðjúnkta og stundakennara`` --- sé í raun og veru rétt ákvörðun. Á sama hátt gagnrýni ég að menntmrh. sé að skipa menn í háskólaráð þessa skóla. Ég sé engin sérstök rök fyrir því jafnvel þó að þessi þróunarnefnd hafi lagt það til. Mér er það efst í huga að stofnun af þessum toga njóti sjálfstæðis og að ráðherrar séu ekki með íhlutun í einstök málefni í rekstri skólans sem þeir yrðu í raun og veru með þessum hætti.

Þá kem ég næst, herra forseti, að 7. gr. Ég spyr hæstv. ráðherra að því hvort hann sé með það í huga að þær reglur sem settar verði um rektorskjör og tilnefningu rektors verði hliðstæðar þeim reglum sem gert er ráð fyrir í frv. til laga um háskóla eða hvort ráðherra hæstv. sé með aðrar hugmyndir í þeim efnum.

Síðan vil ég, herra forseti, aðeins velta því upp að ég sé að aftur og aftur er í greinargerð frv. talað um að Kennara- og uppeldisháskóli Íslands eigi að vera miðstöð fyrir menntun kennara og annarra uppeldis- og umönnunarstétta. Ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvort menn eru þarna kannski að gefa undir fótinn með starfsemi í þessum skóla sem sennilega verður þar aldrei, eða hvað? Eða eru menn ekki hugsanlega að ýta þarna undir misskilning? Gætu í framhaldinu af þessu komið upp kröfur eða óskir um að þarna væru fleiri hópar sem væru í alls konar fagmenntun, m.a. svokallaðri umönnunarmenntun af ýmsu tagi, að þeir væru frekar í þessum skóla heldur en t.d. öðrum skóla á háskólastigi? Mér finnst að í raun og veru sé þarna verið að skilgreina þessa stofnun of óljóst. Ég mundi ekki hafa sett þetta niður í greinargerð vegna þess að þar með er, finnst mér, verið að gefa undir fótinn með að þessi stofnun verði opnuð fyrir allmarga aðra hópa en hér er þó gert ráð fyrir. Nú finnst mér að vel geti komið til greina að einhverjir aðrir hópar komi hér við sögu en þarna finnst mér að verið sé að opna braut fyrir allmarga aðra hópa. Ég gæti nefnt í því sambandi hóp sem er í raun og veru heimilislaus á háskólastigi eins og iðjuþjálfar sem hefur verið rætt mikið um að þurfi að koma upp námi fyrir á háskólastigi, m.a. rætt um að því verði komið upp við Háskóla Íslands og jafnvel við Háskólann á Akureyri. Yrði ekki tilhneiging til að banka upp með fagmenntun af þessu tagi þarna? Og þá mega menn, herra forseti, ekki skilja þetta svo að ég sé á neinn hátt að gera lítið úr því að þarna sé þörf á menntunarátaki heldur hinu að þarna sé verið að opna fyrir víðari skilgreiningu en rétt er að gera.

Ég tel að í þessu frv. séu margir mjög góðir hlutir og ég tel að í frv. felist út af fyrir sig sigur fyrir t.d. leikskólakennara og þroskaþjálfa miðað við þá baráttu sem þeir hafa háð á undanförnum árum. Það er fagnaðarefni og ástæða til að óska þeim til hamingju með það. Það er umhugsunarefni hvort nafnið er alveg nógu heppilegt. Ég sé að menn eru að reyna að búa til brú yfir stórfljót með þessu nafni og þá lenda menn oft í sérkennilegum hlutum, þ.e. að þetta sé sem sagt skóli sem kennir bæði kennurum og uppeldi, þannig að í raun og veru er nafnið pínulítið órökrétt eins og það lítur hér út. En látum það vera. Aðalatriðið er að málið fái vandaða meðferð. Ég vildi af okkar hálfu leggja þessi orð í belg.