Skoðun kvikmynda og bann við ofbeldismyndum

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 22:19:16 (5227)

1997-04-15 22:19:16# 121. lþ. 102.12 fundur 534. mál: #A skoðun kvikmynda og bann við ofbeldismyndum# (sjónvarpsstöðvar, tölvuleikir) frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[22:19]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Með bréfi, dags. 12. nóv. 1996, lagði umboðsmaður barna það til við menntamálaráðherra að lög nr. 47/1995, um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum, og útvarpslög, nr. 68/1985, yrðu tekin til endurskoðunar til þess að tryggja börnum betur þá vernd sem 76. gr. stjórnarskrárinnar kveður á um og einnig til þess að uppfylla ákvæði 17. gr. í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem og ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnskipunarfyrirmælum um sjónvarpsrekstur. Í bréfi umboðsmanns barna koma fram tillögur um lagabreytingar og er frv. þetta samið á grundvelli þessara tillagna.

Í 1. gr. frv. er lagt til að kveðið verði fastar að orði en gert er í núgildandi lögum varðandi þær viðmiðanir sem Kvikmyndaskoðun ber að hafa hliðsjón af við skoðun og mat á kvikmyndum.

Í 2. gr. er skýrt tekið fram að sjónvarpsstöðvar skuli við skoðun á dagskrárefni nota sömu viðmiðanir og Kvikmyndaskoðun endranær.

Í 3. gr. er kveðið á um að menntamálaráðherra sé ekki einvörðungu heimilt, heldur skylt, að setja reglur um skoðun tölvuleikja þannig að þeir lúti hliðstæðum skoðunarreglum og kvikmyndir. Gert er ráð fyrir að um tilhögun skoðunar tölvuleikja og gjaldtöku verði tekið mið af öðrum ákvæðum laganna.

Eins og fram kemur er gert ráð fyrir því að menntmrh. hagi málum þannig að kostnaður við skoðun greiðist af skoðunargjöldum og þess vegna leiðir þetta frv. ekki til kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.

Ég legg til að frv. verði vísað til hv. menntmn. og 2. umr.