Skoðun kvikmynda og bann við ofbeldismyndum

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 22:21:29 (5228)

1997-04-15 22:21:29# 121. lþ. 102.12 fundur 534. mál: #A skoðun kvikmynda og bann við ofbeldismyndum# (sjónvarpsstöðvar, tölvuleikir) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[22:21]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þetta frv. Ég ætla bara að gera athugasemdir við og spyrja um tvennt. Það fyrra er að íslenskar sjónvarpsstöðvar hafa þann leiða ávana að sýna ofbeldisbúta úr myndum til að kynna efni þeirra rétt fyrir og rétt eftir fréttatíma og þetta er algerlega óþolandi ástand á öllum barnaheimilum í landinu og með barnaheimili á ég við heimili þar sem börn eru. (Gripið fram í: Og viðkvæmt fólk.) Já, og viðkvæmt fólk.

Ég spyr: Hvaða úrræði telur hæstv. menntmrh. að hann hafi samkvæmt þessum frumvarpsákvæðum til að setja ofan í við stöðvarnar fyrir þetta? Þetta er algerlega óþolandi ástand. Ég veit að margir þingmenn þekkja þetta mál og þjóðin öll vegna þess að það er hið versta mál hvernig ofbeldisatriði úr kvikmyndum eru sýnd í auglýsingum á þeim tíma þegar börnin eru helst að horfa á sjónvarpið.

Hitt atriðið sem ég ætla að spyrja hæstv. menntmrh. um --- ég vildi gjarnan heyra af hans munni, en get út af fyrir sig kannski giskað á hvert svarið verður --- er þetta: Við hvern á fólk að tala þegar það verður vart við runu af ofbeldisatriðum í sjónvarpsmyndum? Við hvern á það að tala? Staðreyndin er sú að ég held að það þyrfti að koma upp einhverri aðstöðu fyrir fólk til að hringja í. Þá á ég við einhvern sérstakan aðila sem tekur við kvörtunum af þessu tagi. Vegna þess að það viðmót sem fólk mætir hjá sjónvarpsstöðvunum þegar það er að kvarta og klaga undan þessum myndum er oft mjög slæmt og neikvætt. Ég tel að á meðan ekki er gert eitthvað sérstakt til að opna fyrir það að fólk geti kvartað þá sé þetta dauður lagabókstafur sem við erum annars að setja hér af góðum hug.