Skoðun kvikmynda og bann við ofbeldismyndum

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 22:25:43 (5230)

1997-04-15 22:25:43# 121. lþ. 102.12 fundur 534. mál: #A skoðun kvikmynda og bann við ofbeldismyndum# (sjónvarpsstöðvar, tölvuleikir) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[22:25]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Hluttekningarleysi er eitt versta vandamál okkar þjóðfélags. Þetta hluttekningarleysi þróast þannig að börn og unglingar alast upp í ofbeldisumhverfi, m.a. kvikmynda og sjónvarps, og læra smátt og smátt að þetta kemur þeim kannski lítið við en samt sem áður hefur þetta gríðarleg áhrif. Í öllum umræðum um ofbeldi og þróun ofbeldis, m.a. heimilisofbeldis, er þetta talið eitt alvarlegasta vandamál nútímaþjóðfélags. Ég tek alveg undir það með hæstv. menntmrh. að í sjálfu sér er ekki ástæða til að ætla að hann sitji við símann og segi: Hingað og ekki lengra. Það getur ekki verið þannig. Hins vegar er greinilegt að umboðsmaður Alþingis og umboðsmaður barna lögðu til við menntmrh. að lög um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum og útvarpslög yrðu tekin til endurskoðunar til þess að tryggja börnum betur þá vernd sem 76. gr. stjórnarskrárinnar kveður á um og einnig til þess að uppfylla ákvæði 17. gr. í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Þetta er tillaga umboðsmanns barna. Mér finnst að í framhaldi af þessari tillögu og um leið og svona ákvæði væru sett í lög, eins og hér er gerð tillaga um, þá eigi að skapa farveg fyrir úrræði af einhverju tagi, fyrir foreldra og aðra aðstandendur barna t.d., til að taka á málum af þessu tagi. En ég er ekki að ætlast til þess að hæstv. menntmrh. stundi það starf.