Bæjanöfn

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 22:59:04 (5236)

1997-04-15 22:59:04# 121. lþ. 102.13 fundur 535. mál: #A bæjanöfn# (örnefnanefnd) frv., 536. mál: #A Örnefnastofnun Íslands# frv., GBeck (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[22:59]

Guðmundur Beck (andsvar):

Herra forseti. Ég tel það nú ekki koma nógu skýrt fram milli hverra þessi ágreiningur á að spretta og ég sé ekki að þessi stofnun hafi í sjálfu sér nein skilyrði til þess að taka ákvarðanir. Nú veit ég þess dæmi að til eru allt upp í þrjú nöfn á sama fyrirbærinu. Ég sé ekki að slík nefnd eða stofnun einhvers staðar hér suður í höfuðborginni hafi neina burði til þess að ákvarða hvert þeirra nafna er rétthærra en annað svo dæmi sé tekið þannig að ég tel þetta alveg út í hött. Ég tel að heimamenn séu langbest til þess færir að ákveða hvað er örnefni og hvað ekki og við þurfum ekki til þess stjórnskipaða nefnd í höfuðborginni.