Lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 23:36:57 (5244)

1997-04-15 23:36:57# 121. lþ. 102.15 fundur 542. mál: #A lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara# (heildarlög) frv., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[23:36]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil þakka þær góðu undirtektir sem fram hafa komið við þetta frv. í máli þeirra hv. þm. sem hafa talað.

Í tilefni af orðum hv. 8. þm. Reykv. vil ég taka það fram að ég gat þess í upphafi máls míns að leiðir hefðu skilið á milli mín og forustusveita kennara vegna ákvæða í 12. gr. frv. Af minni hálfu er sá ágreiningur um þetta mál og ekki önnur mál þannig að ég get unnið með kennurum og þarf ekki neinar sáttanefndir til þess að eiga samstarf við kennara eftir sem áður og mun beita mér fyrir viðræðum við þá um þau mál sem bíða úrlausnar. Ég á ekki von á því að við komumst að samkomulagi um þetta atriði en ég held einnig að innan raða kennarasamtakanna séu mjög skiptar skoðanir um þetta. Og það endurspeglast hér í þessum umræðum að það er síður en svo að allir þeir sem hafa kennararéttindi telji að með þessum ákvæðum og þeim breytingum sem ég legg til að verði gerðar frá núgildandi lögum sé verið að vega að starfsheiðri eða starfsréttindum kennara. Þvert á móti er verið að auðvelda skólunum að fá góða kennara til starfa, góða fagmenntaða kennara.

Vegna fyrirspurnar hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur, 6. þm. Norðurl. e., um ákvæði í síðustu mgr. 2. gr.: ,,Heimilt er að meta kennslureynslu sem hluta af kennslufræði til kennsluréttinda ...`` vil ég aðeins ítreka það sem kom fram í máli hv. þm. Hjálmars Árnasonar um að þarna er verið að mæla fyrir um það að kennslureynsla skuli metin, kennslureynsla leiðbeinenda skuli metin o.s.frv. Þarna er því verið að varpa því inn í lögin og samkomulag um að taka tillit til kennslureynslu. Jafnframt gildir þetta um framhaldsskólann. Segjum t.d. að fólk hafi verið við nám erlendis og hafi aðstoðað prófessora sína í háskólum þar sem það hefur verið við nám. Slíkt starf verður þá metið. Samhliða því að meta náms- og prófgráður geta menn lagt fram að á sama tíma og þeir stunduðu þetta nám hafi þeir einnig haft tækifæri til að sinna kennslustörfum við viðkomandi stofnun. Það verður tekið tillit til þess og það metið. Það eru slík atriði sem um er að ræða að hafi menn reynslu af kennslu þó að þeir hafi ekki haft réttindin, þá sé litið til þess og tekið tillit til þess við þetta heildarmat. Ef þetta svarar spurningunni þá gerir það það, ef ekki þá vænti ég þess að menn geti fjallað um þetta í hv. nefnd eins og önnur atriði sem hér hafa verið reifuð. Þetta er flókið mál og margþætt.

Ég vil að því er varðar hv. þm. Hjálmar Árnason og fyrirspurnir hans um ákvæði 7. og 17. gr. taka fram að ég tel það vel koma til álita sem hann nefndi að gera kröfu til skólastjórnenda. Úr því að námið er orðið eins og hv. þm. lýsti þá finnst mér eðlilegt að hv. menntmn. kanni þennan þátt sérstaklega og setji það þá inn ef samkomulag verður um það í nefndinni að gera auknar kröfur til skólastjórnenda að þessu leyti. Ég sé ekki neinn annmarka á því frá mínum bæjardyrum en tel eðlilegt að í hv. nefnd verði hugað að þessu.

Ég vil aðeins, herra forseti, undir lok máls míns árétta það sem ég sagði um leikskólakennarana. Ég tel ákaflega mikilvægt að haft verði auga með þeirri þróun sem er í samskiptum þeirra við sveitarfélögin. Það er að komast á laggirnar formlegt samband milli þessara aðila um réttindamál. Hvað viðræður taka langan tíma ætla ég ekki að fullyrða neitt um en ég vil beina því til hv. menntmn. að hafa hagsmuni leikskólakennaranna í huga og að ekki verði farið svo hratt í þetta mál að mönnum gefist ekki tóm til þess að huga að stöðu leikskólakennaranna og hvað viðræðum þeirra við sveitarfélögin líður. Kannski væri fróðlegt fyrir nefndina að kalla fulltrúa frá báðum þeim aðilum til fundar við sig til þess að kynnast sjónarmiðunum. Ef nefndin vill taka undir það með mér að hvetja til þess að þessir aðilar komi sér saman þá yrði það vel þegið því það er nauðsynlegt að þeir vinni sína heimavinnu, ef ég má orða það svo, sameiginlega áður en það er rökrétt að taka það inn í lagafrv. og setja fram ákveðna lausn í þeirra málum hér á hinu háa Alþingi.

Herra forseti. Ég ítreka þakkir mínar fyrir málefnalegar umræður um þetta mál.