Steinbítsveiðar

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 13:33:38 (5263)

1997-04-16 13:33:38# 121. lþ. 103.8 fundur 471. mál: #A steinbítsveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi KHG
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[13:33]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Á síðasta ári tók hæstv. sjútvrh. þá ákvörðun að takmarka veiðar á steinbít og fella þær veiðar undir aflamark samkvæmt ákvæðum laga um stjórn fiskveiða. Fram að því höfðu þær veiðar verið öllum skipum frjálsar sem höfðu leyfi til veiða í atvinnuskyni að undanskildu fyrsta ári kvótakerfisins, árið 1984. Samkvæmt umræddum lögum er forsenda breytingarinnar að nauðsynlegt sé talið að takmarka veiðar úr stofninum.

Við athugun á veiði steinbíts sl. tíu ár kemur í ljós að aflinn hefur verið nokkuð stöðugur, frá 12 þús. til 15 þús. tonna árlega að undanskildum tveimur árum, 1991 og 1992, en þá var aflinn 16 þús. og 18 þús. tonn hvort ár. Tillögur Hafrannsóknastofnunar fyrir næstliðið fiskveiðiár, 1995--1996, hljóðaði upp á að aflinn færi ekki yfir 13 þús. tonn. Og þótt hann yrði liðlega 14 þús. tonn gerði stofnunin óbreyttar tillögur fyrir yfirstandandi fiskveiðiár. Þessar upplýsingar benda ekki til þess að nauðsynlegt hafi veri að grípa til takmörkunar á veiði og er því spurt: Hvers vegna voru veiðar á steinbít felldar undir aflamarkskerfi laga um stjórn fiskveiða?

Þá er rétt að benda á að takmörkunin kemur afar misjafnt niður á skip og báta. Aflamarksbátar höfðu áður frjálsa veiði á steinbít en þær eru nú takmarkaðar við tiltekið magn. Hins vegar verða svonefndir krókabátar ekki fyrir takmörkun af þessari ákvörðun, jafnvel ekki svonefndir þorskaflahámarksbátar sem búa við aflamark í þorski. Samkvæmt upplýsingum mínum var samtals um 992 báta að ræða 1. sept. sl. sem féllu utan þessarar ákvörðunar. Sérstaklega verður mismunurinn augljós í línuveiðum þegar borinn er saman möguleiki aflamarksbáta og þorskaflahámarksbáta. Er því spurt: Hvernig er gætt jafnræðisreglu í ljósi þess að allmargir bátar voru við ákvörðunina undanþegnir takmörkun á veiði á steinbít?