Steinbítsveiðar

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 13:40:43 (5266)

1997-04-16 13:40:43# 121. lþ. 103.8 fundur 471. mál: #A steinbítsveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi KHG
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[13:40]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Það er ljóst eftir þessi svör og þær upplýsingar sem komu fram í framsögu fyrir fyrirspurninni að veiðar á steinbít eru ekki með þeim hætti að ástæða hafi verið til þess að grípa til takmarkana með því að fella veiðarnar undir aflamarkskerfi. Stofninn var heldur ekki í því ástandi að ástæða væri til að gera slíkt. Athyglisvert er að ráðherra kýs að gera það nú þó að hann hafi kosið að gera það ekki árið áður jafnvel þó að Hafrannsóknastofnun væri þá líka með meðmæli um hámark heildarveiði, þannig að stundum fer ráðherrann eftir tillögu Hafró og stundum ekki. Ef ástæða væri til að takmarka veiðar frá því sem er til þess að verja stofninn, þá ætti væntanlega úthlutað aflamark að vera lægra en veiðin hafði verið árið á undan. Það er ekki. Ráðherrann útdeilir aflamarki sem er í meginatriðum það sama og veiðin hefur endurspeglað á liðnum árum þannig að það er ekki verið að taka niður veiðina eða aflann sem má taka úr stofninum. Það er bara verið að útdeilda verðmætum, virðulegi forseti.

Það er niðurstaða mín eftir að hafa hlýtt á svör ráðherra að þessi ákvörðun var ekki fiskifræðileg, hún var efnahagsleg og hún var studd kröfum einstakra fyrirtækja um efnahagslegar hagsbætur sér til handa jafnvel þótt ákvörðunin kæmi misjafnlega niður á aðra útgerðarmenn eftir og þó sérstaklega eftir landsvæðum, á stöðum eins og Vestfjörðum þar sem steinbítsveiðar eru mjög miklar á ákveðnum tíma árs. Þessi takmörkun ráðherra hefur komið mjög illa niður á aflamarksbáta á landsvæði eins og Vestfjörðum sem höfðu litla veiði á næstliðnum árum vegna lítillar gengdar steinbíts á árunum næst á undan sem notuð eru til viðmiðunar. Sem dæmi má nefna aflamarksbát sem fékk 196 tonn í steinbít árið 1984 en fékk nú aðeins 74 tonn af því að veiðin hefur færst yfir á stærri skipin. Þegar veiðin hefur verið minni á grunnslóð, þá er þetta því miður niðurstaðan.

Það er því niðurstaða mín, virðulegi forseti, að ráðherra var einfaldlega að gæta hagsmuna tiltekinna útgerðarfyrirtækja.