Störf jaðarskattanefndar

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 13:58:41 (5274)

1997-04-16 13:58:41# 121. lþ. 103.2 fundur 443. mál: #A störf jaðarskattanefndar# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[13:58]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þessar fyrirspurnir. Varðandi fyrri lið fyrirspurnarinnar vil ég segja þetta:

Jaðarskattanefnd hefur fjallað um ýmsar leiðir til þess að draga úr jaðaráhrifum tekjuskatts og bótakerfisins, þ.e. þess bótakerfis sem er í skattkerfinu. Það eru bætur sem dregnar eru frá tekjum eða réttara sagt bætur sem eru í skattkerfinu og njóta yfirleitt skattfríðinda. Á síðustu vikum og mánuðum fyrir gerð kjarasamninga beindist umræðan í nefndinni einkum að ákveðnum hugmyndum um lækkun á almenna tekjuskattshlutfallinu, sameiningu beggja barnabótakerfanna og afnámi tekjutengingar í vaxtabótakerfinu. Þær hugmyndir um lækkun tekjuskatts og breytingar á barnabótum og vaxtabótum sem ríkisstjórnin hefur nýlega kynnt eru í meginatriðum í anda þeirra hugmynda sem einkum hafa verið ræddar í nefndinni á undanförnum vikum og mánuðum og þótt þær beri ekki að skoða sem tillögur nefndarinnar er óhætt að segja að þær endurspegli hugmyndir margra nefndarmanna. Það er rétt að segja frá því að fulltrúar ASÍ lögðu fram aðrar tillögur eða ábendingar og vildu taka upp þriggja þrepa tekjuskattskerfi.

Ég geri fastlega ráð fyrir því að nefndin ljúki störfum fljótlega og leggi um leið fram skilagrein um athuganir sínar og umræður og sú skilagrein verður að sjálfsögðu gerð opinber.

Ég vil taka það fram vegna síðari fyrirspurnarinnar að í embættisbréfi jaðarskattanefndarinnar er einungis verið að ræða um skattkerfið, ekki um bótakerfi almannatryggingakerfisins, en síðari hluti fyrirspurnarinnar fjallar um það og það er vissulega mikilvægt atriði.

Ég hygg að hv. fyrirspyrjandi viti kannski þingmanna best hvernig háttar til um tekjutengingar í lífeyrismálum því að þegar hann var heilbrrh. átti hann drjúgan þátt í að koma þeim á. Ég minni á að tekjuskerðing grunnlífeyris var t.d. tekin upp árið 1992 í ráðherratíð hans. Enn fremur voru tillögur um tekjuskerðingu vegna fjármagnstekna undirbúnar í hans ráðherratíð. Það er hins vegar rétt að minna á hvers vegna tekjutengingar eru notaðar því að þær geta átt rétt á sér, eðlilega. Markmiðið er að beina fjármununum og aðstoð einkum til þeirra einstaklinga sem þurfa sérstaklega og raunverulega á þeim að halda. Menn mega ekki gleyma þessu grundvallaratriði í hita leiksins og í allri umræðunni um að draga úr jaðaráhrifunum, hvort sem er í skattkerfinu eða bótakerfinu.

Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að það þurfi að draga úr tekjuskerðingaráhrifum í bótakerfinu og það hefur verið til sérstakrar skoðunar á vegum ríkisstjórnarinnar að undanförnu. Tillögur um þetta atriði eru á lokastigi og verða vonandi kynntar og afgreiddar innan skamms. Ég vil taka það fram að það er ekki víst og reyndar ólíklegt að það þurfi á þessu stigi málsins að flytja frv. Hægt er að breyta sumu af þessu með reglugerðum og ef um fjárútlát er að ræða umfram það sem lög heimila á þessu stigi, þá hefur oftsinnis áður verið gripið til þeirra aðgerða að samþykkja að slíkt verði lagt fram með fjáraukalögum.

Ég vona, virðulegi forseti, að þetta svari þeim fyrirspurnum sem hér hafa verið lagðar fram og mælt fyrir.