Störf jaðarskattanefndar

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 14:04:51 (5276)

1997-04-16 14:04:51# 121. lþ. 103.2 fundur 443. mál: #A störf jaðarskattanefndar# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[14:04]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegur forseti. Það er kannski ástæða til að skipta þessu viðfangsefni í tvennt. Annars vegar er um að ræða athugun sem hv. þm. minntist á og var hafin að því er ég held í tíð hans sem heilbrrh., enda minntist hann á það sjálfur í sinni ræðu. Það starf er á vegum nefndar sem heyrir undir heilbr.- og trmrn. og því starfi verður haldið áfram. Starfið er mjög flókið vegna þess, eins og hv. þm. sagði og þingheimur veit, að skerðingarákvæðin í almannatryggingalögunum eru afskaplega misjöfn og mjög flókin og í raun og veru svo flókin að það er erfitt fyrir það fólk sem á að njóta bótanna að þekkja öll þau ákvæði nákvæmlega.

Það er t.d. sitt hvort skerðingarákvæði eftir því hvort tekjurnar koma sem launatekjur, sem tekjur úr lífeyrissjóðum eða sem tekjur af fjármagni eða eignum og allt veldur þetta nokkrum glundroða.

Ég er ekki að tala um að okkur takist á næstu dögum eða vikum að klára þetta starf. Ég er hins vegar sannfærður um það að við getum á næstu vikum lokið því verkefni að takast á við það sem kannski er brýnast að laga og mest hefur verið í umræðu alveg upp á síðkastið. Ég er ekki viss um að það þurfi að koma til kasta Alþingis í löggjafarformi en vonandi tekst okkur að ljúka þessu verki áður en Alþingi fer heim í vor.