Launakjör karla og kvenna

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 14:10:23 (5278)

1997-04-16 14:10:23# 121. lþ. 103.3 fundur 499. mál: #A launakjör karla og kvenna# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[14:10]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég vil segja strax að ég tel spurningarnar eðlilegar og er að mestu leyti sammála hv. fyrirspyrjanda í þeim ályktunum sem hún dregur, einkum og sér í lagi af dómnum sjálfum. Ég ætla ekki að rekja þennan dóm, hann er nokkuð þekktur, en annars vegar var um að ræða konu sem var í Útgarði, Félagi háskólamanna, og hins vegar karlmann í Rafiðnaðarsambandi Íslands, en fyrir liggur að konan gat gengið í Rafiðnaðarsamband Íslands. (Gripið fram í.) Ja, það kemur ekki fram í málskjölunum. (Gripið fram í.) Nei, það held ég ekki. Það er að vísu þannig, það er rétt að því leytinu til, að vegna menntunar sinnar hefði hún ekki getað gengið inn í nákvæmlega sama launaflokk á þeirra vegum en það hefði verið miklu auðveldara fyrir þá sem réðu ríkjum að leiðrétta það þá á vinnustaðnum en það er kannski önnur saga. En það liggur fyrir að hún gat verið í Rafiðnaðarsambandinu, enda held ég að málið snúist kannski ekki fyrst og fremst um þetta atriði sem er minni háttar.

Vandinn er sá í þessum dómi að með honum held ég að verið sé að senda þau skilaboð til ríkisins í þessu tilfelli að ríkið eigi sem vinnuveitandi að sanna það að réttindin séu betri hjá þeim sem lægri hefur launin og að ríkið hafi láti undir höfuð leggjast að gera það að sýna fram á að veikindaréttur, fæðingarorlof og lífeyrisréttur starfsmannsins í Útgarði sé betri en starfsmannsins í Rafiðnaðarsambandinu. Það var ekki gert einfaldlega vegna þess að það var til dómur frá 1982 annars vegar og hins vegar vegna þess að það hefur aldrei farið fram heildarúttekt á því nákvæmlega upp á punkt og prik hvers virði í krónum og aurum slík réttindi eru, enda er það sjálfsagt ekki hægt. Þetta leiðir okkur í ákveðinn vanda og ég er sammála því sem kom fram hjá hv. þm. að þetta hlýtur í raun að ýta undir það að gerðir séu samningar á vinnustöðunum sjálfum. Ég er sammála því. Og eitt af því sem hægt er að grípa til þegar verið er að vega og meta hver launin eiga að vera á vinnustöðunum er auðvitað starfsmat og eins og hv. fyrirspyrjandi veit og m.a. birtist í blaðagrein, ef ég man rétt, í síðasta mánuði af hennar hálfu, þá hefur frá því í mars á árinu 1995 starfað á vegum félmrh. starfshópur með aðild ASÍ, BHM, BSRB, Vinnumálasambandsins, Jafnréttisráðs, Reykjavíkurborgar, fjmrn. og félmrn. og starfshópurinn hefur verið að undirbúa tilraunaverkefni þar sem starfsmati verður beitt á stofnanir ríkis og borgar, einmitt þetta kynhlutlausa starfsmat.

Í nokkrum kjarasamningum frá árinu 1995 er að finna bókun sem varðar þennan starfshóp þar sem aðilar þessir fylgjast með framvindu málsins. Ég tel og það sést auðvitað að með því að taka þátt í þessum starfshópi sem fjmrn. hefur gert og við höfum stutt við bakið á honum, þá viljum við kanna það rækilega hvort starfsmat af þessu tagi geti gagnast við jöfnun á stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði. Mér þykir sjálfsagt að bíða eftir því hver niðurstaðan verður, kanna það rækilega hvort hægt sé að nota slíkt starfsmat.

Það er þó mikilvægt, og það hef ég reyndar sagt áður, að áður en starfsmat er notað þá sé öllum þeim sem koma að málinu ljóst hvernig á að nota niðurstöður starfsmatsins. Ég þekki þessi mál nokkuð frá fyrri tíma því að þetta kemur svona í bylgjum yfir okkur og mér er það kannski ljósar þess vegna hve gífurlega mikilvægt það er að menn séu sammála um þau gildi sem eru í starfsmatinu og það er það sem skiptir öllu máli.

Ég vil líka bæta því við, virðulegi forseti, að því miður sýnist mér að það sé þannig með sum launþegafélögin hjá hinu opinbera að þau skilji ekki gildi þess að færa launasetninguna meira út á vinnustaðina og gera launasetninguna persónubundnari en um leið opnari, gagnsærri og fylgjandi sérstökum reglum. Önnur launþegasamtök, t.d. BHM hafa hins vegar haft forustu um það að sækja um styrk á alþjóðavettvangi, nánar tiltekið á vegum Evrópusambandsins, um það að kynna sér og kanna gagnsemi starfsmats, kynhlutlauss starfsmats. Þau hafa haft samband við ýmsa hérlenda aðila, þar á meðal fjmrn. og það er til skoðunar núna hvort fjmrn. tekur þátt með einhverjum hætti í þessu verkefni sem BHM stendur að til þess að leita að því hvort slíkt tæki sem hv. fyrirspyrjandi nefndi sé til gagns til þess að ná fram því sem ég tel að allur þingheimur sé sammála um og margir fleiri að ná fram fullu jafnrétti milli kynjanna á launamarkaði hér á landi.