Launakjör karla og kvenna

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 14:15:37 (5279)

1997-04-16 14:15:37# 121. lþ. 103.3 fundur 499. mál: #A launakjör karla og kvenna# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi SF
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[14:15]

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir þessi svör. Rétt skal vera rétt og ég vil að það komi mjög skýrt hér fram að í dómnum segir að báðir þessir útsendingarstjórar völdu það stéttarfélag sem samrýmdist best menntun þeirra með hliðsjón af launakjörum og það hafi komið fram að viðkomandi kona hefði ekki náð sömu grunnlaunum og samstarfsmaður hennar með því að gerast félagi í Rafiðnaðarsambandinu þar sem menntun hennar yrði þá ekki metin til launa til jafns við hans menntun þannig að hún valdi bestu leiðina fyrir sig þó að hún hefði þetta val og samt var það ekki nóg. Dómurinn féll þannig.

Ég er afar ánægð með þau svör hæstv. ráðherra að hann sé sammála því mati að þessi dómur muni trúlega leiða til þess að kjarasamningar færist meira út á vinnustaði. Ég held að það verði að segjast eins og er að eins og mál hafa verið á atvinnumarkaðnum í dag og aftur í tíðina, þá hefur afskaplega lítið skeð í launamálum kvenna. Það er alltaf sami launamunur, 11% kynbundinn launamunur og hann breytist ekkert. Ég tel því fyllilega rétt að skoða hvort við förum ekki fram á veginn með því að færa launin nær vinnustaðnum sjálfum, það geti verið konum í hag.

Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að það hefur ekki farið fram heildarúttekt á því hvers virði kjarahlutar eins og lífeyrisréttur, orlofsréttur og veikindaréttur eru og það er að mínu mati vegna þess að ríkisvaldið hefur ekkert viljað setja verðmiða á það. Það er nú svo einfalt mál. Ríkið vill ekkert að það sé uppi á borðinu nákvæmlega hvers virði þessi réttur sé.

Varðandi starfsmatið þá er það ljóst að sú nefnd sem er að störfum núna hefur umboð til þess að fara í þetta tilraunastarfsmat. Það á ekki að tengja niðurstöður þess starfsmats við launatöflu heldur einungis að raða störfum í röð. Hins vegar geta aðilar síðar, ef þeir vilja, tengt það inn í sína kjarasamninga. Það er annað atriði. Þeir geta notað þetta starfsmat til þess.