Aðgerðir gegn skattsvikum

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 14:18:27 (5280)

1997-04-16 14:18:27# 121. lþ. 103.4 fundur 566. mál: #A aðgerðir gegn skattsvikum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[14:18]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Í svari fjmrh. við fyrirspurn minni fyrir nokkru síðan varðandi árangur af skattrannsóknum og skatteftirliti kom fram að skatteftirlit hefur skilað verulegum árangri á umliðnum árum og má segja að á nokkrum árum hafi skattrannsóknir og skil varðandi þau og árangur margfaldað raunverulega það sem hefur komið inn í ríkissjóð vegna skattrannsókna.

Þó að um sé að ræða verulegar fjárhæðir eða um 1.170 millj. á þriggja ára tímabili, þá segir það sig sjálft að miðað við umfang skattsvika, sem áætlað hefur verið um 11 milljarðar kr., þá er það aðeins lítill hluti þeirra sem næst inn vegna skattrannsókna og skatteftirlits. Í svarinu kom einnig fram að það væru 250 mál óafgreidd hjá skattrannsóknarstjóra og óúrskurðaðar gjaldbreytingar mætti áætla að næmu um 500 millj. kr. Það er því ljóst að eftir miklu er að slægjast og ljóst af því sem fram hefur komið að þessi árangur í skatteftirliti hefur ekki síst náðst vegna þess að það hefur verið aukið og styrkt skatteftirlit og skattrannsóknir.

Því beini ég þeirri fyrirspurn til hæstv. fjmrh. hvort hann muni beita sér fyrir því við næstu fjárlagagerð að styrkja skatteftirlit og skattrannsóknir með því að fjölga starfsmönnum við skattrannsóknir og sérmenntuðum starfsmönnum til að fást við flókin og vandmeðfarin skattsvikamál. Eins spyr ég hvaða aðgerðir séu til skoðunar sem lúta að breytingum á skipulagi skattkerfisins til að draga úr skattsvikum, sem minnst var á í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn á þingskjali 525.

Ég held að það sé alveg óhætt að segja að peningar sem látnir eru í skattrannsóknir og skatteftirlit skila sér og hér er því um að ræða, ef nota má þau orð, mjög arðbæra fjárfestingu.

Eins spyr ég hvort fjmrh. hafi í hyggju aðgerðir til að draga úr kennitöluskiptingu, þ.e. að hægt sé að halda áfram sama atvinnurekstri undir nýju auðkenni, en skila ekki vörslusköttum og öðrum gjöldum til hins opinbera. Ég tel, virðulegi forseti, að það sé farið mjög mildum höndum um þá sem gera slíkt og það er öðruvísi en annars staðar á Norðurlöndum en þróunin þar er sú að auka heimildir til leyfissviptingar vegna brota í atvinnurekstri. En hér er það þannig að þeir sem gera sig gjaldþrota og sleppa síðan við að greiða vörsluskatta geta á nýjan leik, aftur og aftur kannski, hafið sama reksturinn undir nýrri kennitölu.

Síðan vil ég spyrja hvort fyrirhugaðar séu aðgerðir til að draga úr vanskilum og skattundandrætti í skilum á virðisaukaskatti en það hefur komið fram, t.d. í nýlegum Hagtölum mánaðarins í mars sl., að reynslan sýnir að innheimtur virðisaukaskattur af innflutningi hefur fyllilega haldist í hendur við aukinn innflutning og aukist að raungildi um 14% milli ára miðað við verð innfluttrar vöru. En innheimta af innlendri veltu, og ég spyr hvort ráðherra hafi ekki áhyggjur af því, hefur minnkað um 6,5% og 8,5% að raungildi miðað við verð landsframleiðslu.