Aðgerðir gegn skattsvikum

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 14:27:19 (5282)

1997-04-16 14:27:19# 121. lþ. 103.4 fundur 566. mál: #A aðgerðir gegn skattsvikum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[14:27]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég fagna því sem kom fram í svari ráðherra að hugmyndin er að óska eftir auknum framlögum við næstu fjárlagagerð til þess að hægt sé að fjölga starfsmönnum við skattrannsóknir og skatteftirlit. Ég tók líka eftir því að hæstv. ráðherra hefur áhyggjur af þeirri þróun að það sé hægt hér á landi að gera sig gjaldþrota og sleppa við greiðslu vörsluskatta en stofna aftur og aftur kannski sams konar fyrirtæki undir nýrri kennitölu. Mér fannst minna bera á því að ráðherra hefði einhverjar raunhæfar tillögur til úrbóta í þessu efni. Ég vil minna á í þessu sambandi að Framsfl. var með mjög athyglisverðar tillögur áður en hann fór í ríkisstjórn um þetta efni sem var frv. um tímabundið bann við atvinnurekstri eintstaklinga vegna brota og þar var hægt að svipta menn atvinnuleyfi til þriggja ára hið skemmsta og fimm ára hið lengsta, m.a. vegna meiri háttar brota gegn lögum um opinber gjöld. Ég vænti þess að Framsfl. a.m.k. styðji það að farið sé harðar í það að fólk geti leikið þennan leik aftur og aftur sem margoft hefur komið fram að gerist mjög hér á landi meðan löndin sem við berum okkur saman við hafa tekið á þessu máli.

Það olli mér líka vonbrigðum varðandi 4. tölul. að engar sérstakar aðgerðir eru fyrirhugaðar til að draga úr virðisaukaskattssvikum. Það hafa komið aftur og aftur fram dæmi um innskattssvik. Ég minni á Vatnsberamálið, ég minntist áðan á grein í Hagtölum mánaðarins, og ég spyr hvort hæstv. ráðherra ætli ekki að skoða það sérstaklega þegar fram koma slíkar upplýsingar að innheimta virðisaukaskatts af innflutningi hefur haldist í hendur við aukinn innflutning en innheimta virðisaukaskatts af innlendri veltu hefur minnkað verulega að raungildi. Hver er ástæða þess?

Ég get líka vitnað í að auknar tekjur ríkissjóðs umfram fjárlög, sem voru 5--6 milljarðar ef ég man rétt á síðasta ári, má verulega rekja til staðgreiðslu tekjuskatts einstaklinga en lítil sem engin breyting á virðisaukaskatti þrátt fyrir aukna veltu í þjóðfélaginu. Það hlýtur eitthvað mikið að vera að varðandi virðisaukaskattsskilin og þess vegna segi ég það í lokin, herra forseti, að það veldur mér verulegum vonbrigðum ef ekki er sérstaklega verið að skoða það í fjmrn. hvernig á að koma í veg fyrir sívaxandi svik á virðisaukaskatti, sérstaklega í innskattinum, sem ég held að þurfi að taka sérstaklega á.