Reglugerð um ferðakostnað sjúklinga

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 14:55:06 (5290)

1997-04-16 14:55:06# 121. lþ. 103.6 fundur 454. mál: #A reglugerð um ferðakostnað sjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[14:55]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur fyrir að vekja máls á þessari reglugerð og framkvæmd hennar. Ég tek undir að ég tel að það sé nauðsynlegt að slíkar reglur séu í sífelldri endurskoðun og mig langar til að benda á atriði sem ég tel mjög brýnt að verði endurskoðað í þessari reglugerð. Það er greiðsla fyrir ferðir nánasta aðstandanda eða foreldra til heimsóknar barna á sjúkrahús, barna undir 16 ára aldri. Hún takmarkast við það að foreldrum og nánustu aðstandendum er aðeins greitt fyrir eina ferð í viku til barna og þetta á einnig við um ungbörn sem eru á vökudeild eða hvaða börn sem er. Það er allsendis ófullnægjandi að foreldrum sé greitt fyrir eina sjúkravitjun í viku til barns sem er undir 16 ára, og ég hvet hæstv. ráðherra til þess að taka á þessu réttlætismáli, endurskoða þessar reglugerðir. Það eru mörg atriði í henni sem þurfa endurskoðunar við en þetta mál er mjög brýnt að tekið verði á, sérstaklega í kjölfar þeirra réttarbóta sem er með nýju frv. hæstv. ráðherra um greiðslur í fæðingarorlofi til þeirra sem eru með fyrirbura og fjölbura.