Reglugerð um ferðakostnað sjúklinga

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 14:58:05 (5292)

1997-04-16 14:58:05# 121. lþ. 103.6 fundur 454. mál: #A reglugerð um ferðakostnað sjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., SF
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[14:58]

Siv Friðleifsdóttir:

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið og taka undir þær skoðanir sem fram komu hjá hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur. Við höfum rætt þetta talsvert í heilbr.- og trn. í umfjöllun okkar um frv. um fæðingarorlof þar sem verið er að gera verulega réttarbót í því máli. Þar er m.a. verið er að lengja fæðingarorlof vegna t.d. fyrirbura og veikra barna á sjúkrahúsum sem dvelja þar lengi, um allt upp í fjóra mánuði. En varðandi þessi börn er alveg ljóst að það er afar lítið að fara og heimsækja þau einu sinni í viku. Það er afar lítið. Ég tel eðlilegt að ráðuneytið reikni út hvað það mundi kosta að greiða fyrir t.d. tvær ferðir á viku, þó það væri ekki nema það, sem er reyndar frekar lítið eins og við vitum.

Fjölburafæðingum hefur fjölgað. Þar fæðast mun fleiri tvíburar og þríburar og það eru meiri líkur á því að það þurfi að nota þessa þjónustu vegna þessa. Það er hægt að taka ótal mörg dæmi. Annar tvíburi getur verið veikur á sjúkrahúsi, hinn getur farið heim og það þarf að fara á milli að sjálfsögðu og heimsækja hið sjúka barn. Ég vil taka undir að full ástæða er til þess að skoða nákvæmlega þennan þátt gagnvart mæðrum sem eiga veik börn á sjúkrahúsum.