Reglugerð um ferðakostnað sjúklinga

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 15:03:33 (5295)

1997-04-16 15:03:33# 121. lþ. 103.6 fundur 454. mál: #A reglugerð um ferðakostnað sjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[15:03]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að fólk utan af landi er að greiða miklu hærri kostnað við heilbrigðisþjónustuna heldur en á þessu svæði. Við erum ekki eingöngu að horfa á ferðakostnaðinn heldur er dvalarkostnaðurinn einkum mjög hár fyrir þetta fólk. Þegar um endurskoðun verður að ræða þurfum við að taka það líka með inn í dæmið og við þurfum líka að ákveða að hverju við ætlum að einbeita okkur.

Eins og ég sagði áðan tel ég mikilvægast að hafa sem ríkasta sérfræðiþjónustu sem næst fólkinu og við eigum að auka hana. Það er nr. eitt því að það kemur landsbyggðinni best. En varðandi þessar reglur þá veit ég að það er ekki alltaf einfalt fyrir tryggingalækna að úrskurða í þessum málum og þeir eru ekki alltaf öfundsverðir vegna þess að reglurnar eru ekki alveg kristaltærar. Ef þær ættu að vera alveg kristaltærar, þá þyrfti öll þjónusta sem ekki er veitt í heimabyggð, öll heilbrigðisþjónusta sem þarf að leita annað, að vera að fullu greidd. Það er aftur á móti hlutur sem kostar mikla peninga og þarf að leggja mikið fjármagn til, mikið umfram það sem er í dag er lagt til ferðakostnaðar en ríkið er að greiða milli 50--60 millj. kr. í ferðakostnað.