Aðgengi hreyfihamlaðra á fæðingardeild Landspítalans

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 15:05:26 (5296)

1997-04-16 15:05:26# 121. lþ. 103.7 fundur 571. mál: #A aðgengi hreyfihamlaðra á fæðingardeild Landspítalans# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi KH
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[15:05]

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Hér er aftur á ferðinni spurning um jafnræði landsmanna eins og þeirri fyrirspurn sem var á dagskrá áðan. Nýlega birtist grein í Morgunblaðinu sem vakti athygli mína. Greinina skrifar Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir undir fyrirsögninni: Er kvennadeild Landspítalans aðeins fyrir ,,venjulegar konur?``

Í kynningu á höfundi segir að hún sé hreyfihömluð og starfi í Nýjung, ungliðahreyfingu Sjálfsbjargar og í greininni lýsir hún nokkuð í hverju fötlun hennar er fólgin og hvaða erfiðleikum hún mætti af þeim sökum þegar hún kom til mæðraskoðunar á Landspítalanum. En það er nú svo að hreyfihamlaðar konur geta sem betur fer allt eins orðið þungaðar líkt og ,,venjulegar konur`` svo notað sé orðalag Kolbrúnar sem vitanlega er í kaldhæðni gert.

Ýmislegt reyndist Kolbrúnu mótdrægt í mæðraskoðuninni, en það keyrði um þverbak þegar hún þurfti að vera í hjólastól síðustu mánuði meðgöngunnar og komst þá að raun um að fólki í hjólastólum eru nánast allar bjargir bannaðar, útihurðin þung, þröskuldur hár og ekki fræðilegur möguleiki að koma hjólastól inn á salerni, skoðunarbekkur óaðgengilegur og annað eftir því. Hin verðandi móðir fékk sem sagt ekki sömu þjónustu og aðrar konur í mæðraskoðuninni og hún fann til niðurlægingar við allt umstangið sem fötlun hennar hafði í för með sér.

Sama er að segja um aðstöðuna á fæðingardeildinni en í grein Kolbrúnar kemur m.a. fram að á sængurlegudeild er aðeins eitt salerni þar sem koma má inn hjólastól, en þar er engin aðstaða til skolunar og engin sturta með þeim afleiðingum að konur sem bundnar eru við hjólastól komast alls ekki í bað á meðan þær liggja á fæðingardeildinni. Kolbrún spyr: ,,Getur verið að fæðingardeild Landspítalans sé undanskilin þeim lagaákvæðum að allar opinberar byggingar eigi að vera aðgengilegar fyrir fatlaða?``

Af þessu tilefni hef ég lagt fram fyrirspurn til heilbrrh. um aðgengi og aðstöðu fyrir fatlaða á fæðingardeild Landspítalans. Með tilliti til þess sem fram kom í grein Kolbrúnar og þeirra upplýsinga sem ég hef aflað mér hefði ég átt að spyrja bara beint og umbúðalaust hvenær ætlunin væri að bæta aðgengi og aðstæður fyrir hreyfihamlaða á kvennadeild Landspítalans en ég vona svo sannarlega að þær upplýsingar komi fram í svari hæstv. ráðherra.