Aðgengi hreyfihamlaðra á fæðingardeild Landspítalans

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 15:08:15 (5297)

1997-04-16 15:08:15# 121. lþ. 103.7 fundur 571. mál: #A aðgengi hreyfihamlaðra á fæðingardeild Landspítalans# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[15:08]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Á þskj. 930 er fyrirspurn frá Kristínu Halldórsdóttur um aðgengi og aðstöðu fyrir hreyfihamlaða á fæðingardeild Landspítalans. Húsnæði Landspítalans er gamalt og var á sínum tíma ekki hannað nægilega fyrir aðgengi hreyfihamlaðra. Við endurnýjun og viðhald deilda hefur verið tekið mið af aðgengi hreyfihamlaðra. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisspítölum eiga hreyfihamlaðir almennt nokkuð greiðan aðgang að inngöngu spítalans. Varðandi aðalinngang á göngudeild mæðraskoðunar þurfa þeir sem nota hjólastóla að fara inn um hliðargang á kvennadeild Landspítalans. Þessu er þó verið að breyta með tilliti til aðgengis.

Í sumar er ráðgert að endurnýja og lagfæra annan sængurkvennagang kvennadeildar. Einnig hefur forsvarsmönnum kvennadeildar og tæknideildar verið falið að fara yfir allan búnað inni á fæðingardeild Landspítalans með tilliti til aðgengis hreyfihamlaðra. Kvartanir sem hafa borist frá hreyfihömluðum konum hafa verið teknar til alvarlegrar athugunar og munu þær leiða til þess að varanlegar úrbætur verða gerðar.