Aðgengi hreyfihamlaðra á fæðingardeild Landspítalans

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 15:13:17 (5300)

1997-04-16 15:13:17# 121. lþ. 103.7 fundur 571. mál: #A aðgengi hreyfihamlaðra á fæðingardeild Landspítalans# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[15:13]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í fyrri ræðu minni verður bætt úr aðgengi á sængurkvennagangi strax í sumar samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk frá Ríkisspítölum og ég treysti þeim fullkomlega. Unnið hefur verið mjög ötullega einmitt að því að bæta aðgengi á Landspítalanum í gömlu og oft óhentugu húsnæði og þar hafa menn náð verulega góðum tökum á málum þannig að ég treysti því að svo verði einnig nú.

Varðandi það sem kom fram hjá hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur um heyrnarskerta og þær úrbætur sem þarf að gera varðandi þeirra mál þá er í frv. um réttindi sjúklinga ákvæði um að heyrnardaufir eigi að fá túlkaþjónustu í heilbrigðisþjónustunni og til þess er ætlað visst fjármagn. Ég vona að heilbr.- og trn. afgreiði nú það frv. sem liggur fyrir í nefndinni sem tryggir heyrnardaufum túlkaþjónustu.