Reglugerðir um matvæli

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 15:29:13 (5305)

1997-04-16 15:29:13# 121. lþ. 103.1 fundur 373. mál: #A reglugerðir um matvæli# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., SvG
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[15:29]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn sem var flutt af hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur á meðan hún sat hér inni sem varaþingmaður. Fyrirspurnin er á þskj. 651 og hljóðar svo, með leyfi forseta:

1. Tóku reglugerð nr. 588/1993, um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla, og reglugerð nr. 586/1993, um merkingu næringargildis matvæla, gildi að loknum eins árs aðlögunarfresti samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða?

2. Hafa reglugerðirnar haft áhrif á innflutning frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins?

Hv. þm. Guðrún Helgadóttir tók sama mál fyrir í þessari virðulegu stofnun þann 21. nóv. 1994 og spurði þá að því hvenær ætlunin væri að reglugerðirnar tækju gildi og hvernig. Fyrirspurnirnir voru þá á þessa leið:

Gildir reglugerð nr. 588/1993 um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla á Evrópska efnahagssvæðinu einnig um vörur sem framleiddar eru utan svæðisins þar sem aðrar reglur gilda?

Sé svo, hver áhrif hefur það á samkeppnisstöðu og vöruverð?

Einnig bar hún fram fyrirspurn á þessa leið:

Gildir reglugerð nr. 586/1993 um merkingu næringargildis matvæla á Evrópska efnahagssvæðinu einnig um vörur sem framleiddar eru utan svæðisins þar sem aðrar reglur gilda?

Sé svo, hver áhrif hefur það á samkeppnisstöðu og vöruverð?

Í reglugerðinni nr. 588 frá 31. des. 1993 var sérstakt heimildarákvæði um það að veittur var eins árs frestur til að koma á nauðsynlegum breytingum á reglum í þessu sambandi. Heimildarákvæðið var á þessa leið:

Fyrir matvæli sem eru hér á markaði við gildistöku þessarar reglugerðar og sem ekki eru í samræmi við ákvæði hennar er veittur eins árs frestur til að koma á nauðsynlegum breytingum. Hafi breytingar til samræmis við ákvæði reglugerðarinnar ekki verið gerðar að þeim tíma liðnum er dreifing vörunnar óheimil.

Það er til þessa ákvæðis til bráðabirgða sem vitnað er í fyrirspurn hv. þm. í 1. tölulið.

Með þeim reglugerðum sem þarna tóku gildi urðu gríðarlega miklar breytingar á stöðu þessara matvæla og kynningu þeirra andspænis neytendum. Þess vegna skiptir svar hæstv. ráðherra við þessari fyrirspurn miklu en auk þess er það þannig að um leið og þessar reglugerðir hafa áhrif á vörur frá Evrópska efnahagssvæðinu, þá hafa þær mikil áhrif, og kannski enn þá meiri, á vörur utan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem ekki er um að ræða sams konar reglur og gjörbreytir í raun samkeppnisstöðu þeirra, m.a. vörur frá Bandaríkjunum, almennar neysluvörur, sem við höfum notað í miklum mæli.