Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 11:36:21 (5322)

1997-04-17 11:36:21# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), MF
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[11:36]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ræðan sem hv. utanrrh. flutti hér áðan var fyrir margra hluta sakir merkileg. Hún var að vissu leyti upplýsandi um stöðu nokkurra afmarkaðra mála, en þegar á heildina er litið var ræðan merkileg fyrir það hvað hún var metnaðarlaus og sagði lítið um það hver er stefna íslenskra stjórnvalda í utanríkismálum.

Satt að segja var ekki mikið í þessari skýrslu ráðherrans sem við ekki vissum sem fylgjumst með almennum fréttum fjölmiðla. Hver eru helstu áhersluatriði íslensku utanríkisþjónustunnar? Á hvaða sviðum látum við til okkar taka umfram önnur? Hvert stefnum við? Ég er litlu nær eftir að hafa hlustað á hæstv. utanrrh. flytja sína skýrslu.

Ég fagna því hins vegar að hæstv. utanrrh. hefur ákveðið, eins og fram kom á fundi í utanrmn. í gær, að skipa nefnd til að gera úttekt á því hvernig íslensk utanríkisþjónusta geti sem best sinnt hlutverki sínu. Það er tímabært að endurskipuleggja utanríkisþjónustuna og laga hana að breyttri heimsmynd og breyttum hagsmunum íslensku þjóðarinnar. Enginn er eyland og við þurfum að hafa mikil og góð samskipti við aðrar þjóðir og utanríkisþjónustan gegnir þar lykilhlutverki. Ég fagna því sérstaklega að ráðherrann gerir tillögu um að stjórnarandstaðan komi að þessari vinnu sem mér finnst sýna vilja hæstv. ráðherra til þess að ná sem víðtækastri sátt um stefnu í utanríkismálum.

Íslenska þjóðin er lítil á alþjóðlegum mælikvarða, en hún getur þrátt fyrir það haft veruleg áhrif á gang heimsmála. Ekki þó á öllum sviðum. Við erum t.d. afskaplega lítið peð á taflborði hernaðar- og varnarmála og lítið hlustað á okkur á þeim vettvangi. Við getum þó haft áhrif með því að takmarka herbúnað innan íslenskrar lögsögu. En þar virðist þó vera lítill vilji til góðra verka. Við erum enn, ef marka má ræðu hæstv. ráðherra áðan, jafnbundin á klafa NATO og á dögum kalda stríðsins. Það örlar ekki á nýrri hugsun um hvernig við getum lagt lóð á vogarskálar friðar og öryggis, t.d. með því að samþykkja frv. til laga sem flutt hefur verið hér af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og reyndar fleiri hv. þm. um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Ég verð að viðurkenna að mér kom á óvart að hæstv. utanrrh. eyddi nær fjórðungi af ræðutíma sínum áðan í umræðu um mikilvægi þess að viðhalda NATO og styrkja. Þetta mikla pláss í ræðu ráðherrans er þó vonandi ekki í réttu hlutfalli við vægi NATO í forgangsröðun ríkisstjórnar í utanríkismálum, ef sú forgangsröðun er á annað borð til.

Ég tel að okkur væri nær að taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi um mannréttindamál, umhverfismál, viðskipta- og menntamál. Á þeim sviðum er á okkur hlustað og þar getum við haft veruleg áhrif. Við eigum að nýta það fjármagn og þann mannafla sem við eigum í alþjóðlegu samstarfi til góðra verka á þessu sviði fyrst og fremst, en í ræðu hæstv. ráðherra var ekki að finna neina slíka forgangsröð verkefna.

Í upphafi ræðu sinnar sagði ráðherrann að utanríkisþjónustan þurfi að vera nægilega öflug til þess að við Íslendingar getum staðið við skuldbindingar sem við höfum tekið á okkur. Leiðin var sú, að hans mati, að efla utanríkisþjónustuna. Ég er að vissu leyti sammála hæstv. ráðherra að það þurfi að bæta möguleika utanrrn. til þess að hafa eftirlit með framkvæmd alþjóðlegra samninga sem við höfum gerst aðilar að. Hann nefndi hins vegar ekki það sem skiptir meginmáli, að ríkisstjórnin þarf að fylgja þessum samningum eftir. Það er ríkisstjórnarinnar að sjá til þess að við uppfyllum þær skuldbindingar sem við höfum á okkur tekið á alþjóðlegum vettvangi. Þar er pottur brotinn eins og við öll vitum og í því sambandi ætti að nægja að vísa til samningsins um loftslagsvernd. Ég átti von á, þar sem þessum alþjóðlegu samningum er alltaf að fjölga, að hæstv. ráðherra gerði Alþingi grein fyrir forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í þeim efnum, færi yfir samninga og hvernig við hygðumst standa við þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist. Það er nauðsynlegt að Alþingi fái slíkt yfirlit og hver staða Íslands er hverju sinni. Hvaða aðgerðir þarf til þess að fullnægja samningum, hvað hefur verið gert, hvað er eftir? Úr þessu verður ekki bætt með því einu að efla eftirlit utanrrn., ríkisstjórnin þarf að marka stefnu og framfylgja henni. Þetta er mál sem snertir mörg ráðuneyti og Alþingi sem hefur veitt utanrrn. heimild til þess að fullgilda alþjóðlega samninga fyrir hönd íslenska ríkisins. Það var reyndar athyglisvert að ráðherrann nefndi enga af þeim skuldbindingum eða samningum sem hann var að vísa til.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um viðskiptaþjónustuna og útflutningsviðskiptin sem hæstv. ráðherra kynnti hér áðan. Alþb. fagnar þessari framkvæmd, enda er hún í fullu samræmi við boðaða stefnu flokksins. Fyrir síðustu kosningar kynntum við tillögur okkar varðandi alþjóðleg viðskipti og við fögnum því að stjórnarflokkarnir hafa tekið þær upp á sína arma.

Ráðherra sagði að samstarf hefði aukist verulega innan Barentshafsráðsins og að Íslendingar hefðu tekið virkan þátt í þessu samstarfi. Það vantaði hins vegar útskýringar á því í hverju þessi virkni væri fólgin. Höfum við t.d. beitt okkur fyrir því á þessum vettvangi að ríki heims standi saman um aðgerðir til að forða umhverfisslysi af völdum norðurflota Rússa á Kólaskaga? Ekki orð um það í skýrslu ráðherrans.

Höfuðstöðvar rússneska norðurflotans eru eins og kunnugt er á Kólaskaga. Þar eru staðsett flest kjarnorkuknúin fley rússneska sjóhersins og kjarnorkuúrgangur úr fjölda sovéskra skipa og kafbáta eru geymd að því er sagt er við hættulegar aðstæður í þessum flotastöðvum. Við vitum að rússneski sjóherinn býr við mikinn fjárskort. Sagt er að viðhaldi kafbáta hersins sé ábótavant og jafnvel dæmi þess að lokað hafi verið fyrir sölu rafmagns til kafbátanna sem hefði getað valdið því að kjarnakljúfarnir ofhitnuðu með skelfilegum afleiðingum. Það er alveg ljóst að ef ríki heims ná ekki að standa saman að aðgerðum á Kólaskaga er veruleg hætta á mun stærra slysi í Barentshafi en varð í Tsjernóbíl, og að það slys muni hafa áhrif hér á Íslandi. Norðmenn hafa eðlilega áhyggjur af þessum umhverfisháska sem ógnað getur lífríki í norðurhöfum og gerðu nýlega þríhliða samkomulag við Bandaríkin og Rússland um samstarf á þessu sviði. Hver er stefna ríkisstjórnarinnar? Hvað hefur hún gert í þessum málum? Hefur ríkisstjórnin kynnt sér svokallaða Bellona-skýrslu þar sem úttekt var gerð á ástandinu á Kólaskaga og gerð var ítarleg grein fyrir í Morgunblaðinu 8. desember sl.?

Það vakti líka athygli mína að hæstv. ráðherra sagði að með stofnun Norðurskautsráðsins hafi verið myndaður vettvangur aðildarríkjanna átta og að eitt mikilvægasta verkefni ráðsins væri að tryggja jafnvægi milli náttúruverndar og nýtingar auðlinda á norðurslóðum. Þetta norðurslóðasamstarf á sér langan aðdraganda. Það eru nokkuð mörg ár liðin frá því að löndin átta samþykktu sameiginlega áætlun um vernd og sjálfbæra nýtingu norðurslóða. Að þessu verkefni hefur verið unnið um margra ára skeið. Norðurskautsráðið er í sjálfu sér ekkert nýjabrum -- það er í raun aðeins staðfesting á því starfi sem unnið hefur verið um langt skeið.

Það var heldur lítið á skýrslu ráðherrans að græða hvað varðar EFTA og EES-samninginn. Í skýrslunni er hlaupið á hundavaði yfir þennan mikilvæga málaflokk íslenskra utanríkismála. Áhrif okkar á lagasetningu ESB hafa aukist og möguleikar okkar til starfa, rannsókna og náms í löndum ESB hafa aukist. Önnur voru skilaboðin í raun ekki. Ekkert um framkvæmd, ekkert um nýjar skuldbindingar, ekkert um þjóðhagsleg áhrif þessa samnings.

Málið er ekki á dagskrá segir hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. er ef til vill sammála. Hvað sem þeirra afstöðu líður verður ekki hjá því horft að með aðildinni að EES erum við nátengd Evrópusambandinu. Ekki aðeins á sviði utanríkismála heldur einnig og ekki síður á sviði innanríkismála. Þrátt fyrir það sá hæstv. utanrrh. ekki ástæðu til að fjalla um þennan mikilvæga málaflokk íslenskra stjórnmála í skýrslu sinni.

Með aðild okkar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið var samþykkt að laga íslenska löggjöf að verulegu leyti að löggjöf Evrópusambandsins. Ekki aðeins að þeirri löggjöf sem Evrópusambandið býr við í dag heldur einnig að nýjum lögum og reglum sem aðildarríki sambandsins munu samþykkja á komandi árum. Það er því full ástæða til að gera þessum þætti utanríkismála myndarleg skil þegar Alþingi er flutt skýrsla um stöðu utanríkismála þar sem við höfum litla möguleika á að fylgjast náið með öllum þeim reglum sem við erum bundin af að framfylgja. Það er aðeins á afmörkuðum sviðum sem við erum óbundin af lagasetningu Evrópusambandsins, svo sem að hluta til í sjávarútvegi, landbúnaði og náttúruverndarmálum.

[11:45]

Þessi staða gerir það að verkum að við verðum að halda vöku okkar og fylgjast vel með málefnum Evrópusambandsins og taka afstöðu til þeirra með hagsmuni íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi. Það mun aðeins leiða til ófarnaðar að segja að málið sé ekki á dagskrá. Þrátt fyrir mikilvægi málsins er aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu afgreidd með nokkrum almennum orðum í ræðu hæstv. utanrrh.

Það er ekki gerð tilraun til að meta reynsluna eða koma með tillögur um framhaldið. Ég tel að íslensk stjórnvöld hafi algjörlega brugðist í upplýsingahlutverki sínu hvað varðar stöðu okkar innan EES og tengslin við Evrópusambandið. Það hafa átt sér stað verulegar breytingar síðan við gerðumst aðilar að EES-samningnum, breytingar sem gera það að verkum að staða okkar til þess að hafa áhrif á þær samþykktir Evrópusambandsins sem snerta okkur beint er mjög veik og að mínu mati afar metnaðarlaus.

Það kom fram hjá hæstv. ráðherra í umræðum hér 4. apríl að þær nefndir sem við gætum átt aðild að væru u.þ.b. 300.

Það segir sig sjálft að það starfslið sem við höfum til þess að sinna utanríkisþjónustunni kemst alls ekki yfir að sinna öllum þeim málum sem snerta hag landsins beint. Og þó að um öflugt samstarf við aðrar þjóðir sé að ræða þá eru áhrif okkar mjög lítil.

Aðild okkar að EES-samningnum hefur áreiðanlega að einhverju leyti orðið til hagsbóta fyrir íslenskt þjóðfélag, t.d. á sviði útflutnings, fyrir launafólk og á sviði neytendamála. En fyrir þessar hagsbætur höfum við greitt hátt gjald og þeirri spurningu er enn ósvarað hvort ávinningurinn er nægjanlegur til að réttlæta aðildina eða réttlæta óbreytt ástand.

Það þarf að kanna með skipulögðum hætti þjóðfélagsleg áhrif samningsins og þá stöðu sem hann hefur sett okkur í gagnvart Evrópusambandinu og skoða þær leiðir sem færar eru til að styrkja stöðu Íslands meðal þjóðanna.

Evrópuráðið --- um það sagði hæstv. utanrrh. réttilega að það væri lykilstofnun á sviði mannréttinda, lýðræðis og bættra samskipta þjóða. En við skulum ekki gleyma því að Evrópuráðið er einnig mjög mikilvægt á sviði umhverfismála og það annast samræmingarhlutverk á því sviði innan Evrópu. Ég fagna þeirri áherslu sem hæstv. ráðherra leggur nú á aðild okkar að ráðinu og vona að hún sé ekki eingöngu bundin þeirri skyldu okkar að taka við forustuhlutverkinu á næsta ári.

Ég er sammála hæstv. ráðherra að í þeim öru breytingum sem nú eiga sér stað sé Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu mjög mikilvæg. Varsjárbandalagið er liðið undir lok og spurningar hafa vaknað um tilvist Atlantshafsbandalagsins. Ég hefði talið eðlilegra að ÖSE kæmi í stað bandalaganna tveggja og tæki við hlutverki þeirra en því miður er ekkert útlit fyrir að sú eðlilega þróun nái fram að ganga.

Hernaðarbandalagið NATO er að vissu leyti draugur fortíðar. Það eru margir sem efast um að þetta gamla hernaðarbandalag geti nokkru sinni lagað sig að breyttum tímum og lagt áherslu á afvopnun, friðargæslu, baráttu gegn sölu vopna og gegn miðlun tækniþekkingar á sviði efnavopna og kjarnorkuvopna.

Vissulega hefur því verið lýst yfir að eðli Atlantshafsbandalagsins hafi breyst og að það skilgreini ekki lengur neitt ríki sem óvin. Þess í stað sé það opið fyrir aðild allra þjóða í Evrópu sem uppfylli skilyrði þess. Það hafa verið stofnuð samstarfs- og samráðsferli með ríkjum sem standa utan NATO eins og Norður-Atlantshafsráðið og Samstarf í þágu friðar. Sagt er að það sé gert til að mæta nýjum markmiðum og í þeim tilgangi að efla sambandið á milli aðildarríkja NATO og fyrrum aðildarríkja Varsjárbandalagsins.

Orð eru þó til lítils ef ekki fylgja efndir. Endurskipulagning NATO er markleysa ef það starf er ekki til þess fallið í raun að eyða tortryggni og efla trúnað og öryggi í Evrópu.

Sú ákvörðun að stækka NATO á þann hátt að valin séu nokkur ríki sem veita á inngöngu en halda öðrum fyrir utan skapar tortryggni og spennu og óvíst er að hún skili þeim árangri sem stefnt er að.

Fylgjendur lýðræðis í Rússlandi hafa ítrekað bent á að útþensla NATO í austurátt með þessum hætti valdi ólgu og spennu sem getur orðið vatn á myllu öfgaafla í landinu. Þessi leið NATO, sem íslenska ríkisstjórnin virðist styðja, getur torveldað samstarf Rússlands og NATO á sviði afvopnunarmála og getur stefnt í voða forsendum fyrir niðurskurði á hefðbundnum herafla í Evrópu og samstarfi um eyðingu kjarna- og efnavopna.

Þegar litið er á þennan fórnarkostnað er erfitt að réttlæta þann hraða sem einkennir þessa útþenslustefnu og þau sjónarmið sem þar ráða ferðinni. Kapp er best með forsjá. Góð samvinna milli ríkja í austur- og vesturhluta Evrópu skiptir miklu máli fyrir Ísland. Einn angi þeirrar samvinnu er förgun kjarnorkuúrgangs á Kólaskaga, sem ég nefndi áðan.

Það er mikilvægt að við Íslendingar höfum hugfast í stefnumörkun okkar varðandi þróun alþjóðaöryggismála að ekki má koma bakslag í samvinnu ríkja við að leysa vandamál líkt og það sem er á Kólaskaga.

Ég get ekki skilið við öryggis- og varnarmálin án þess að spyrja hæstv. ráðherra hvað hann hafi átt við með sérkennilegu orðalagi sínu um viðveru Bandaríkjanna í Evrópu.

Hæstv. ráðherra sagði að stöðugt þurfi að leggja áherslu á mikilvægi þess að tengslin yfir Atlantshafið verði áfram á styrkum grunni og að tryggja þurfi áframhaldandi öfluga viðveru Bandaríkjanna í Evrópu og þátttöku þeirra innan herstjórnarkerfisins. Þau tengsl megi ekki á nokkurn hátt veikja.

Ég spyr hvort hæstv. ráðherra sé með þessum orðum að boða varanlega viðveru herliðs á Íslandi? Áhersla hefur verið lögð á að ný aðildarríki NATO þurfi ekki að búa við langdvöl erlends herliðs í sínum löndum. Það er greinilegt að slík viðvera er talin vondur kostur. Hvers vegna ættum við þá að sætta okkur við slíkan kost?

Að lokum vil ég taka undir þau orð sem hæstv. ráðherra lét falla hér um Sameinuðu þjóðirnar og mikilvægi þess starfs. En síðan langar mig að spyrja hæstv. ráðherra þar sem hann segir sérstaklega í niðurlagi ræðu sinnar um hvalveiðimál að mikilvægt væri að hafa náið samráð og samstarf við öll ríki er málið varðar. (Forseti hringir.) Mér þætti vænt um að fá útskýringu á þessum orðum. Er hæstv. ráðherra að boða inngöngu á nýjan leik í Alþjóðahvalveiðiráðið og taka þar með undir þáltill. sem hér er til umfjöllunar?