Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 11:52:12 (5323)

1997-04-17 11:52:12# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GHH
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[11:52]

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir hans yfirgripsmiklu yfirlitsræðu um utanríkismál og hina ýmsu þætti þeirra eins og þeir snúa að okkur hér á Íslandi.

Ég vil í upphafi nefna það sem ráðherra gerði að umtalsefni fyrst í ræðu sinni, þ.e. utanríkisþjónustuna sjálfa, og fagna því að hann hefur skrifað utanrmn. bréf eða sent henni erindi þar sem óskað er eftir atbeina nefndarinnar að nefndarstarfi um skipulagsmál utanríkisþjónustunnar í framtíðinni. Ég tel að sú vinna sem þar með er fyrirhugað að hefja sé alveg gríðarlega mikilvæg fyrir okkur. Ég tel að eðlilegt sé að að því komi bæði stjórn og stjórnarandstaða á Alþingi vegna þess að um málefni sem þessi er auðvitað nauðsynlegt að ríki sem breiðust samstaða. Við þurfum að átta okkur á því að utanríkisþjónustan í dag þarf að takast á við margfalt fleiri og flóknari viðfangsefni heldur en áður var, auk þess sem þau svæði í heiminum sem fylgjast þarf með eru orðin miklu fleiri vegna ýmissa mikilvægra hagsmuna sem Íslendingar eiga núna utan hefðbundinna samskiptasvæða.

Það eitt er víst, herra forseti, að Íslendingar fá ekki lengur neitt frítt í alþjóðlegum samskiptum. Hnattstaða okkar eða samstarf við önnur ríki mun ekki færa okkur neitt ókeypis og við munum þurfa að efla okkar eigin varðstöðu um öll okkar hagsmunamál sjálf. Auðvitað njótum við góðs af margs konar samstarfi, t.d. við Norðurlönd þar sem það á við og þar sem ekki rekast á hagsmunir. En í aðalatriðum getum við ekki treyst á neina aðra en okkur sjálfa til þess að fara með hagsmunamál okkar gagnvart umheiminum. Þess vegna hef ég verið þeirrar skoðunar að í tengslum við endurskipulagningu á utanríkisþjónustunni sé nauðsynlegt að huga að því hvernig best verður komið fyrirsvari Íslendinga við hin ýmsu ríki heims. Ég tel að þar sé víða pottur brotinn eða réttara sagt víða tilefni til þess að gera endurbætur á þó að við þurfum vitaskuld að átta okkur á að stofnun nýrra sendiráða eða fastaskrifstofa á vegum íslenska ríkisins kostar fjármuni. Þó mega menn ekki falla í þá gildru að líta á það mál eingöngu út frá kostnaðarsjónarmiði ríkisins vegna þess að í mörgum tilfellum getur verið um það að ræða að kosta til opinberu fé til þess að ná fram ávinningi annars staðar í hagkerfi okkar, annaðhvort beint, ef hér verða sett upp sendiráð annarra þjóða í endurgjaldsskyni, ellegar ef okkar skrifstofur erlendis og í fjarlægum heimshlutum geta stofnað til viðskiptasambanda sem gagnast þjóðarbúi okkar sem er þá auðvitað ávinningur sem kemur upp á móti hinum beina kostnaði þó að hann reiknist ekki beint til tekna í íslenska ríkiskassann.

Það er að mörgu að huga í þessu efni og alveg ljóst að það eru ýmis svæði heimsins sem full ástæða er til að við Íslendingar gefum meiri gaum en gert hefur verið. Við höfum að vísu þegar stofnað sendiráð í Peking. Það var jákvætt skref og það er margt fleira sem er að gerast í þeirri heimsálfu sem varðar okkur Íslendinga miklu og ástæðulaust að nefna sem allir vita að viðskipti okkar við ríki Asíu hafa stórvaxið á undanförnum árum og eru mjög að eflast, eins og allt viðskiptalíf í þeim heimshluta þar sem tekjur íbúa fara nú hraðvaxandi og velmegun eykst í mjög mörgum löndum í þeim hluta heimsins.

Ég vil nefna sérstaklega það sem fram kom í ræðu ráðherra varðandi viðskiptaþjónustuna og fagna því sem hann hefur beitt sér fyrir í því efni. Sömuleiðis vil ég nefna að viðskiptaferðir eins og hann hefur beitt sér fyrir og hefur í undirbúningi eru sömuleiðis mjög af hinu góða. Mér er kunnugt um að ferð sú sem ráðherra fór til Suður-Kóreu á síðasta ári hefur þegar skilað töluverðum árangri. Við vorum þar nýlega þrír þingmenn á vegum Alþingis og ég átti þess kost að ræða við ræðismann Íslands þar. Hann lýsti mikilli ánægju sinni með þetta framtak og taldi að það hefði þegar skilað miklum árangri og eigi eftir að gera enn meir þegar fram í sækir. Þessa aðferð, að ráðherra fari fyrir sendinefndum til ýmissa ríkja, nota margar þjóðir, ýmist með utanrrh. sinn eða jafnvel forsrh. Það var auðvitað fyllilega tímabært að skipuleggja viðskiptaferð með þessum hætti og ánægjuefni að ráðherra hefur í hyggju að því er ég best veit að fara aðra slíka ferð á þessu ári til ríkja í Suður-Ameríku. Það er skammsýni að horfa í kostnað við ferðir af þessu tagi. En það er hins vegar alveg ljóst að ávinningur af svona starfi getur verið mjög mikill fyrir íslensk fyrirtæki og athafnalíf.

Ég nefndi Suður-Kóreu vegna þess að það er dæmi um ríki þar sem hefur orðið gríðarlegur uppgangur á undanförnum árum og velmegun fer vaxandi og þar sem eru auðvitað margs konar tækifæri fyrir Íslendinga að hasla sér völl í viðskiptum eða á sviði greina eins og ferðamennsku. Mér er tjáð að á þessu ári muni u.þ.b. 150 þúsund Suður-Kóreumenn fara til Nýja-Sjálands í sumarfríunum sínum, 150 þúsund manns þessa löngu leið sem þar er um að ræða. Það er vegna þess að þeir eru að leita að einhverju nýju. Þeir hafa efni á því að fjármagna ferðir sínar og eru að leita að nýjum áfangastöðum. Ég tel að hér sé líka akur að plægja fyrir íslenska ferðaþjónustu eins og reyndar er tilfellið með mörg önnur Asíulönd. Ég nefni Japan, ég nefni Tævan en ferðamönnum þaðan hefur fjölgað mjög mikið á undanförnum árum þó að hins vegar hafi ekki verið gerðar nægilegar ráðstafanir til þess að einfalda þeim að koma hingað til lands. En staðreyndin er sú að ferðafólk frá þessum heimshluta eru einhverjir bestu ferðamenn sem völ er á. Þetta er afskaplega þægilegt fólk. Það er ekki með óspektir og mengar ekki út frá sér en hins vegar borgar það reikningana sína með glöðu geði eins og um hefur verið samið. Það ber öllum saman um að ferðafólk frá þessum heimshluta sé mjög til fyrirmyndar. Mér er kunnugt um það að á Tævan hafa Norðurlöndin öll sérstakar viðskiptaskrifstofur, sumar reyndar undir stjórn manna sem eru í láni úr utanríkisþjónustu viðkomandi landa og eru þar með í óopinberum tengslum við utanríkisþjónustuna. Þó að þessi ríki hafi að sjálfsögðu ekki frekar en við pólitísk tengsl við Tævan þá eru viðskiptahagsmunir orðnir það miklir við það svæði, það eyland, að öll Norðurlönd og reyndar flest vestræn ríki hafa komið sér þar upp sérstökum viðskiptaskrifstofum til þess að efla viðskiptin.

[12:00]

Allir vita að sjálfsögðu hversu mikil viðskipti eru orðin milli Tævans og meginlandsins. Þau fyrirtæki sem Tævanmenn hafa fjárfest í á meginlandinu skipta tugum þúsunda og ljóst er að þar eru vaxandi viðskiptamöguleikar sem við eigum ekkert að láta hræða okkur frá að taka þátt í, þó svo það sé ekki okkar mál að leysa pólitískan ágreining sem er á milli Kínverja innbyrðis um stöðu Tævans gagnvart meginlandinu. Það verða þeir að sjálfsögðu að leysa sjálfir með friðsamlegum hætti. En við eigum auðvitað að eiga viðskipti við báða aðila óháð þeim pólitísku ágreiningsmálum.

Ég vil nefna í sambandi við skipulagsmál utanríkisþjónustunnar að vissulega hefur komið til tals, og m.a. verið rætt hér á Alþingi að stofna sendráð í Japan. Ég tel að full þörf sé á því og að þessi tvö sendiráð, í Japan og Kína, eigi að skipta á mílli sín fyrirsvari fyrir Ísland í Asíu. En það er víðar sem þarf að opna sendiráð þegar menn hafa farið yfir það mál og kynnt sér það eða gert um það eitthvert plan fyrir framtíðina. Við skuldum auðvitað Finnum að opna hjá þeim skrifstofu, sendiráð, sem gæti þá jafnframt tekið að sér að annast ýmis önnur samskipti við nálæg ríki. Ég nefni að í mörg ár hefur verið talað um að stofna sendiráð í Kanada sem að mínum dómi er mjög tímabært. Ég nefni lítið dæmi um vandamál sem við höfum ekki getað leyst í samskiptum okkar við Kanada. Það eru loftferðasamningarnir þar sem gríðarlega miklir hagsmunir hanga á spýtunni fyrir ferðaþjónustu okkar og aðild okkar í þeim geira. Fyrir utan að sjálfsögðu menningarsamskiptin og þau tengsl sem við eigum við Kanadamenn á grundvelli vestur-íslenskra tengsla og margt fleira í þeim efnum sem lýtur kannski meira að fortíðinni. Til framtíðar horfa svo að sjálfsögðu norðurskautsmálefnin sem ráðherrann gerði áðan að umtalsefni og allt það samstarf, allir þeir samstarfsmöguleikar sem þau bera með sér á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, sjálfbærrar þróunar almennt, á sviði umhverfismála o.s.frv. Þannig að allt ber þetta nú að sama brunni. Við getum ekki látið þessi mál afskiptalaus og getum heldur ekki ætlast til að fámenn skrifstofa íslenska ríkisins í Washington geti hugsað um öll þau málefni sem hér er um að tefla án þess að fá til þess liðsauka í viðbót við að sinna málefnum í Suður-Ameríku og Mið-Ameríkuríkjum þar sem verkefni hafa frekar verið að bætast við heldur en hitt.

Þetta vildi ég segja um þessi málefni, herra forseti. Mig langar ekki að blanda mér í deilurnar um stækkun Atlantshafsbandalagsins enn einu sinni. Mér finnst það ekki þjóna neinum tilgangi. Við vitum öll hver afstaða okkar er, væntanlega allra. Auðvitað viljum við öll að Eystrasaltslöndin fái sem fyrst aðild að Atlantshafsbandalaginu vegna þess að það er þeirra ósk og vilji. En við verðum líka að horfast í augu við staðreyndir. Við gerum okkur grein fyrir því að aðild þeirra að bandalaginu þýðir í raun að Bandaríkjamenn taka að sér að tryggja landamæri milli þessara ríkja og Rússlands. Ef þeir eru ekki tilbúnir til þess þá munu hvorki hæstv. utanrrh., hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sá sem hér stendur né neitt okkar geta breytt því eða sannfært bandarískan almenning eða stjórnmálamenn um það þótt við viljum auðvitað að Eystrasaltsríkin fái þarna aðild að og við höfum gert það sem við höfum getað hvarvetna þar sem við höfum haft til þess vettvang að tala máli þeirra, bæði hæstv. ráðherra, hæstv. fyrrv. ráðherra og við öll sem höfum haft tækifæri til þess á alþjóðavettvangi. Ég dreg það ekkert í efa en við skulum ekkert vera að velta hvort öðru upp úr einhverjum annarlegum sjónarmiðum í þessu máli. Það er ekki við hæfi.

Ég ætla heldur ekkert að tala hér um Evrópumálin eða myntbandalagið en mig langar til að minnast á eitt atriði sem hæstv. ráðherra nefndi og hefur verið á döfinni undanfarið. Það er tillaga sú sem Íslendingar hafa gerst meðflutningsmenn að í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna gagnvart Kína. Við höfum kappkostað að eiga góð samskipti við Kína. Við höfum verið þar með fleiri sendinefndir á undanförnum árum á ýmsum stigum í stjórnkerfinu og gert okkur far um að eiga við þá gott samstarf. En við þurfum auðvitað að gera okkur grein fyrir eðli stjórnarfarsins í Kína og vera óhræddir við að gagnrýna það þar sem við höfum aðstöðu til. Þess vegna tel ég að það hafi verið rétt ákvörðun og sýni kjark að íslensk stjórnvöld skuli hafa gerst meðflutningsaðilar að þessari tillögu þó svo að hún hafi ekki náð fram að ganga á þessu stigi. Vinur er sá er til vamms segir. Kínverjar eiga vissulega langt í land með að breyta sínu stjórnarfari í það fjölflokkahorf sem við viljum gjarnan sjá. Framkoma þeirra í Tíbet er auðvitað ekki líðandi og ekki hægt að sitja hjá án þess að gagnrýna hana. Það er athyglisvert að á Tævan hefur þvert á móti tekist að þróa á undanförnum árum lýðræðisstjórnarfar þar sem bæði er kosið til þings, sveitarstjórna og kosinn þjóðhöfðingi þótt hann njóti að sjálfsögðu ekki viðurkenningar Kínverja á meginlandinu. Þetta er allt mjög athyglisvert og ég held að með þessu framtaki hafi verið stigið merkilegt skref þótt það hafi ekki náð fram að ganga og undir forustu Dana og Evrópusambandsþjóðanna hafi þetta verið skref sem ástæða er til að vekja athygli á og láta ekki fram hjá sér fara.

Það er vissulega margt fleira sem ástæða væri til að nefna, virðulegur forseti, en tíminn er naumur. Menn hafa spurt um hvalamál og talað um þau. Hér er á dagskrá seinna á fundinum sérstök tillaga um það efni þannig að ég geri ráð fyrir að áhugamenn um það mál geti fengið að tjá sig frekar um hvalamálin undir þeim dagskrárlið.