Setning reglugerðar um tekjutryggingu almannatrygginga

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 13:51:36 (5335)

1997-04-17 13:51:36# 121. lþ. 105.95 fundur 290#B setning reglugerðar um tekjutryggingu almannatrygginga# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[13:51]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir að vekja athygli á þessu stóra máli vegna þess að hér er stórmál á ferðinni og Alþingi getur ekki látið við það sitja annað en að fá úrskurð í þessu máli. Öryrki fær bætur vegna örorku sinnar og það er vafasamt að tengja bæturnar sem hann fær við tekjur maka. Það breytir ekki örorku viðkomandi þó maki hans hafi tekjur. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram að það á að líta á fólk sem einstaklinga óháð hjúskaparstöðu þess.

Ég vil hvetja til þess eftir þessa umræðu að Alþingi láti málið til sín taka og ég tel rétt að málið komi til kasta heilbr.- og trn. og hún láti fara fram lögfræðilega úttekt á því hvort þessi umrædda reglugerð hafi stoð í lögum. Það er ótækt annað en að úr því fáist skorið. Ég tek líka undir að það sem fram kom hjá hv. þm. Svavari Gestssyni, að það væri rétt að láta reyna á þetta sem prófmál. Fyrst af öllu tel ég að heilbr.- og trn. eigi að láta þetta mál til sín taka.

Af því ráðherra nefndi það að bótaþegar ættu nú rétt á hækkun bóta í samræmi við niðurstöðu kjarasamninga, þá vil ég spyrja um afstöðu ráðherrans til þess. Eins og allir vita voru tengsl bóta við launaþróun í landinu rofin fyrir rúmlega ári síðan og nú bíða elli- og örorkulífeyrisþegar eftir því hvernig ríkisstjórnin ætlar að taka á þessu máli. Mun hæstv. ráðherra, og ég spyr um það, beita sér fyrir því að hækkun á bótum almannatrygginga til elli- og örorkulífeyrisþega og atvinnulausra verði í samræmi við það sem hún hefur verið á umliðnum árum, þ.e. að þær taki hækkun til samræmis við hækkun lægstu launa í landinu? (Forseti hringir.) Ég spyr um það að því gefna tilefni að ráðherra var að minnast á þetta mál.