Setning reglugerðar um tekjutryggingu almannatrygginga

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 13:53:58 (5336)

1997-04-17 13:53:58# 121. lþ. 105.95 fundur 290#B setning reglugerðar um tekjutryggingu almannatrygginga# (umræður utan dagskrár), ÓÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[13:53]

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Mér virðist það dálítið sérstætt ef hv. þingmenn sem hér sitja telja það fljótlegustu leiðina til að fá vilja sinn hvernig lög eigi að vera í landinu, að leitað sé til dómstóla. Hér sitja menn á löggjafarsamkomunni og það er tiltölulega fljótlegt að breyta lögum og hafa þetta skýrt. Annað tekur ef til vill mánuð eða styttri tíma, hitt tekur fleiri ár og kostar þar að auki stórfé. Ég tel þess vegna að það sé miklu rökréttara sem fram kom hjá einum fulltrúa Kvennalistans, hv. 19. þm. Reykv., að Alþingi þarf sjálft að hafa á því skoðun hvernig það vill hafa þetta og orða það í lögum svo skýrt að ekki verði um það deilt.

Varðandi aftur á móti það ákvæði hvort hjúskaparstaða sé á þann veg að ekki megi mismuna einstaklingum eftir því hvort þeir eru í hjúskap eða ekki, þá blasir það við að allt íslenska lagasafnið er morandi af leikreglum sem snerta þetta ákvæði. Það má taka lög um námslán sem dæmi, það má taka skattalögin og ef þetta er allt stjórnarskrárbrot þá sýnist mér að þingið hafi nóg að gera þó það sæti hér út júní.

En með þessu vil ég aðeins undirstrika það að mér sýnist að leið laganna sé rétta leiðin en ekki hitt að velja dómstóla því að Alþingi er þá að koma sér undan því að upplýsa hver sé meirihlutavilji þingsins í þessum efnum. (Forseti hringir.) Það er nú svo að tíminn er útrunninn en ég vil aðeins undirstrika að ég held að þeir tímar séu upprunnir að við eigum að horfa meira á einstaklinginn sem einstakling en ekki horfa eins mikið á hjúskaparstöðuna.