Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 14:23:22 (5342)

1997-04-17 14:23:22# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[14:23]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér er mjög til efs að ef aðstæður af því tagi bæri að á Íslandi, sem æfingin er grundvölluð á --- og reyndar orkar tvímælis að sé mjög raunhæft út frá jarðfræðiþekkingu og sögu, að katastrófur af þessari stærðargráðu yrðu með þeim hætti sem þarna er gert ráð fyrir. Má í því sambandi t.d. vitna til reynslunnar af Suðurlandsskjálftanum sem átti sér ákveðinn aðdraganda og stóð yfir í langan tíma og bar að með allt öðrum hætti, og mun væntanlega gera það eftirleiðis, en gert er ráð fyrir að þessi mikla katastrófa geri --- þá kæmu þeir aðilar fyrst til aðstoðar sem þarna eiga í hlut sumir hverjir. Þó það sé góðra gjalda vert að Rússar fái að vera með í þessu, þá er ég nú ekki viss um að þeir yrðu fyrstir á vettvang. Reyndar er það þannig að Íslendingar hafa oftast þurft að treysta á sjálfa sig öðrum fremur þegar erfiðar aðstæður ber að. Ýmislegt sem lýtur að staðbundinn þekkingu og öðru slíku gerir það að verkum að við getum í sjálfu sér ekki á aðra treyst en okkur sjálfa þegar í harðbakkann slær og það hefur margsannast og sannast endurtekið þegar á bjátar, eins og kunnugt er.

Það er gott að friðsamlegar lítur út í heiminum. En það breytir ekki grundvallaratriðum af því tagi sem ég var að reyna að fara yfir þ.e. um aðskilnað borgaralegrar starfsemi og almannavarna annars vegar og hernaðarumsvifa hins vegar. Það stendur allt óhaggað hvernig sem aðstæður standa í augnablikinu úti í heimi. Það er þannig að nánast alls staðar í heiminum lýtur yfirstjórn almannavarna borgaralegri stjórn. Það er passað upp á að hafa hana algjörlega aðskilda. Mér er vel kunnugt um að NATO hefur, sem hluta af hinni endurgerðu ímynd sinni, verið að færa út kvíarnar að þessu leyti. Ég er t.d. með blaðaúrklippu frá í sumar, þar sem hæstv. ráðherra útskýrði það í raun og veru nokkuð vel hvað þarna er á ferðinni, en hann sagði, með leyfi forseta:

,,Með því að taka þátt í Friðarsamstarfinu og halda æfingu hér á landi erum við orðin virkari þátttakendur og sýnum fram á að við getum átt aðild að þessu samstarfi án þess að hafa her,`` segir utanríkisráðherra. ,,Það hefur mikla þýðingu fyrir okkur, bæði inn á við og út á við. Það leiðir hugann frá því að samstarfið sé eingöngu hernaðarsamstarf. Við Íslendingar höfum alltaf verið í of miklum mæli uppteknir af því að samstarfið sé eitthvert hernaðarbrölt.``

Þetta er svona uppeldislegt atriði, kennslubókaræfing, eins og hæstv. ráðherra metur það, að ala okkur upp í því að þetta sé, þegar til kastanna kemur, alls ekkert hernaðarbrölt og við megum ekki vera of upptekin af því heldur sé þetta friðarstarf og almannavarnastarf og það sé allt misskilningur að þetta snúist um hernað.