Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 14:25:54 (5343)

1997-04-17 14:25:54# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[14:25]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér heyrist að ekki veiti af því að koma réttum upplýsingum um þetta mál til hv. þm. þótt ég hafi ekki ætlað mér að taka að mér að ala hann upp á einn eða annan hátt. En ég tel mikilvægt að málin séu dæmd á réttum forsendum. Hér er um að ræða stórmerkt samstarf, samstarf í þágu friðar. Ég hafði satt best að segja lesið það út úr samþykktum Alþb. að þeir eru mjög jákvæðir vegna þessa samstarfs. Ég las það einhvern tímann í ályktunum og á nýlegum fundi þeirra var það endurtekið að þetta samstarf væri mjög til góðs. Þess vegna hélt ég að um það gæti verið a.m.k. bærileg samstaða að við Íslendingar tækjum þátt í því samstarfi og reyndum að koma fram með það sem við gætum látið af mörkum. Þetta er í fyrsta skipti sem æfing sem þessi er undir borgaralegri stjórn, getum við sagt. Hún er undir stjórn Almannavarna ríkisins. En ég vil hins vegar minna á að það er lykilatriði í Atlantshafssamstarfinu að herir landa lúti borgaralegri stjórn, þeir lúti lýðræðislegri stjórn. Það getur enginn orðið aðili að Atlantshafsbandalaginu nema þannig kerfi sé fyrir hendi. Þannig að ég hélt í sjálfu sér að þetta væri atriði sem hv. þm. mundi fagna. Ég bið hann nú að útskýra fyrir mér af hverju þessi andstaða er svona rík hjá honum. Hvernig átti þá að skilja yfirlýsingar Alþb. um samstarf í þágu friðar? Það er a.m.k. allt annar skilningur sem ég fékk við það að lesa þær yfirlýsingar en hv. þm. hefur komið fram með í sínu máli.