Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 14:30:38 (5345)

1997-04-17 14:30:38# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[14:30]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð nokkurra annarra hv. þingmanna við þessa umræður og þakka hæstv. utanrrh. þá skýrslu sem hann hefur hér gert grein fyrir. Hún er að vísu ekki stór í sniðum en hún er yfirgripsmikil og það tvennt kann að valda því að sumir málaflokkar sem okkur einhverjum kann að virðast mikilvægir fá ekki allt það rúm sem einhverjir mundu vilja að þeir fengju.

Við þurfum að vera þess minnug Íslendingar þegar við ræðum þessi mál að við erum því marki brenndir að utanríkismál, samskipti og viðskipti okkar við önnur ríki eru mikilvægari í okkar innanríkismálum, fyrir okkar efnahagslíf og atvinnumöguleika en gerist með flestum öðrum þjóðum, ekki síst mörgum grannþjóðum okkar. Og þó að fáir séu í þingsal ræðum við gjarnan hvernig hagað er samskiptum okkar við önnur ríki og allmargir landsmenn hafa á því skoðanir og gera grein fyrir þeim við mörg tækifæri. Það hlýtur að hafa verið þeim mörgum nokkurt umhugsunarefni að breytingar á utanríkisþjónustu Íslendinga hafa verið frekar litlar undanfarin ár og mér finnst þess vegna athyglisvert og þakkarvert við ráðherra að hann fitjar upp á því í þessari skýrslu að endurmeta utanríkisþjónustu okkar og láta leggja í mótunarvinnu sem gæti dugað henni og okkur vel á næstu árum. Ég vil í því sambandi nefna að miðað við þau miklu samskipti sem við eigum við ríki Norður-Ameríku, Bandaríki og Kanada, virðist mér að staða okkar þar og styrkur í utanríkisþjónustunni sé fremur lítill miðað við Evrópu og mætti gjarnan reyna að bæta þar um betur, t.d. með tilliti til samskipta okkar og þeirra sem við köllum gjarnan Vestur-Íslendinga og þeirra væntinga að með því að við gerðumst aðilar að hinu Evrópska efnahagssvæði mættum við verða einhvers konar hlið Norður-Ameríkuríkjanna að mörkuðum Evrópu. Ég hygg að til þess að það komi fram þurfum við að leggja verulega rækt við viðskiptasambönd þar vestra og sambönd við þá einstaklinga sem kunna að hafa tækifæri til að vekja upp viðskipti.

Þetta á ekki einasta við um Norður-Ameríku heldur einnig hugsanlega Suður-Ameríku og Asíu. Í Asíu eigum við þegar allnokkur viðskipti en erum tiltölulega lítt mannaðir af diplómötum. Í Suður-Ameríku höfum við á stundum haft nokkur viðskipti, stundum meiri en um þessar mundir, og ég hygg að fulltrúar okkar þar séu afskaplega fáir. Í þessu samhengi vænti ég þess að utanrrh. geti veitt okkur upplýsingar um hugmyndir sem sendiherra okkar í Washington hefur sett á framfæri hér heima við utanrmn. og örugglega við ráðuneytið um að treysta samskipti okkar og Vestur-Íslendinga með ákveðnum hætti. Ég vil þess vegna spyrja hvort hann geti greint okkur eitthvað frá framgangi þeirra hugmynda Einars Benediktssonar.

Vegna þess sem ráðherra greinir frá um viðskiptaþjónustu sem verið er að efna til á vegum utanríkisþjónustunnar og eru vissulega væntingar um að verði öflugri, verði víðar en þjónustan er núna á vegum Útflutningsráðs, tek ég undir þær væntingar en ég leyfi mér að spyrja vegna þess sem hann segir m.a. um væntingar af útflutningi og möguleikum iðnaðar: ,,Einnig eru möguleikar iðnaðar og þjónustu miklir.`` Vegna þess sem kemur fram í nýútkominni skýrslu Þjóðhagsstofnunar um þjóðarbúskapinn á síðasta ári og horfur á þessu leyfi ég mér að spyrja hvort sérstök ástæða sé til að vænta mikils af þessum vörum sem samdráttur varð á í útflutningi á síðasta ári. Ef sérstök ástæða er til þess væri það virkilega jákvætt innlegg í umræður okkar um aukna verðmætasköpun, fjölgun og fjölbreytni í atvinnulífi og atvinnustarfsemi. Hitt er rétt sem ráðherrann víkur að í skýrslu sinni og hefur nefnt bæði í framsöguræðu sinni og víðar, að auk þess að við þurfum að efla sendiráð stöndum við frammi fyrir því að sífellt vex samstarf milli ríkja og alþjóðasamstarf sem kallar á fleiri fastafulltrúa eða fastanefndir við alþjóðastofnanir til að fylgja eftir þeim málum sem tekin eru fyrir á vegum samtaka ríkja sem eru aðilar að tilteknum alþjóðasamningum. Það er augljóst að við þurfum þar að reyna að bæta hlut Íslands og taka þátt í fleiri samtökum af því tagi en við gerum í dag.

Ég leyfi mér að nefna í því samhengi að oftar en einu sinni höfum við Íslendingar orðið þess varir að samtök ríkja álykta um hættur vegna nýtingar auðlinda á norðurslóðum og þar reynast vera á ferðinni alþjóðleg samtök ríkja og áhugasamtaka sem við erum ekki aðilar að og fylgjumst ekki með nema stundum eftir því hvernig horfir í pyngjunni. Það er að vísu nauðsynleg viðmiðun að hafa fjármagn til. En ég velti því oft fyrir mér hvers vegna við erum ekki aðilar að samtökum samkvæmt samningi sem við köllum gjarnan CITES, alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir viðskipti með afurðir af dýrastofnum sem kunna að vera í hættu. En það eru fleiri slík sem geta snert okkur með ákvörðunum sínum en við erum ekki aðilar að.

Þá vil ég leyfa mér að víkja að atriði sem kemur fram um samstarf okkar við grannþjóðir okkar á norðurhveli og ég hef áhuga á að vita aðeins meira um. Þar er fjallað um Norðurskautsráðið, Barentshafsráðið, eftir umfjöllun um Norðurlandasamstarfið. Þar segir að leita þurfi leiða til að fyrirbyggja hvers konar tvíverknað og í því sambandi hafi Ísland lagt fram hugmyndir um samhæfingu. Það er sjálfsagt jákvætt að reyna að koma í veg fyrir tvíverknað en ég velti líka fyrir mér hvort við höfum lagt þar fram hugmyndir til að reyna að tryggja árangur af samstarfinu, til að mynda á sviði mengunarvarna eða um aðgerðir til að forða umhverfisslysum. Mér virðist þetta veigamikið atriði vegna þess að þessar stofnanir fjalla um slík mál í þeim hlutum heimsins sem eru taldir vera í einna mestri hættu á þessu sviði. Hefur það raunar verið fyrr nefnt í umræðunni en þetta eru svæði nálægt okkur og ef eitthvað slíkt skeður er vel hugsanlegt að auðlindir okkar, undirstaða fyrir lífskjörum okkar á Íslandi, komist í verulega alvarlega hættu.

Það er sennilega ekki mikil ástæða til að fjalla náið, varla meira en gert er, um samstarf okkar við Evrópuríkin innan Evrópska efnahagssvæðisins og samskipti okkar við Evrópusambandið en augljóst er að þar þurfum við að fylgjast mjög grannt með framvindu mála og treysta gagnkvæm réttindi okkar og íbúa þeirra, treysta það samstarf sem orðið hefur og nær til velflestra þátta atvinnulífs, menntamöguleika og eru að ryðja sér til rúms á æ fleiri sviðum. Það hefur þróast núna síðustu missiri yfir á utanríkismál og verður að viðurkennast í því sambandi að við hljótum að hafa verulegar væntingar um samstarf og samstöðu við þessar þjóðir og þeirra ríki í baráttu við mengun og stjórnun nýtingar á auðlindum til að mynda hér á norðurhöfum þar sem ríki Evrópusambandsins eru verulega tilþrifamikil.

Öryggismál Evrópu hafa verið talsvert rædd hér. Ég leyfi mér að segja um þau að mér sýnist mjög einfalt að Atlantshafsbandalagið hafi aftur og aftur sýnt fram á að starf þess og starfsgrundvöllur hefur reynst vel. Þess ber að geta að þrátt fyrir að Evrópumenn og nágrannar þeirra ræði öryggismál á ýmsum vettvangi kemur nær alltaf fram í máli þeirra sem taka átt í umræðunni, hvaðan svo sem þeir koma, hvort sem þeir eru úr Evrópu sjálfri eða grannríkjum hennar, að þrátt fyrir að samtökum ríkja hafi fjölgað hefur hlutverk Atlantshafsbandalagsins hvergi verið bætt af þeim sem bæst hafa við. Það eitt hefur verið fært um að gegna því og reynst þess megnugt að bregðast við breyttum þörfum og breyttum aðstæðum. Engin önnur samtök og engin ný samtök hafa reynst þess megnug. Tilraunir Evrópuríkjanna t.d., án samstarfs við ríkin handan Atlantshafsins, til þess að bæta um betur hafa allar mistekist, því miður. Ég tel því einsýnt að það hafi verið happ okkar og annarra Evrópubúa að stofna til Atlantshafsbandalagsins og halda því við.

Eflaust geta menn haft mismunandi álit á því hvort við eigum að blanda saman almannavörnum og öðrum vörnum. En ég vek athygli á því að í grannríkjum okkar þar sem til eru landvarnir er ávallt kallað á einhverjar sveitir þeirra þegar bregðast þarf við hættuástandi sem steðjar að almenningi, þegar grípa þarf til almannavarna. Eini munurinn á okkur og þessum ríkjum er sá að við höfum ekki hervarnir. En hvers vegna ættum við að reyna að halda einhverju aðskildu sem ekki er til? Ég tel sem sé líkt og hæstv. utanrrh. að æfingin sem hér hefur verið greint frá og síðasti hv. ræðumaður nefndi sé af hinu góða, muni reynast okkur vel rétt eins og grannríkjum okkar og samstarfsríkjum.

Varðandi hugsanlega stækkun Atlantshafsbandalagsins verð ég að viðurkenna að mér þætti betra að sjá sterkar að orði kveðið um stöðu Eystrasaltsríkjanna og vil leyfa mér að inna ráðherrann eftir því hvort hægt er að greina frá nokkru sem gæti komið þeim vel. Ef svo fer sem mér virðist hann álíta líklegast, að þau þrjú verði ekki í hópi þeirra fyrstu sem fái boð um aðildarviðræður, vil ég gjarnan vita hvort verið er að ræða á milli utanrrh. og hans kollega einhver úrræði sem kynnu að verða þessum ríkjum og þeim sem þar búa skjöldur ef til óöryggis kann að leita.

Það er svolítið merkilegt að veita því athygli í þessu samhengi að við það ástand sem nú hefur skapast í þeim heimshluta hafa hvorki Finnar né Svíar lýst í alvöru áhuga á því að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu en hafa alla sína tíð treyst mjög á tilveru þess og hugsanleg viðbrögð af þess hálfu.

Vegna þess sem sagt er um þróunarmál hef ég ástæðu til að spyrja ráðherra hvort hann getur veitt okkur upplýsingar um niðurstöðu af þróunarstuðningi okkar við íbúa Palestínu þar sem afráðið var fyrir nokkrum missirum að styrkja ákveðnar framkvæmdir. Þær hafa dregist á langinn en kannski ástæða til að við fáum upplýsingar um þau verkefni ef unnt er.

Á sviði frjálsra viðskipta hefur margt gerst á undanförnum missirum. Ég ætla ekki að ræða þau ein og sér en við höfum ástæðu til að inna eftir því hvort Bandaríkjamenn hyggist gera breytingar á aðflutningsgjöldum af einhverjum vörum. Á Suðurnesjum er unnið að því að athuga hvort unnt er að stofna til magnesíumverksmiðju sem yrði veruleg búbót í okkar þjóðarbúskap, mundi færa fjölbreytni í stóriðju og mjög aukna möguleika á því að af íslenskri stóriðju sprytti einhver fullvinnsla, en hún er enn í dag fyrst og fremst framleiðsla á hráefni fyrir iðnað annarra landa. Þá kemur í ljós að verulegur munur er á aðflutningsgjöldum Bandaríkjanna á magnesíum og öðrum stóriðjuvörum, þ.e. áli. Það er líka munur eftir því frá hvaða landi vörurnar koma og reynist vera að þar megi hugsanlega bæta úr og ég inni eftir því hvort ráðherrann vill beita sér fyrir því í viðræðum við Bandaríkjamenn. Ég leyfi mér að segja sem er: Bandaríkjamenn hafa reynst einhver besta grannþjóð okkar og eitthvert besta samstarfsríki okkar í þessum málum eins og fleirum. Mér þykir mjög líklegt að þeir vilji gjarnan bæta möguleika okkar að þessu leyti, sérstaklega ef við gætum svarað í einhverju líku.

Lokakaflinn í skýrslu ráðherrans fjallar um hafréttar- og auðlindamál og þar er vissulega margt álitaefnið. Mér finnst mjög umhugsunarvert að við skulum eiga í deilum á þessum sviðum við marga granna okkar um nýtingu auðlinda sem eru bæði okkur og þeim miklu mikilvægari en skammtímaárekstrar en samt sem áður ekki náð betri tökum á ágreiningsefnunum en svo að þau eru viðvarandi ár eftir ár. Þar er meira að segja um að ræða þær þjóðir sem telja sig bestu granna okkar, t.d. Norðmenn. Mér finnst miklu skipta og vil því hvetja til að unnið verði að lausn þessara mála og engu tækifæri sleppt heldur verði þau öll notuð eftir því sem unnt er.