Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 14:46:01 (5346)

1997-04-17 14:46:01# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[14:46]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki svarað öllu því sem hv. þm. innti mig eftir í stuttu andsvari en ég vildi aðeins koma inn á Eystrasaltsríkin og stöðu þeirra. Það kemur mér satt best að segja mjög á óvart að hv. þingmenn vildu hafa séð miklu ákveðnari texta í sambandi við þátt þeirra í Atlantshafssamstarfinu. Það stendur hér að það sé yfirlýst stefna okkar að styðja aðild þeirra í fyrstu umferð. Ég hygg að það hafi engin þjóð, ekkert Norðurlandanna, tekið jafnafdráttarlausa afstöðu gagnvart Eystrasaltsríkjunum og Ísland. Við verðum að viðurkenna að Eystrasaltsríkin eru ekki jafnlangt komin að því er varðar þróun lýðræðis og efnahagsmál og nokkrar þjóðir í Mið-Evrópu. Hvað sem því líður, þá höfum við gerst eindregnir talsmenn þeirra sem vakið hefur ánægju meðal þeirra. Ég hef ekki heyrt neitt annað.

Það er rétt að ýmislegt bendir til þess að þeir muni ekki verða með í fyrstu umferð þó að ég vilji ekki útiloka það á þessu stigi, við verðum að sjá betur hverju fram vindur. En þá skiptir meginmáli fyrir þá að Atlantshafssamstarfsráðið verði stofnað sem við styðjum, að friðarsamstarfið haldi fram og aðild þeirra að Atlantshafsbandalaginu verði betur undirbúin. Það er aðalatriðið fyrir þá að þeir geti verið þess fullvissir að þetta haldi áfram og fyrstu ríkin verði ekki þau síðustu. Það er ekki stærsta málið fyrir þá að þeir komist inn nákvæmlega árið 1999 eða árið 2000 heldur að verið sé að vinna að því að þeir verði aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Og við munum svo sannarlega vinna að því áfram.