Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 14:51:34 (5349)

1997-04-17 14:51:34# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[14:51]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ræða hæstv. utanrrh. er stikluð um aðskilin málefni á sviði utanríkismála og það er að mörgu leyti erfitt að ræða svo yfirgripsmikið mál á stuttum tíma. Það verður til þess að við köllum eftir ítarlegri umfjöllun en vitum að í raun hefur ráðherra takmarkað svigrúm til að gera hverjum þætti sómasamleg skil í svo stuttri ræðu. Hins vegar er eðlilegt að við köllum eftir afdráttarlausri afstöðu stjórnvalda til þeirra málefna sem við tökum fyrir í okkar ræðum.

Félagar mínir í þingflokki jafnaðarmanna, Össur Skarphéðinsson og Jón Baldvin Hannibalsson hafa gert skýrslunni nokkur skil í ræðum sínum í dag en sjálf ætla ég að fjalla um afmarkað málefni, virðulegi forseti. Neðst á bls. 9 og efst á bls. 10 í skýrslunni er kafli um mannréttindamál. Þar er vísað til þess að lokið er þingi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf og þessum litla 9 línu kafla lýkur með þessari setningu, virðulegi forseti:

,,Enginn þarf að fara í grafgötur um stuðning íslenskra stjórnvalda við baráttu fyrir mannréttindum. Enginn þarf heldur að efast um einlægni okkar og jákvæðan tilgang með þátttöku á þessum vettvangi.``

Ég efast ekki um það en hins vegar ætla ég að nýta minn tíma til að ræða mannréttindamál og fyrst og fremst stöðu flóttamanna og baráttu Amnesty International. Það er núna stór flóttamannaherferð í gangi sem allar deildir Amnesty taka þátt í.

Sjálfri er mér efst í huga núna að þing mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf skuli hafa vísað tillögu Dana frá. Með slíkri afgreiðslu upplifum við sem það heyrum að alþjóðasamfélagið sé að fallast á mannréttindabrotin í Kína. Í augum heimsins þýðir þetta að þarna sé ástand væntanlega nægilega gott, ekkert til að skipta sér af. Ég er mjög stolt af því að Ísland studdi tillögu Dana og ég harma að henni hafi verið vísað frá. Ég fagna því að ráðherra okkar hafi valið þá leið að styðja þessa mannréttindatillögu.

Ástæður flótta fólks frá heimalandi sínu eru mannréttindabrot og því miður er þróunin þannig að það er orðin ákveðin tregða þjóða að taka við flóttafólki og ég legg áherslu á að ég er að ræða um flóttafólk, ekki innflytjendur. Sú spurning hlýtur því að vakna hvort þjóðir heims ætla að loka landamærum sínum og með því senda frá sér þau skilaboð að þau sættist á mannréttindabrot annarra og að fólk sem býr við slíka ógn skuli bara vera heima hjá sér og sættast við örlög sín. Það er mjög alvarlegt ástand víða. Það hefur verið nefnt hér. Ég nefni Kína, Tyrkland, Nígeríu, Kólumbíu og Alsír og kastljósinu var sannarlega beint að Austur-Tímor þegar friðarverðlaun Nóbels voru veitt þangað.

Ég tel að við Íslendingar eigum fyrst og fremst að vera sterk rödd á alþjóðavettvangi, vinna að því að minnka flóttamannavandamálið með því að stuðla að því að ríki heims séu knúin til að virða mannréttindi og þau skynji að alþjóðasamfélagið fylgist með gjörðum þeirra. Við erum e.t.v. lítil rödd, en hún er og hún á að vera skýr í mannréttindamálum. Það þarf sameiginlegt átak þjóða heims til að fyrirbyggja gífurlegan fjölda flóttamanna í heiminum. Við erum sterk af því að hér er ekki beitt pyndingum og hér er ekki dauðarefsing. Við búum við dómskerfi sem við getum treyst og sem betur fer búum við almennt við opið kerfi og opið þjóðfélag en þannig er það ekki hjá öllum eins og við vitum.

Ég nefndi þessi mál, virðulegi forseti, í ræðu minni í fyrra og mig langar að rifja þar upp nokkur orð. Þar vildi ég leggja áherslu á dauðarefsinguna og hversu mikilvægt er að berjast fyrir afnámi dauðarefsingar og að Íslendingar geti beitt sér á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og í viðræðum fulltrúa allra ríkja sem enn beita dauðarefsingu vegna þess að Ísland er eitt fárra ríkja sem hefur ákvæði í stjórnarskrá um algert bann við dauðarefsingu. Íslendingar eiga að vísa til þess ákvæðis í umræðum á alþjóðavettvangi.

Tölur um dauðarefsingar eru hrikalegar. Þetta er mál sem við fjöllum mjög sjaldan um. Við höfum verið að fjalla um Kína út af ráðstefnunni í Genf, en það má nefna að 1980 voru aðeins 20 brot í Kína sem vörðuðu dauðarefsingu. Nú varða 68 brot dauðarefsingu og síðustu ár hafa verið um það bil 3.000 aftökur í Kína á einu ári. Þetta er mjög alvarlegt og það er því mikilvægt að við tökum þátt í störfum mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og hvar sem við getum og leggjum áherslu á þessi mál.

Það vill svo til, virðulegi forseti, að lögum okkar í þessu ágæta landi er mjög ábótavant hvað varðar flóttafólk. Við verðum að tryggja réttláta meðferð ef flóttamenn ber að garði hjá okkur, að þeir séu ekki sendir heim eða í burtu á röngum forsendum. Það á að vera tryggt að viðkomandi fái að kynna mál sitt og að ekki verði slys í meðferð mála í lýðræðisþjóðfélagi okkar. Það er mjög mikilvægt að fólk sem er í hættu í heimalandi sínu og leitar til okkar fái hæli er það leitar hingað til okkar og að lög okkar tryggi mjög réttláta málsmeðferð. Á borðum þingmanna liggja tvær fyrirspurnir sem ég hefur borið fram, önnur til félmrh. og hin til dómsmrh. Sú fyrri er um flóttamannaráðið sem sett var á laggirnar árið 1995 en hlutverk þess var m.a. að leggja til við ríkisstjórn heildarstefnu og skipulag málefna er varðar móttöku á flóttamönnum. Þar er spurt hvort flóttamannaráðinu hafi verið falin endurskoðun á lögum nr. 45/1965, sem eru einu lögin sem við höfum um þessi mál, hvenær því starfi ljúki og hvort endurskoðun á lögum sé hluti af mótun heildarstefnu í málefnum flóttamanna.

Fyrirspurnin til dómsmrh. er um formlega endurskoðun á lögunum um eftirlit með útlendingum og spurt um hvort þar taki endurskoðunin mið af því að tryggja réttarvernd þeirra sem leita hér hælis eins og hugtakið er skilgreint samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna frá 1951 sem Íslendingar hafa fullgilt. Spurt er hvort þeir sem leita hér hælis sem flóttamenn fái ráðgjöf, túlk og réttaraðstoð, hvort bann við brottvísun og endursendingu flóttamanna verði tryggt eins og það er í flóttamannasamningnum og hvort það sé tryggt að synjun á beiðni um hæli verði skrifleg og rökstudd og áfrýjun hennar fresti ákvörðun um synjun landgöngu, brottvísun eða endursendingu.

Að lokum er spurt hversu margir útlendingar komu að landamærum Íslands og báðu um hæli sem flóttamenn á árunum 1990--1996 og hve mörgum var synjað um hæli, þeim vísað brott eða þeir sendir til þess lands sem þeir komu frá og hvort þær ákvarðanir hafi verið teknar skriflega eða munnlega. Mér finnst það mjög miður, virðulegi forseti, að ég skuli ekki hafa haft tök á að leggja þessar fyrirspurnir fram svo tímanlega að svör við þeim hafi legið hér fyrir þegar við tökum þessa umræðu um utanríkismál vegna þess að sú umræða er eiginlega eini vettvangurinn þar sem við ræðum um málefni annarra en okkar sjálfra og mjög mikilvægt að við tökum fyrir þennan þátt, mannréttindamálin, og þá stöðu flóttafólks eins og ég er að gera nú. Ég spyr ráðherra hvað hann geti sagt mér um þessi málefni og þá fyrst og fremst hvort hann muni beita sér fyrir því að þessi mál fái endurskoðun hið fyrsta og að þau atriði séu tryggð sem ég hef nefnt.

[15:00]

Árið 1993 sendi Amnesty bréf til Alþingis í tilefni af lagabreytingum sem unnið var að þá vegna aðildar okkar að samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Þar var þeim tilmælum beint til nefndarinnar að ný lög yrðu í samræmi við alþjóðlegar viðurkenndar meginreglur um meðferð pólitískra fanga. Þá var gerður samanburður á þeim meginreglum um réttindi flóttamanna sem Amnesty leggur áherslu á og íslenskum lögum um eftirlit með útlendingum. Þar kom fram að lögin um eftirlit með útlendingum tryggja aðeins á takmarkaðan hátt rétt þeirra sem sækja um hæli sem pólitískir flóttamenn hér á landi miðað við reglurnar sem um er getið.

Virðulegi forseti. Ég hef í fórum mínum þessar reglur. Þær eru níu og of ítarlegar til að ég geti farið yfir þær hér. En það sem er merkilegt er að á þessum tíma, árið 1993, var unnið mjög gott yfirlit yfir í hvaða efni lögum er áfátt hjá okkur miðað við grundvallarreglurnar nýju sem lagðar eru fram. Ég hvet til þess að ráðherra kynni sér þennan samanburð og hafi áhrif inn í ríkisstjórn þannig að úr þessu sé bætt.

Nú hefur okkur alþingismönnum borist nýtt bréf frá Amnesty. Það er ekki vanþörf á því þar sem ekki hefur verið bætt úr vanköntunum á okkar löggjöf þrátt fyrir bréfið frá 1993 og hið ágæta yfirlit eða samanburð sem ég hef þegar bent á og þrátt fyrir að oft hafi verið tekið á þessum málum hér í ræðustól, reyndar helst í umræðum um utanríkismál eins og fram fer í dag.

Í bréfinu frá Amnesty sem þingmönnum barst í vikunni segir m.a.:

,,Árið 1951 gerðu Sameinuðu þjóðirnar samning um réttarstöðu flóttamanna, flóttamannasamninginn, og er hann mikilvægasta réttarvernd til handa flóttamönnum á alþjóðavettvangi. Í samningnum er að finna grundvallarreglu sem bannar endursendingu flóttafólks. Ekkert aðildarríki skal vísa flóttamanni brott eða endursenda hann á nokkurn hátt til landamæra ríkis þar sem lífi hans eða frelsi mundi vera ógnað vegna kynþáttar hans, trúarbragða, þjóðernis, aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum eða stjórnmálaskoðana.``

Ísland hefur fullgilt flóttamannasamninginn frá 1951 en ekki lögleitt hann. Þau lög sem eru helsta réttarheimildin eru lögin sem ég hef bent á áður, nr. 45/1965. Og áfram segir í bréfi Amnesty:

,,Ákvæði laganna um réttarstöðu þeirra sem beiðast hælis á grundvelli stöðu sinnar sem flóttamaður eru mjög ófullkomin. Það er óumdeilt að til að Íslendingar uppfylli þær þjóðréttarlegu skuldbindingar sem fylgja aðild flóttamannasamningsins og gerist ekki sekir um vanrækslu gagnvart öðrum aðildarríkjum samningsins verður að laga löggjöf hérlendis að ákvæðum samningsins.

Íslandsdeild Amnesty International hefur undanfarin ár ítrekað bent á þá misbresti sem eru í íslenskri löggjöf hvað varðar réttarstöðu flóttamanna. Það er ljóst að Íslendingar geta ekki hlaupist undan merkjum við lausn flóttamannavandamálsins en það verður ekki leyst nema með alþjóðlegri samvinnu. Sé réttur flóttamanns í landsrétti ekki sambærilegur rétti hans samkvæmt þjóðarétti getur það valdið neikvæðu viðhorfi almennings gagnvart flóttamönnum en það stendur réttindum þeirra því miður oft og tíðum helst fyrir þrifum.`` --- Ég tek undir þessi orð í bréfi Amnesty.

Amnesty hvetur jafnframt til að stuðlað verði með virkum hætti að endurskoðun ákvæða íslenskra laga er varða réttarstöðu flóttamanna þar sem flóttamannasamningurinn frá 1951 yrði hafður til hliðsjónar og tillögur Amnesty International sem byggja á alþjóðlegum samningum. Ég hef þegar borið fram spurningu til ráðherra um afstöðu hans til þessa. Það segir líka í bréfi Amensty, virðulegi forseti, og það er ekki þýðingarminnst:

,,Í heiminum í dag eru meira en 15 milljónir karla, kvenna og barna flóttamenn. Þar að auki 20 milljónir á flótta í eigin landi.`` --- Hér féllu orð í ræðum áðan að nú væri svo miklu friðsamlegra í heiminum enda var þá verið að ræða um hernaðarbandalög en þarna erum við með það svart á hvítu að 15 milljónir karla, kvenna og barna eru flóttamenn og 20 milljónir að auki á flótta í eigin landi. Samtökin hafa miklar áhyggjur af afskipta- og virðingarleysi ríkisstjórna gagnvart réttindum flóttafólks. Ríkisstjórnir reyna í síauknum mæli að hindra að fólk sem flýr ofsóknir fái tækifæri til að nýta rétt sinn, til að sækja um hæli og þá vernd sem því ber.``

Ég hvet til þess, virðulegi forseti, og vona að utanrrh. sé mér sammála að við setjum þannig lög að það sé alveg ljóst að við munum ekki líða að það fólk sem býr við slíkar ofsóknir og sækir hingað í norður til okkar sé rekið frá dyrum öðruvísi en mál þess séu gaumgæfilega skoðuð og það sé ljóst að því sé tryggð réttarstaða og öll sú vernd sem unnt er.

Virðulegi forseti. Að lokum langar mig líka að minna á annað mál sem mannréttindasamtökin Amnesty hafa mjög knúið á um og það er stofnun alþjóðlegs stríðsglæpadómstóls þannig að hægt sé að binda endi á refsileysi þeirra sem brjóta alþjóðalög. Ég veit að ráðherrann hefur viðhaft slíkan málflutning á erlendum vettvangi að hann styður að slíkur dómstóll verði settur. Það er markmið að slíkur dómstóll verði orðinn að veruleika árið 2000 og ég spyr ráðherrann hvort hann viti hvað því máli líður.