Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 15:11:22 (5352)

1997-04-17 15:11:22# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GE
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[15:11]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég þakka yfirgripsmikla skýrslu hæstv. utanrrh. Ég vil einnig taka undir þau málefni sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir gerði að umræðuefni.

Við þessa umræðu hef ég ástæðu til að segja nokkur orð að gefnu tilefni. Á hverju ári ræðum við skýrslu hæstv. utanrrh. Hún inniheldur venjulega þá hluti sem hæst ber í þessum málum, svo sem samskipti okkar við frændur okkar Norðmenn, okkar vandamál eða árangur á erlendum vettvangi og hversu okkur hefur orðið ágengt í ýmsum málum. Í umræðunni, herra forseti, er ekki mikið rætt um þá sem vinna að einstökum málum en þeim er í heild þökkuð störf og þar með er sagan öll. Í flestum tilvikum er ekki getið um mikilvægi einstakra aðila sem t.d. vinna nefndastörf erlendis á vegum Alþingis svo eitthvað sé nefnt. Það á kannski heldur ekki við í þessari skýrslu hæstv. ráðherra.

En ástæðan fyrir mínum þætti í þessari umræðu er að varpa ljósi á það sem mér hefur fundist vanta og vil ég þá t.d. að nefna hlut tveggja formanna nefnda sem ég hef átt kost á að starfa með á erlendum vettvangi. Ég efast heldur ekkert um að aðrir þingmenn sem hafa starfað á alþjóðavettvangi hafi náð þar miklum árangri en ég þekki ekki þeirra störf. Þess vegna tek ég sérstaklega tvo aðila til umræðu.

Ég nefni hv. þm. Vilhjálm Egilsson sem af mikilli festu hefur leitt starf EFTA-nefndar og samskiptanefndar fyrir hönd Íslands um EES-málin vegna þess að ég þekki að þar hefur náðst ótrúlegur árangur. Ég hef hvað eftir annað orðið vitni að því að sjónarmið Íslendinga hafa náð í gegn þrátt fyrir þá undarlegu stöðu sem við erum í að við erum í raun hálfgerðir utanveltugemsar í samstarfi Evrópuþjóða vegna skoðana meiri hluta stjórnmálamanna á Íslandi. Herra forseti. Ég vil undirstrika að það er vegna skoðana meiri hluta stjórnmálamanna á Íslandi því að það hefur komið fram í skoðanakönnunum að meiri hluti þjóðarinnar vill láta reyna á aðild eða láta reyna á hver væru áhrif aðildar að Evrópubandalaginu.

Það hafa verið leidd fjölmörg mál vegna áhrifa hv. þm. sem ég nefndi hér áðan til að fá samskiptaaðila á Íslandshlið mála eins og ég vil kalla það. Það hefur líka verið gert á þann veg að allir stjórnmálaflokkar á Íslandi mega vel við una. Þennan þátt vil ég aðeins nefna vegna þess að mér finnst að ekki sé gefinn gaumur að kynningu og mikilvægi erlendra samskipta þingmanna fyrir Íslendinga. Það er viðtekin venja úti í þjóðfélaginu að mörgum finnst engu máli skipta það sem verið er að vinna á erlendum vettvangi og þar er alvarlegur misskilningur á ferðinni.

Herra forseti. Ég hef átt þess kost að fara tvisvar fyrir hönd míns flokks og Íslands á fund Alþjóðaþingmannasambandsins. Ég hygg að ýmsir velti því fyrir sér hvað það geti nú verið, hvað þetta Alþjóðaþingmannasamband er. Á ensku er það skammstafað IPU sem stendur fyrir Inter-Parliamentary Union. Ég hygg að fáir viti að þetta samband er næsta valdastig við Sameinuðu þjóðirnar og að í því eru 136 þjóðlönd og á þingum sitja 1.300--1.400 fulltrúar sem afgreiða þingmál og ályktanir sem lúta að jafnrétti, sjálfstæði þjóða og mannréttindum svo eitthvað sé nefnt og þessi málefni fá venjulega endanlega afgreiðslu á þingi Sameinuðu þjóðanna.

[15:15]

Ég vil nefna það, herra forseti, sem ég held að fæstum sé ljóst að við Íslendingar eigum nú þingmann í einni áhrifamestu stöðu innan þessara samtaka. Við eigum þar fulltrúa og ég tel ástæðu að kynna hvaða árangri hann hefur náð og það á að gera það betur en ég mun gera í minni stuttu ræðu. Ég er að ræða um hv. þm. Geir H. Haarde sem hefur komið sjónarmiðum Íslands eftirminnilega til viðurkenningar með málefnalegri og skilmerkilegri umræðu á þessum vettvangi. Á síðustu dögum átti ég þess kost að fylgja honum í starfi ásamt með hv. þm. Magnúsi Stefánssyni, á ráðstefnu í Seoul og að ógleymdum ritara nefndarinnar, Elínu Flygenring. Aðeins til þess að varpa ljósi á mikilvægi þess sem þar gerðist, segi ég frá því að arabaþjóðunum hafði nærri tekist að þvinga fram brot á lögum og reglum með því að ná fram aðild Palestínuaraba að Alþjóðaþingmannasambandinu. Ef það hefði tekist, þá fullyrði ég að það hefði orðið alvarlegt fótakefli í samskiptum þjóða og sennilega leitt til hræðilegra stríðsátaka og hræðilegri stríðsátaka en eiga sér stað núna fyrir botni Miðjarðarhafs sem eru auðvitað bara skæruliðastarf.

Ég vil upplýsa það hér að með forustu samtaka Evrópuþjóða tókst að leiða mál til lykta á lýðræðislegan máta þannig að líklega er unnt að vonast til fyrstu skrefa til bættra samskipta Ísraela og Palestínuaraba á næstunni. Þetta er mikilvægara í samskiptum þjóða en menn gera sér almennt ljóst.

Ég get nefnt fleiri dæmi. Ég get nefnt átökin sem eiga sér stað á gríska og tyrkneska hluta Kýpur sem voru þarna til umræðu. Þeirri umræðu lauk með ásættanlegri niðurstöðu, á þessu þingi sem ég var að ræða hér um, undir stjórn varaforseta þingsins, hv. þm. Geirs H. Haardes, sem stjórnaði þar með sóma okkur og Íslandi til heiðurs þannig að frændur og vinir á Vesturlöndum lýstu mjög mikilli ánægju með störf hans. Ég vona að fljótlega komi greinargerð um þetta þing sem ég er að ræða um, á næstu dögum. Vandamálið er þó hvort sú greinargerð fær nokkra umfjöllun þings eða fjölmiðla.

Virðulegur forseti. Ræða snýst ekki endilega um að vera með skjall heldur túlka ég mín orð sem jákvætt viðhorf fyrir góðan árangur fulltrúa Íslands í starfi á erlendum vettvangi sem ég get vitnað um og tel mig geta vitnað um.

Ég get ekki látið hjá líða að ræða um störf þingmanna á erlendum vettvangi því að viðhorf almennings og jafnvel fjölmiðla lýtur að því að erlend samskipti þingsins séu nánast óþörf og um sé að ræða --- ja, hvað? Ferðaklúbba þingmanna. Ég sé því ástæðu til að beina því til hæstv. forseta þingsins hvort ekki sé nauðsyn að kynna fyrir fjölmiðlum, fyrir þjóðinni, í hverju samskipti þingsins eru fólgin og jafnvel fyrir þingmönnum sjálfum sem fjölmargir hafa ekki lagt sig eftir því og má kannski taka undirritaðan með í þann flokk því ég hef ekki kynnt mér nægjanlega hvað aðrar sendinefndir eru að gera. En ég efast ekki um þeirra störf og árangur. (KPál: Það þarf myndakvöld.) Það má vel vera að það þurfi myndakvöld, hv. þm. Kristján Pálsson. Ég er ekki að biðja um það.

Herra forseti. Í tilraun minni til að koma á framfæri við einn öflugasta fjölmiðil þessa lands því stórmáli sem ég var að nefna um þessi Palestínu- eða arabamálefni, þá kom í ljós þegar ég hafði samband við fréttaritara þessa fjölmiðils, að hann vissi ekki hvað um væri að ræða. Hann hafði ekki hugmynd um að Ísland ætti aðild að einhverjum samtökum sem gætu verið þar áhrifarík, hvað þá heldur að það væri einhver einstakur þingmaður sem hefði þau ítök að hann gæti hlutast til um mál eins og þarna gerðist. Af þeirri ástæðu spyr ég forseta: Hvernig kynnum við okkar erlendu samskipti fyrir fjölmiðlum og fyrir Alþingi? Í öðru lagi: Er ekki ástæða til aðgerða í þessum efnum? Og ég beini því til forsætisnefndar hv. Alþingis að taka þetta mál upp og kanna það hvernig við stöndum að þessu máli og hvernig okkur ber að standa að því.

Að lokum vil ég taka undir ræðu hv. þm. Geirs H. Haardes um ástæður til sóknar Íslendinga á Asíumarkað. Það er rétt að nefna það hér að í Suður-Kóreu hafa t.d. Danir sett á stofn yfir 20 fyrirtæki á ýmsum sviðum og eru í stórsókn á Asíumarkaði. Sama máli gegnir um aðrar Evrópuþjóðir. Þær eru að nýta sér þá möguleika sem eru á þessum mörkuðum. Við verðum að styrkja okkar stöðu sem við getum þar.

Aðeins til þess að tala um fréttaumfjöllun, þá hef ég ekki séð eina einustu frétt eða heyrt í fjölmiðlum á Íslandi um þetta þing eða það sem þar var að gerast. Það er kannski vegna þess að þeir fara t.d. ekki inn á internetið og ná sér í þær fréttir sem hægt er að ná í þar. Ég tók aðeins dæmi um umfjöllun blaða, t.d. í Kóreu, um þetta þing sem skiptir þá miklu máli þó að það virðist ekki skipta miklu máli hér. Þetta finnst kannski einhverjum ekki eiga heima í þessari umræðu en það er ekki rétt. Þetta á akkúrat heima í þessari umræðu um þessi samskipti vegna þess að í skýrslu hæstv. utanrrh. er fjallað um málefni Sameinuðu þjóðanna. Það er rætt um m.a. um málefni sem þar eru efst á baugi, vaxandi fátækt, hungur, rányrkju, mengun, fíkniefnavanda og glæpastarfsemi. Öll þessi málefni eru rædd á þingum Alþjóðaþingmannasambandsins. Þar er skilað ályktunum og niðurstöðum sem þessir 1.400 aðilar standa að, í flestum tilvikum allir, þannig að það er ekkert smámál sem þar er á ferðinni að mínu mati.

Herra forseti. Ég læt þetta nægja. Mér finnst að það standi upp á þingið að gera betur grein fyrir þessum þætti starfanna. Ég veit ekki hvort það er rétt að fella það inn í þessa umræðu um skýrslu utanrrh. en ég leyfi mér að gera það og tel að það sé rík ástæða til og mörg tilefni sem hægt væri að færa til grundvallar úr þessari skýrslu.