Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 15:27:36 (5355)

1997-04-17 15:27:36# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[15:27]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir þessa skýrslu. Þar er víða komið við en ekki er hægt að segja að margt komi á óvart, enda er hér meira um yfirlit yfir fortíðina að ræða fremur en ráðherrann setji hér fram sína framtíðarsýn á mörgum sviðum eins og fleiri hafa bent á í þessari umræðu.

Ég vil taka undir það sem aðrir hafa bent á hér og láta í ljós undrun mína yfir því hve fáir þingmenn og ráðherrar eru viðstaddir þessa umræðu. Ég held að þetta sýni kannski að við höldum oft að við séum meira alþjóðlega hugsandi en við erum og alveg eins og við teljum að það sé mikið af erlendum fréttum hér í sjónvarpi miðað við nágrannalöndin. En nýjar rannsóknir Sigrúnar Stefánsdóttur og fleiri benda til að við erum heimóttarlegri en t.d. hin Norðurlöndin. Það er mun hærra hlutfalli hér varið til innlendra frétta en erlendra og minna til erlendra en á öðrum Norðurlöndum.

Við lestur þessarar skýrslu vakna fleiri spurningar en þau svör sem þar koma fram. Það er ekki ætlun mín að flytja almenna ræðu um þessa skýrslu. Ég vil í því sambandi vísa meira til ræðu hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur hér áðan.

Ég vil hins vegar gera nokkur atriði að umtalsefni og spyrja hæstv. ráðherra um. Ég vil fyrst beina athyglinni að umfjöllun ráðherrans um Evrópusambandið og því sem kemur fram í skýrslunni að framtíðarsamskipti okkar við ESB munu fyrst og fremst ráðast af tengingu VES við ESB annars vegar og hvernig Schengen-samstarfið fellur að Evrópusamstarfinu hins vegar.

Varðandi Schengen þá skil ég stefnu ráðherrans þannig að hann telji mögulegt og æskilegt að við tökum þátt í því samstarfi þrátt fyrir að niðurstaðan verði að ESB verði mun nátengdara Schengen en kannski útlit var fyrir í upphafi. Ég vil spyrja ráðherrann hvort sá skilningur sé ekki réttur.

Þá vil ég spyrja um hitt atriðið sem mér finnst nokkuð óljósara: Hvers vegna eru Íslendingar mjög mótfallnir því að VES verði breytt í varnararm ESB? Er það vegna áhrifanna á valdajafnvægið gagnvart NATO eða er það vegna þess að ekki yrði nægilegt fyrir Ísland að vera í NATO eingöngu vegna sinna varnar- og öryggishagsmuna, að mati hæstv. ráðherra? Ég óska eftir að ráðherrann útskýri afstöðu sína nánar til tengsla VES og ESB og áhrif þess á stöðu Íslands.

Þar sem ekki er sagt neitt nánar um breytingu á stefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart ESB, þá geri ég ráð fyrir að stefnan sé óbreytt. Varðandi myntbandalagið er ljóst að það er eiginlega ekki neitt rætt í skýrslunni nema talað er um gagnasöfnun. Ég geri ráð fyrir að ástæðan sé sú að ekki sé ætlunin að breyta stefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart ESB. Þess vegna spyr ég ráðherrann hvort hann telji að myntbandalagið muni aldrei verða Íslendingum það mikilvægt að ástæða verði til að breyta hugmyndum okkar um aðild að ESB út af því eða hvort hann telji að EES-samningurinn muni hugsanlega ná yfir einhvers konar aðild að myntbandalaginu. Eins og ég skil málið þá munu eingöngu ESB-ríki fá aðild að myntbandalaginu ef til þess kemur en ég hef ekki séð það útfært hvaða hugmyndir eru á kreiki um það hvernig EES-ríkin tengjast því máli.

Næst vil ég spyrja varðandi Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu ÖSE. Það er gefið til kynna í ræðu hæstv. utanrrh. að æskilegt væri að koma aftur á starfandi fastanefnd hjá ÖSE og því vil ég spyrja nánar hvort slíkt standi til og þá hvenær, hvort meira sé ákveðið en fram kemur í ræðunni.

Næst vil ég koma að einu stærsta öryggismáli Íslands að mati okkar kvennalistakvenna sem er sú ógn sem stafar af kjarnorku og kjarnorkuúrgangi í hafinu í kringum landið. Ég vil í því tilefni, herra forseti, vitna örlítið í stefnuskrá Kvennalistans. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Það sem öðru fremur ógnar nú jarðarbúum eru hættur sem steðja að umhverfi okkar, svo sem útbreiðsla kjarnavopna, ótrygg kjarnorkuver, geislavirkur úrgangur, gróðurhúsaáhrif, eyðing regnskóga, auðlindaþurrð og mengun. Í því efni á íslenska þjóðin mikilla hagsmuna að gæta því að framtíð byggðar í landinu stendur og fellur með lífríki hafsins. Kjarnorkuslys við strendur Íslands eða í Norðurhöfum hefðu ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir lífsafkomu þjóðarinnar. Því er það hlutverk okkar að vinna að friðlýsingu hafsins, jafnt sem lands og lofts.``

Í skýrslu ráðherrans er á nokkuð mörgum stöðum komið inn á atriði sem tengjast þessu máli beint og óbeint. Á bls. 6 er því haldið fram að innan NATO sé sú þróun að draga úr kjarnorkuviðbúnaði bandalagsins. Á bls. 8 er rætt um áheyrnaraðild Íslands að afvopnunarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem m.a. vinnur að kjarnorkuafvopnun í víðu samhengi. Á bls. 11 er á það bent að árið 1998 hafi Sameinuðu þjóðirnar tileinkað málefnum hafsins og talað er um að við Íslendingar höfum þar miklu að miðla.

Herra forseti. Af þessu tilefni vil ég spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann sjái ekki vandkvæði á því að þurfa sífellt að lúta stefnu NATO á þessu sviði sem augljóslega fer oft ekki saman við ofannefnd markmið. Margir þingmenn hafa setið á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal sú sem hér talar, og það er alveg ljóst að undanfarin ár hafa komið fram tillögur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, m.a. ein á meðan ég var þarna sl. vetur, þar sem rætt er um að lýsa ákveðin hafsvæði kjarnorkulaus. Í mínum huga er það engin spurning að það eru hagsmunir Íslands að styðja slíkar tillögur. En vegna aðildar okkar að NATO var það ekki mögulegt vegna þess að NATO gefur ekki upp hvort skip þeirra eru með kjarnorkuvopn eða ekki.

Fleiri mál af slíkum toga komu upp á meðan ég var hjá Sameinuðu þjóðunum og það sýnir okkur mjög vel hver smæð okkar Íslendinga er í raun og veru gagnvart NATO og hvað við höfum lítið að segja þegar hagsmunir okkar og þeirra fara ekki alveg saman. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji líklegt að það verði einhvern tíma þóknanlegt NATO-ríkjunum eða bandalaginu að lýsa t.d. Norður-Atlantshafið kjarnorkuvopnalaust svæði eins og við kvennalistakonur leggjum áherslu á í okkar stefnuskrá. Er það mat hæstv. utanrrh. að þessum hagsmunum sé fórnandi fyrir aðild okkar að NATO?

Næst vil ég, hæstv. forseti, spyrja hæstv. utanrrh. út í æfinguna Samvörð 97 sem vikið er að í skýrslunni og mér skilst að verði að mestum hluta greidd af NATO, en ætlunin er samkvæmt því sem kemur fram í skýrslunni að framkvæmdin verði fyrst og fremst í höndum Almannavarna ríkisins. Að gefnu tilefni vil ég spyrja, þar sem boðkerfi hernaðarbandalags og boðkerfi Almannavarna ríkisins eða almannavarnakerfa almennt eru mjög mismunandi, hvort engin hætta sé á árekstrum þarna, hvort ætlunin sé að Almannavarnir ríkisins stýri þessari æfingu, hvort reyna eigi á mismuninn á þessum boðkerfum, hvort æfingin gangi að hluta til út á það eða hvort ætlunin sé að aðeins hluti framkvæmdarinnar verði í höndum Almannavarna og henni verði að hluta til stjórnað af hernaðarbandalaginu.

Ég vil fagna því að Ísland virðist vera að efla þátttöku sína á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, t.d. með aðild að Efnahags- og félagsmálaráðinu, ECOSOC, og að nefnd Sameinuðu þjóðanna um friðargæslu. Af því tilefni vil ég láta í ljós það álit að ég tel að sendinefnd Sameinuðu þjóðanna í New York sé undirmönnuð og vil spyrja hvort ætlunin sé að þessi viðbótarverkefni verði lögð að auki á það starfsfólk sem er fyrir eða hvort ætlunin sé að fjölga fastafulltrúum.

Herra forseti. Af mörgu er að taka þegar utanríkismál eru annars vegar en tímans vegna ætla ég ekki að fara inn á mjög mörg atriði í viðbót. Ég ætla þó að ítreka þau sjónarmið sem fram komu í ræðu hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur um mikilvægi þess að leggja áherslu á mannréttindamál og umhverfismál í okkar utanríkisstefnu. Þó að ég fagni þeirri auknu áherslu sem utanrrh. leggur á viðskiptamál, tel ég mjög vafasamt að sú áhersla nái um of til okkar þróunaraðstoðar. Þó að slíkt geti heppnast vel, samanber þátttöku stoðtækjafyrirtækisins Össurar hf. í aðstoðarverkefni vegna styrjaldarinnar í Bosníu, þá tel ég mjög varhugavert að tengja viðskipta- og þróunaraðstoð um of. Ég fagna því að til stendur að Ísland taki þátt í þróunarverkefni á sviði ungbarna- og mæðraverndar eins og nefnt er á bls. 11 í skýrslunni og vil því spyrja ráðherra hvort hann geti gert nánar grein fyrir við hvað er átt þar og hvernig Íslendingar koma að því verkefni. Er það í Bosníu?

Alþjóðabankinn hefur bent á að vænlegasta leiðin í þróunaraðstoð og vænlegasta leiðin til þess að ná árangri sé sú að styðja við konur, menntun þeirra og hæfni til að reka fyrirtæki, m.a. með því að veita þeim lán. Því fagna ég framlagi Íslands í þróunarsjóð Sameinuðu þjóðanna um konur og styrki til UNIFEM á Íslandi. Við Íslendingar verðum að standa vörð um jafnréttis- og mannréttindamál, bæði hér og á alþjóðavettvangi, ekki síst stöðu flóttamanna sem margir hverjir eru konur og börn og stöðu samviskufanga, samanber starf Amnesty International og þær góðu ábendingar sem þau samtök hafa komið fram með um æskilegar lagabreytingar sem ég vona að stjórnvöld taki til greina.

Að lokum vil ég láta í ljós óánægju mína með framlög íslenskra stjórnvalda til þróunarmála, hversu lág þau eru og spyr að lokum hvort til standi að hækka þau framlög það sem eftir lifir kjörtímabilsins. Eigum við varanlega að vera eftirbátar annarra á því sviði þrátt fyrir uppgang í íslensku efnahagslífi?