Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 15:46:22 (5358)

1997-04-17 15:46:22# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[15:46]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Við getum haft áhrif og höfum haft mikil áhrif. Við erum eitt af þeim ríkjum sem stofnuðu Atlantshafsbandalagið og við sitjum þar á jafnréttisgrundvelli og við ræðum þessi mál á jafnréttisgrundvelli þar.

Aðalváin á Norður-Atlantshafi nú, og það er alveg rétt hjá hv. þm., er ástandið á Kólaskaga og ástandið í Rússlandi. Aðalváin er ekki hvort einhvern tíma hefur verið flogið með kjarnorkuvopn yfir Ísland, fyrir 20, 30, 40 árum, sem ég tel að hafi ekki verið. Það skiptir í reynd ekki máli hvort það hafi einhvern tíma gerst, þó að það hafi verið alvarlegt, ég tek undir það. Það er þessi kjarnorkuvá í Norðvestur-Rússlandi sem er gífurleg.

Við getum tekið á henni með öðrum NATO-ríkjum. Við getum m.a. tekið á henni í samvinnu við Rússland í þeim samningum sem nú standa fyrir dyrum milli Atlantshafsbandalagsins og Rússlands og í friðsamlegri samvinnu við Rússa getum við tekið á þessum málum. Við munum ekki taka á þessum málum ef við ætlum okkur að vera í einhverjum endalausum átökum við Rússa. Við verðum að ná þeirra samvinnu og þeirra trausti og taka á þessari miklu vá með þeim því að við gerum okkur grein fyrir því hvort sem okkur líkar betur eða verr að þeir munu ekki gera það einir. Og þau samtök sem best geta unnið að lausn þessa máls eru Atlantshafsbandalagið og aðildarþjóðir þess þannig að aðildin að Atlantshafsbandalaginu skiptir sköpum í þessu sambandi og er því ekki hindrun heldur þvert á móti forsenda þess að við fáum lausn á þessu máli sem er ásættanleg fyrir okkur. En þessi vá er svo mikil að það hlýtur að vera forgangsverkefni íslenskra utanríkismála að reyna að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að fá lausn þessa máls.