Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 15:49:32 (5360)

1997-04-17 15:49:32# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[15:49]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Í yfirgripsmikilli ræðu lýsti hæstv. utanrrh. afstöðu sinni til margra helstu málaflokka sem snerta utanríkismál okkar og ég tel að full ástæða sé til þess að lýsa yfir ánægju með þá ræðu. Hún er yfirgripsmikil. Formsins vegna kafar hún ekki djúpt í hvern málaflokk og menn verða þá að sætta sig við það á meðan þetta form er haft á umræðunum.

Ég vil nota tækifærið sem ég hef hér til þess að minnast á tvö atriði í sambandi við ræðu hæstv. utanrrh. Annað er fyrst og fremst það að ég vil lýsa yfir sérstakri ánægju minni með ákveðin praktísk skref sem nú er verið að taka í utanrrn. Þau láta e.t.v. lítið yfir sér þar sem þeim er lýst en hafa mjög mikla þýðingu í raun. Þar er ég að tala um að verið er að koma á fót í utanrrn. sérstakri viðskiptaþjónustu sem ég hygg að muni hafa afar mikla þýðingu í framtíðinni.

Það er svo að Íslendingar hafa ekki náð að samræma sína kynningarstarfsemi fyrir íslenskt atvinnulíf á erlendum vettvangi. Í raun og veru er hún þrenns konar ef við undanskiljum utanrrn. Á sérstakan hátt er unnið að kynningarmálum íslenskra orkuframleiðenda. Það er MIL, Markaðsskrifstofa iðnrn. og Landsvirkjunar, sem starfar að því. Eðli málsins samkvæmt er þeirri skrifstofu nokkuð þröngur stakkur sniðinn. Hún fjallar um orkumálin, orkufrekan iðnað fyrst og fremst, en hún skoðar ekki orkumálin í víðara samhengi eins og t.d. út frá sjónarhóli ferðaþjónustunnar. Ferðamálaráð annast markaðssetningu íslenskra ferðamála með ófullnægjandi fjármunum og við talsverð vanefni. Síðan er Útflutningsráð sem sinnir almennri verkefnaþjónustu í sambandi við útflutninginn, en sinnir hvorki sérstaklega málefnum ferðaþjónustunnar né heldur orkufreka iðnaðarins. Það væri afar mikilsvert held ég að að reyna að finna leiðir til þess að samræma þessi mál og sameina kraftana og reyna að ná meiri slagkrafti út úr því samstarfi heldur en við höfum í dag.

Ég tel að þau tök sem utanrrn. er að taka á þessum málum séu til bóta og hygg að í ljósi þeirrar ákvörðunar að koma á fót þessari viðskiptaþjónustu sé hægt að leita eftir betri nýtingu á íslenskum starfskröftum á erlendum vettvangi heldur en hingað til hefur verið mögulegt. Ég vil því lýsa sérstakri ánægju minni með þetta atriði.

Það sem ég ætla hins vegar að koma að í mínu stutta máli snertir öryggismál í Evrópu og það hvernig við getum lagt okkar lóð á vogarskálina, einmitt á þennan praktíska hátt sem mér finnst að utanrrh. hafi nú innleitt og ég held að skipti miklu máli. Þegar rætt er um öryggismál í Evrópu finnst mér oft gleymast að grundvöllur öryggismálanna er efnahagsþróun í Mið- og Austur-Evrpópu. Á efnahagsþróuninni byggist öll öryggissamvinnan og það er ekkert eins hættulegt og sú skelfilega þróun sem hefur átt sér stað í efnahag Rússlands, Úkraínu og Hvíta-Rússlands nú á síðustu árum. Það er fátt eins hættulegt öryggi Evrópu og hrun efnahagslífsins í þessum löndum. Á sama tíma og lönd eins og Tékkland, Pólland og Ungverjaland eru á uppleið, sum þeirra eru á mjög hraðri uppleið, þá er fullkomin stöðnun í efnahagslífi Rússlands. Það er hnignun í Hvíta-Rússlandi og það er hnignun í Úkraínu.

Reyndar voru að berast fregnir um það núna nýlega að efnahag Rússlands hnignaði ekki lengur og nú væri gert ráð fyrir því að hagvöxtur hæfist þar jafnvel á þessu ári. Samkvæmt öðrum upplýsingum sem ég hef eru þetta afar ótraustar heimildir og ekkert bendir sérstkalega til þess að botninum sé náð í Rússlandi. Ég nefni það til þess að menn átti sig á stærðum mála í rússnesku hagkerfi að 1995 var tæplega 200% verðbólga í landinu. Hún hefur að vísu lækkað mjög mikið og var á árinu 1996 22%. Hins vegar eru allar hagtölur um Rússland afar ótryggar. Rúblan hefur aftur öðlast sess á alþjóðlegum mörkuðum þannig að hægt er að skipta, það er hægt að nota rúbluna sem gjaldmiðil á alþjóðlegum mörkuðum en hins vegar stendur eftir að grundvöllur skattheimtu í rússneska kerfinu er í molum og skuldir ríkisins safnast upp mjög hratt, bæði að því er varðar opinber laun og einnig að því er varðar vaxtagjöld. Hagvöxturinn var á árinu 1995--1996 neikvæður að því er talið er um 6%, og fjárfesting hefur hrunið í Rússlandi.

Hvað þýðir þetta ef við lítum á áhrif Rússa á nágrannalönd sín? Efnahagsástandið í Rússlandi hefur í raun mjög truflandi áhrif á öll nágrannaríki Rússa. Efnahagsástandið í Rússlandi hefur t.d. afar truflandi áhrif á Kákasusríkin. Ef við tökum dæmi, þá hafa Rússar að sjálfsögðu af sögulegum ástæðum mikin áhuga á því að hafa afskipti af stjórnmálaþróun í þessum löndum. Og hvaða stöðu hafa þeir til þess nú? Hvað hafa þeir að miðla þessum þjóðum? Þeir hafa ekki fjármuni. Þeir hafa ekki matvæli. Hvort tveggja skortir sárlega í þessum ríkjum. Þeir hafa ekkert nema vopn. En þeir hafa notað vopnin líka. Þeir hafa notað vopn í þessum ríkjum miskunnarlaust til þess að kynda undir innanlandsófrið þar. Það hafa þeir gert í Aserbaídsjan, í Nagornó-Karabakh. Það hafa þeir gert í Georgíu með því að vopna aðskilnaðarsinnana í Abkasíu með þeim afleiðingum að þar hefur farið fram nákvæmlega það sama og í Bosníu-Hersegóvínu, þ.e. að þar hafa farið fram kynþáttahreinsanir. Meira en helmingur þjóðarinnar hefur verið rekinn burt úr Abkasíu og lifir nú í flóttabúðum. Efnahagur þessa litla ríkis sem var þó á sínum tíma, áður en stríðið hófst, fjölmennara en Ísland, er í rúst. Verksmiðjurnar eru tómar. Þar er enginn efnahagur til.

Á meðan ástandið í Rússlandi, Úkraínu og Hvíta-Rússlandsi fer versnandi, þá er vitað mál að öryggi í Evrópu er í miklu uppnámi og mikilli hættu. Menn anda kannski rólega á meðan þeir vita að rússneski herinn er veikur, en hættan er ekki þar. Hættan er sú að efnahagsástandið verði þannig í þessum löndum að þar skapist fullkomin örvænting sem leiði af sér hættuástand í stjórnmálum.

Hvað er hægt að gera til þess að ýta undir efnahagsþróun í þessum ríkjum? Er leiðin sem við eigum að fara að veita þessum ríkjum efnahagsaðstoð, beina styrki? Í raun og veru var ákveðið fyrir um það bil sjö árum að fara aðra leið til þess að ýta undir efnahagsþróun í þessum ríkjum.

Ég minni á að Ruud Lubbers hafði frumkvæði að því á sínum tíma, þá sem forsætisráðherra Hollands, að leggja til að reynt yrði að finna flöt á því að ýta undir fjárfestingu á mjög mikilvægum sviðum í Mið- og Austur-Evrópu og það svið sem hann taldi að eðlilegast væri að nýta var einmitt orkusviðið. Þar studdist Ruud Lubbers við reynsluna í Evrópu þar sem í lok seinni heimsstyrjaldarinnar kusu menn einmitt orkugeirann til þess að reyna að hnýta saman hagsmuni Evrópuríkjanna sem voru þá að ljúka blóðugri styrjöld, hnýta saman hagsmuni Evrópuríkjanna á orkusviðinu vegna þess að það voru einmitt orkumálin sem höfðu oft valdið mikilli togstreitu milli Evrópuríkjanna. Það voru þessi mikilvægu orkuframleiðsluhéruð eins og Ruhr og Elsass-Lothringen sem höfðu skapað mikla erfiðleika í samskiptum Evrópuríkjanna lengi. Farið var af stað einmitt í orkugeiranum og þetta varð upphafið að Evrópusamvinnunni. Við getum haft hvaða skoðun sem er á því hvort við eigum að vera í Evrópusambandinu eða ekki. Hinu verður ekki neitað að sú samvinna sem hefur átt sér stað, fyrst í þessum afmörkuðu samstarfssamningum Evrópuríkjanna á sviði kola og stáls og annarra slíkra þátta, síðan í Efnahagsbandalagi Evrópu og loks nú í Evrópusambandinu, hefur skotið varanlegum stoðum undir öryggi Vestur-Evrópu. Eins hefði verið mjög æskilegt ef það hefði verið hægt að ýta undir sams konar samstarf og fjárfestingaráform varðandi Mið- og Austur-Evrópu.

Orkusáttmáli Evrópu var undirritaður á sínum tíma og á grundvelli hans var gerður samningur sem átti að vera lögformlega bindandi fyrir aðildarþjóðirnar. Sá samningur átti að vera rammasamningur utan um fjárfestingu í orkumálum. Staðan í málinu er sú að 49 þjóðir, ef ég man rétt, eru búnar að undirrita hann, þ.e. framkvæmdarvaldið er búið að staðfesta með undirritun þátttöku í þessum samningi sem lagalega bindandi samningi, en hann öðlast ekki gildi fyrr en 30 þjóðir hafa fullgilt hann. Og staðan er sú nú að einungis 20 þjóðir hafa fullgilt þennan samning.

Ég er þeirrar skoðunar að einmitt samvinna á þessu sviði hefði haft afar mikil áhrif fyrir lýðræði í Austur-Evrópuríkjunum því lýðræði byggir ekki á þeim efnahagslega grundvelli sem þar ríkir nú. Ekkert lýðræði þrífst á þeim efnahagslega grundvelli eða í því efnahagslífi í molum sem þar ríkir nú. Við höfum reyndar ekki fullgilt þennan sáttmála þannig að við höfum ekki lagt okkar litla lóð á vogarskálarnar í þessum efnum. Ég vil benda hæstv. utanrrh. á þetta mál. Ég hygg að alls engin efnisleg andstaða sé við málið í sjálfu sér. Ég held hins vegar að það væri æskilegt ef Íslendingar gætu fullgilt þennan samning hið fyrsta og vil fyrir mitt leyti lýsa því yfir hér ég að ég vil leggja mín lóð á vogarskálarnar til þess að það megi verða sem fyrst. Ég verð líka að segja að ég á svolítið erfitt með að skýra það fyrir kollegum mínum á Evrópuráðsþinginu frá Austur-Evrópuríkjunum hvers vegna Íslendingar hafa ekki þegar fullgilt þennan samning. Ég held því að ástæða væri til þess að bráður bugur yrði undinn að því að Íslendingar fullgiltu þennan samning. Ég held að hann geti komið að miklu gagni. Staðan er raunar þannig núna í sambandi við þessi orkumál að vitað er að miklar orkulindir eru í Austur-Evrópuríkjunum. Það hefur ekki tekist að nýta þær. Fjárfestingin er afar takmörkuð fyrst og fremst vegna þess að fjárfestarnir telja sig ekki njóta öryggis til fjárfestingar í þessum ríkjum. Og á meðan svo er þá munu öryggismál Evrópu ekki fá þann mikilvæga stuðning sem fólginn er í þátttöku sjálfstæðra fyrirtækja og sjálfstæðra fjárfesta í því að koma efnahag þessara fyrrverandi meðlimaríkja Sovétríkjanna í viðunandi horf. Á meðan efnahagur þessara ríkja er ekki í viðunandi horfi, þá munu stjórnmálin ekki heldur þróast þar á viðunandi hátt og lýðræðið mun eiga í vök að verjast á meðan efnahagur þessara þjóða er svo veikur sem raun ber vitni.

Þetta vildi ég láta koma fram. Ég hef hreyft þessu máli bæði á þingi NATO og á RÖSE-þinginu og ég held áfram að gera það á þingi Evrópuráðsins. Ég á marga skoðanabræður í þessum efnum sem telja að lykilinn að öryggi Evrópu sé að finna í efnahagsmálunum og að sé afar mikil hætta sé fólgin í því að horfa aðgerðarlausir upp á hrun efnahagslífsins sem nú á sér stað í þessum stóru ríkjum Austur-Evrópu. Þetta vildi ég benda á hér í fullri vinsemd og hvetja til þess og lýsa yfir áhuga mínum á því að reyna að stuðla að því að þessi samningur verði fullgiltur.