Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 16:36:59 (5365)

1997-04-17 16:36:59# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KPál
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[16:36]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil, eins og fleiri hv. þingmenn, þakka hæstv. utanrrh. fyrir yfirgripsmikla ræðu þar sem helstu hagsmunamál okkar í utanríkismálum og viðskiptum voru tíunduð. Ég þakka einnig hæstv. utanrrh. fyrir þá afstöðu sem hann tók fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, að standa með mörgum vestrænum ríkjum undir forustu Dana að fordæmingu á mannréttindabrotum í Kína. Það vakti með mér óhug hve mörg vestræn ríki tóku ekki afstöðu með þessari ályktun í mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna. Sá óhugur byggist ekki hvað síst á þeirri kúgunartaktík sem Kínverjar notuðu til að beygja lýðræðisþjóðir í krafti stærðar sinnar.

Hvert mun vaxandi yfirgangur Kínverja leiða okkur? Fjöldamorð Kínverja á eigin landsmönnum og Tíbetum ættu að vera vestrænum þjóðum nægt tilefni fyrir utan öll önnur atvik til að taka undir slíka ályktun. Nei, það var öðru nær og verð ég að lýsa undrun minni yfir viðbrögðum sem koma fram í helstu fjölmiðlum okkar Íslendinga á þessu máli þar sem því er slegið upp sem sigri Kínverja. Sigur yfir hverjum? Ég kalla þetta kúgun og mjög alvarlegt að slíkt geti gerst í dag og ekki séð að mínu viti fyrir endann á því hvort þetta sé fyrsta alvarlega skrefið í kúgun Kínverja á hinum vestræna heimi. Er það sigur? Ég segi nei. Það er í mínum huga ofbeldi.

Herra forseti. Ég vil taka undir áhyggjur hæstv. ráðherra vegna tilhneigingar Evrópusambandsins til að innlima VES í Evrópusambandið eins og kemur fram í skýrslu hæstv. ráðherra. Það er að mínu áliti veikt fyrir Evrópu, þ.e. Evrópu framtíðarinnar. Innan Vestur-Evrópusambandsins starfa hlið við hlið þjóðir með málfrelsi og jafnvel sumar með takmarkaðan atkvæðisrétt eins og við Íslendingar. Raddir þessara þjóða munu þagna ef innlimun verður í Evrópusambandið en þær hafa saman getað skapað grundvöll að friðarferli til samstarfs, eins og t.d. í Bosníu og víðar, sem ekki er víst að náðst hefði með öðrum hætti.

Ég spurði hæstv. utanrrh. á síðasta þingi hvort hann hygðist vinna að því að Ísland gerðist fullgildur aðili að Vestur-Evrópusambandinu. Ég teldi að það mundi styrkja stöðu Íslands í Evrópu og stöðu Vestur-Evrópusambandsins. Hæstv. ráðherra sagði þá í svari sínu að hann væri ekki að vinna að slíku eða hygðist sækja um aðild, enda eru lög Vestur-Evrópusambandsins þannig að okkur er það ekki heimilt. Ég hefði þó talið æskilegt að við reyndum að fá þeim reglum breytt og veit ég að innan Vestur-Evrópusambandsins er stuðningur fyrir því að Íslendingar gerist fullgildir aðilar að þeim samtökum. Ég vil því spyrja hæstv. utanrrh. enn og aftur hvort einhver slík vinna sé í gangi í dag til að undirbúa fulla aðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu.

Herra forseti. Á þingi Sameinuðu þjóðanna í desember sl. í fyrstu nefnd þingsins var borin upp tillaga um álit Alþjóðadómstólsins varðandi lögmæti kjarnorkuvopna. Að áliti NATO-ríkja var litið á þessa tillögu sem árás þjóða eins og Kínverja og fleiri á varnarkerfi NATO. Öll NATO-ríkin greiddu atkvæði gegn tillögunni nema Ísland, Danmörk og Noregur. Ísland stóð þar að því að kljúfa samstöðu NATO-ríkjanna gegn ýmsum einræðisríkjum. Ég spyr hæstv. utanrrh. að því hvað hafi búið þarna að baki.

Fleiri dæmi eru um að við snúum okkur í hlutleysisátt og stöndum ekki með Bandaríkjamönnum eins og við gerðum áður. Ég vil einnig spyrja hæstv. utanrrh. að því hvort við séum að breyta afstöðu okkar í málefnum sem snúa að NATO og samstöðu okkar með Bandaríkjamönnum. (Utanrrh.: Gerðu svo vel að endurtaka, ég missti af spurningunni.) Ég var með tvær spurningar til hæstv. utanrrh. Önnur er hvort einhver vinna sé í gangi til að Íslendingar sæki um fulla aðild að Vestur-Evrópusambandinu. Ég spurði hæstv. ráðherra að því í fyrra hvort slík vinna yrði sett af stað. Svarið við þeirri spurningu var þá neikvætt og ég spyr, vegna þess að ég deili áhyggjum með hæstv. ráðherra út af þeirri tilhneigingu Evrópusambandsins að innlima Vestur-Evrópusambandið í Evrópusambandið og hvort við gætum hugsanlega styrkt Vestur-Evrópusambandið og okkur með því að sækja þetta mál fastar.

Ég spurði hæstv. ráðherra einnig að því, og verð þá að endurtaka þann hluta ræðu minnar, að á þingi Sameinuðu þjóðanna í desember sl. í fyrstu nefnd þingsins var borin upp tillaga um álit Alþjóðadómstólsins varðandi lögmæti kjarnorkuvopna. Að áliti NATO-ríkjanna var litið á þessa tillögu sem árás þjóða eins og Kínverja og fleiri á varnarkerfi NATO-ríkjanna. Öll NATO-ríkin greiddu atkvæði gegn þessari tillögu nema Ísland, Danmörk og Noregur. Ísland stóð sem sagt að því að kljúfa samstöðu NATO-ríkjanna gegn ýmsum einræðisríkjum sem þá höfðu uppi andmæli gegn samtökum NATO-ríkja. Ég spyr því hæstv. utanrrh.: Hvað bjó þarna að baki? Hvað bjó að baki því að við greiddum ekki atkvæði með öðrum NATO-ríkjum í þessu máli?

Ég hef einnig heyrt af ýmsum smærri málum sem hafa sýnst hníga í þá átt að við séum að hverfa frá afdráttarlausri og skýrri afstöðu með NATO-ríkjum og Bandaríkjunum og ég spyr hvort það sé einhver stefna í þá áttina af hálfu utanrrn. að sýna ekki þá samstöðu með NATO og Bandaríkjunum sem við höfum sýnt hingað til.