Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 16:52:42 (5370)

1997-04-17 16:52:42# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SvG
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[16:52]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég hef út af fyrir sig haft aðstöðu til þess að fylgjast með þessari umræðu að talsverðu en þó ekki öllu leyti í dag og margt umhugsunarvert hefur komið fram sem mig langaði kannski til þess að hnykkja á. Fyrst vil ég segja að mér finnst það umhugsunarefni hvort þessi umræða eins og hún er þjónar tilgangi sínum. Ég veit ekki alveg hvaða gagni hún skilar, ég er ekki alveg viss um það. En ég tek eftir því að utanrrn. er fjölmennt hér í hliðarsölum sem betur fer, tekur niður hinar þörfu ábendingar þingmannanna og gerir þeim einhver skil. Þó veit ég satt að segja ekki hvort þessi tegund af umræðu er skynsamleg. Ég vil því nefna til íhugunar hvort það mætti hugsa sér að hafa hana öðruvísi. Hættan er auðvitað sú að ef menn breyttu umræðunni, þá dyttu menn inn í það sem kallað er talsmannakerfi. Það hefur sína kosti og það hefur líka sína galla því að það þýðir að það takmarkar aðgang þingmanna að umræðunni talsvert. Umræðan yrði þá bundin við tiltekna talsmenn sem væru valdir af flokkunum og þeir sem eru ekki efstir á vinsældalista viðkomandi þingflokka yrðu kannski afar sjaldan í ræðustól með því móti sem er skaði því að þeir sem eru heldur neðan til á vinsældalistum þingflokkanna hafa átt margt gott til málanna að leggja. Málið er flókið en ég held þó að það sé umhugsunarvert hvort við ættum að reyna að hafa þessa umræðu einhvern veginn öðruvísi án þess að ég sé með upp gerðan hug um hvernig það ætti nákvæmlega að vera.

Ég vil einnig segja í framhaldi af þessari umræðu að ég tel að mjög margt merkilegt hafi komið fram í henni og ég verð að segja eins og er að eitt það merkilegasta finnst mér hafa verið það þegar hæstv. utanrrh. sagði frá þeirri ákvörðun sinni að skipa nefnd til að gera úttekt á því hvernig íslenska utanríkisþjónustan gæti best sinnt hlutverki sínu miðað við breyttar aðstæður. Það kom fram í máli hv. 4. þm. Reykv., formanns utanrmn., að ætlunin væri að í þessari endurskoðunarnefnd væru fjórir fulltrúar frá utanrmn. og gert væri ráð fyrir því að stjórnarandstaðan ætti aðild að þeirri nefnd. Ég tel það fagnaðarnefni. Staðreyndin er nú sú að það hefur ekki gengið allt of vel að ná samstöðu um utanríkisstefnuna eins og menn þekkja né heldur utanríkisþjónustuna. Við stöndum á tímamótum í þeim efnum eins og heimurinn allur. Það hafa verið að gerast mjög miklar breytingar sem hafa gerbreytt því landslagi sem við kynntumst flest sem erum í þessum sal fyrir fáeinum áratugum. Breytingarnar eru gríðarlega miklar og við höfum ekki lagað okkur að þessum breytingum. Við höfum heldur ekki búið til sveigjanleika í okkar kerfi sem gerir það kleift að laga sig að breytingunum svo að segja jafnóðum og þær verða. Okkur hættir til þess að vera föst í sama farinu lengi og hættir til þess að búa til þannig kerfi að það tekur okkur langan tíma að hefja okkur til flugs eða til að breyta þótt augljóst sé að samtíminn og aðstæðurnar kalli á breytingar sem væru hagstæðar fyrir Ísland.

Nú er mér ljóst að þessi hugmynd um skipan nefndar fjallar ekki um utanríkisstefnuna. Hún er að forminu til í fyrsta lagi mótuð á Alþingi og framkvæmd hennar er síðan í höndum ríkisstjórnar og utanrrh. en utanríkisþjónustan er gríðarlega mikill partur af utanríkisstefnunni í raun og framkvæmd utanríkismála. Þess vegna finnst mér þessi ákvörðun hæstv. utanrrh. sérstaklega ánægjuleg og má segja að hún sé í beinu framhaldi af umræðum sem hafa verið um þessi mál í þinginu mörg undanfarin ár í tengslum við skýrslu utanrrh. Ég man eftir slíkum umræðum bæði af hálfu, af því að ég sé þá hér í salnum, hv. þm. Geirs H. Haardes, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og fleiri um nauðsyn þess að reynt sé að taka á þessum hlutum með nýjum hætti. Það sem mér finnst kannski sérstök ástæða til að vekja athygli á er að þegar utanrrh. tilkynnti um þessa ákvörðun sína fyrir utanrmn. þá gerði hann það með pólitískum rökum, ekki eingöngu tæknilegu rökum heldur pólitískum rökum, þ.e. að ný heimsmynd hefði mikil áhrif á stöðu Íslands sem annarra ríkja í samfélagi þjóðanna.

Heimurinn er orðinn eitt markaðssvæði. Landamæri eru óljósari og óljósari og það er greinilegt að á næstu árum og áratugum munu alþjóðlegir samningar í skilningnum glóbal-samningar, heildarhnattrænir samningar, í vaxandi mæli taka við sem stýritæki í heiminum. Þá er ég ekki að tala um samninga í umhverfismálum sem skipta gríðarlega miklu máli --- auðvitað verða þeir ekki að neinu gagni nema þeir séu hnattrænir, alþjóðlegir --- heldur er ég líka að tala um samninga í öryggis- og friðarmálum, samninga sem leysa af þá skipan sem hefur verið í þeim efnum undanfarna áratugi. Ég er líka að tala um samninga sem snerta efnahagsmál t.d. GATT-samninginn og samninginn um Alþjóðaviðskiptastofnunina, svo dæmi séu nefnd.

Allir þessir hlutir eru síðan með þeim hætti að það er náttúrlega greinilegt að sú heimsmynd sem við höfum haft fyrir augunum síðustu áratugi hefur að nokkru leyti orðið til að kljúfa íslenskt samfélag pólitískt með öðrum hætti en ella hefði verið. Það er alveg greinilegt að ágreiningur um utanríkismál hefur verið úrslitaágreiningur í íslenskum stjórnmálum um áratuga skeið og getur svo sem vel verið að hann verði það eitthvað lengur. En það er líka greinilegt að þessi heimur er að breytast og þessar ágreininingsforsendur eru að breytast. Út af fyrir sig tel ég að mig reki rétt minni til þess að ég hafi haft orð á því áður í umræðum um skýrslu utanrrh. ekki aðeins í tíð núv. hæstv. utanrrh. heldur líka forvera hans. Mér finnst satt að segja að þessi niðurstaða, að kalla til víðtækrar samstöðu varðandi forgangsröðun verkefna á vegum utanríkisþjónustunnar, staðsetningu nýrra sendiráða á næstu árum og fleira, sé svar við þessum áskorunum. Að nokkru leyti líka sýnir það vilja til þess að þessi gjá sem hefur verið til í íslenska samfélaginu verði brúuð og reynt verði að ná samstöðu um utanríkisstefnu á komandi árum og áratugum sem er meiri ánægja með í landinu og breiðari samstaða um en hefur verið. Staðreyndin er sú að hvergi nokkurs staðar hefur verið eins mikill ágreiningur um utanríkismál og framkvæmd utanríkisstefnunnar og á Íslandi af t.d. NATO-ríkjunum. Hvergi nokkurs staðar hefur verið jafnopinn og beinn ágreiningur t.d. um aðildina að NATO. Hvergi hefur verið eins mikill ágreiningur t.d. um erlenda herstöð og hér hefur verið. Þetta helgast m.a. af því að við erum fámenn þjóð og nýlega sjálfstæð þannig að það var erfitt fyrir þjóðina að sætta sig við það að taka við erlendum her og að þjóðin yrði aðili að hernaðarbandalagi. Þetta er að breytast. (Gripið fram í: Eru það kommúnistar?) Nei, það var mikið víðtækara, hv. þm., eins og hann þekkir, t.d. úr sínu kjördæmi Austurlandi þar sem ég gæti nefnt marga mæta menn í öllum flokkum sem settu spurningarmerki við þessa utanríkisstefnu. Veruleikinn er þessi. Þess vegna held ég að ástæða sé til að kvitta sérstaklega fyrir það. Alla vega hef ég tekið eftir því að menn hafa ákveðið að reyna að komast að þessum hlutum með öðrum hætti, reyna að efna til nýrrar samstöðu fyrst um aðferðina við að framkvæma utanríkisstefnuna út af fyrir sig sem að lokum mun, að mínu mati, leiða til þess að kannski verður samstaða um utanríkisstefnuna sjálfa líka.

Auðvitað er það svo, herra forseti, að enn þá verður maður var við í þessum umræðum áherslur og uppsetningu mála sem maður hefði ímyndað sér að tilheyrðu liðnum tíma og það er í sjálfu sér ekkert við það að athuga að menn dragi það fram. En verkefni okkar hér er auðvitað nútíminn og framtíðin og ég tel að það reyna að kalla til víðtækrar samstöðu með þeim hætti sem hér er reynt sé jákvætt og ég er hingað kominn til að þakka fyrir það.